Ferill 990. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1956  —  990. mál.




Svar


háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra við fyrirspurn frá Andrési Inga Jónssyni um kínverska rannsóknamiðstöð.


     1.      Hver er aðkoma íslenskra stjórnvalda að rekstri rannsóknamiðstöðvar sem Heimskautastofnun Kína (PRIC) rekur á Kárhóli? Var formlegt samstarf íslenskra og kínverskra stjórnvalda forsenda þess að af uppbyggingunni gæti orðið?
    Íslensk stjórnvöld hafa ekki beina aðkomu að rekstri rannsóknamiðstöðvarinnar á Kárhóli. Rannsóknamiðstöðin er í eigu sjálfseignarstofnunarinnar Aurora Observatory sem gert hefur leigusamning við Heimskautastofnun Kína. Rekstur og viðhald fasteignarinnar er í höndum sjálfseignarstofnunarinnar en umsjón og viðhald með þeim tækjabúnaði sem þar er, er í höndum starfsfólks Heimskautastofnunar Kína og Raunvísindastofnunar Háskóla Íslands. Um það rannsóknastarf sem unnið er á Kárhóli er fjallað í samstarfsnefnd Rannsóknamiðstöðvar Íslands (Rannís) og Heimskautastofnunar Kína um vísindastarfsemi, svokallaðri China-Iceland Arctic Observatory. Formlegt samstarf íslenskra og kínverska stjórnvalda var forsenda þessa rannsóknasamstarfs.
    Rammasamningur um samstarf á norðurslóðum var undirritaður af þáverandi utanríkisráðherrum Íslands og Kína í apríl 2012. Þá var jafnframt gengið frá viljayfirlýsingu um samstarf á sviði sjávar- og heimskautavísinda milli íslenska utanríkisráðuneytisins og Hafmálastofnunarinnar (State Oceanatic Administration) í Kína. Í ágúst sama ár gerði Heimskautastofnun Kína samstarfssamning við Raunvísindastofnun Háskóla Íslands og skrifað var undir viljayfirlýsingu um samstarf milli Heimskautastofnunarinnar og Rannís. Í september 2013 var síðan skrifað undir rammasamning milli Rannís og Heimskautastofnunarinnar um ChinaIceland Arctic Observatory og í framhaldi af því hófst undirbúningur að því að koma á fót rannsóknamiðstöðinni á Kárhóli. Í rammasamningi er skýrt að höfundarréttur allra gagna sem aflað er á rannsóknastöðinni sé í sameiginlegri eigu íslenskra og kínverskra samstarfsaðila verkefnisins og að gögnin sem athuganirnar taki til muni verða aðgengileg og opin gagnvart alþjóðlega vísindasamfélaginu. Árið 2018 endurnýjaði Heimskautastofnun Kína samstarfssamninga sína við Raunvísindastofnun Háskóla Íslands, Hafrannsóknastofnun og Veðurstofu Íslands. Rammasamningur Rannís og Heimskautastofnunar Kína var jafnframt endurnýjaður árið 2018 og vísindasvið samstarfsins útvíkkuð. Nafni stöðvarinnar var breytt í China-Iceland Arctic Science Observatory í mars 2018 en stöðin var svo formlega opnuð í október 2018. Samstarfssamningar einstakra stofnana byggja þannig á formlegu samstarfi íslenskra og kínverskra stjórnvalda.

     2.      Hvaða eftirlit hafa stjórnvöld almennt með starfsemi miðstöðvarinnar?
    Íslensk stjórnvöld hafa ekki beint eftirlit með starfsemi rannsóknamiðstöðvarinnar á Kárhóli fremur en öðrum vöktunarrannsóknum sem innlendir og erlendir aðilar framkvæma á hverju ári á Íslandi. Til samanburðar má nefna að Heimskautastofnun Japans hefur um áratugaskeið rekið tvær norðurljósarannsóknastöðvar á Íslandi sem ekki hefur verið haft sérstakt eftirlit með. Þess má geta að gert er ráð fyrir að tækjabúnaður japönsku heimskautastofnunarinnar sem er á Norðurlandi verði færður að rannsóknamiðstöðinni á Kárhóli síðar á þessu ári sem mun efla starfsemi stofnunarinnar. Þess má einnig geta að allur sá tækjabúnaður sem er til staðar á Kárhóli var fluttur inn af Raunvísindastofnun Háskóla Íslands og er í samræmi við tækjabúnað sambærilegra rannsóknastöðva.