Ferill 987. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.
153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1915 — 987. mál.
2. umræða.
Nefndarálit
um frumvarp til laga um breytingu á lögum um heilbrigðisstarfsmenn, nr. 34/2012 (hámarksaldur heilbrigðisstarfsmanna ríkisins).
Frá 1. minni hluta velferðarnefndar.
Í frumvarpinu er lagt til að heimilt verði að ráða heilbrigðisstarfsmann í starf við heilbrigðisþjónustu sem ríkið veitir þrátt fyrir að viðkomandi hafi náð 70 ára aldri og má ráðning vara allt til 75 ára aldurs, á tímabilinu 1. janúar 2024 til 31. desember 2028. Skilyrði er að starfið felist í beinum samskiptum við sjúklinga, stoðþjónustu eða rannsóknum í tengslum við þjónustu við sjúklinga eða handleiðslu yngra starfsfólks og nema, enda er skortur á nýliðun mestur í þessum tegundum starfa. Fram kemur í greinargerð frumvarpsins að samkvæmt gögnum heilbrigðisráðuneytisins liggi fyrir að umtalsverður hluti heilbrigðisstarfsmanna sem starfar nú hjá ríkinu nálgist eftirlaunaaldur. Af heilbrigðisstarfsmönnum í störfum hjá ríkinu eru 31% lífeindafræðinga, 28% sjúkraliða, 25% ljósmæðra og 20% lækna og hjúkrunarfræðinga 60 ára og eldri. Án lagabreytinga verður að segja þeim upp störfum við 70 ára aldur. Langir biðlistar eru eftir þjónustu ýmissa heilbrigðisstétta og lítil nýliðun setur strik í reikninginn hjá sumum heilbrigðisstéttum sem starfa hjá ríkinu, til að mynda lífeindafræðingum, segir einnig í greinargerðinni. Því má telja að frumvarpið yrði til bóta fyrir þá heilbrigðisstarfsmenn sem það nær til og mikilvægt í manneklunni að starfsfólkið sjái sér hag í að fresta töku lífeyris með þeim hætti.
Flest nágrannalönd okkar hafa áttað sig á mikilvægi þess að fjárfesta í heilbrigðis- og félagsþjónustu og tilheyrandi starfsfólki. Við Íslendingar erum því í harðri samkeppni við önnur lönd um starfsfólk. Úti um allan heim eru þjóðir að leita leiða til að laða heilbrigðis- og umönnunarfagfólk til starfa og reyna að sjá til þess að það vilji starfa áfram innan heilbrigðis- og umönnunargeirans.
Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) og Evrópusambandið (ESB) hafa sett fram tillögur og viðmið í þessum efnum. Þar er lögð áhersla á úrbætur á vinnustað og bættar starfsaðstæður, sem og möguleika á framgangi í starfi. Skapa þurfi mannsæmandi og öruggt starfsumhverfi, ráðast í aðgerðir gegn óhóflegu álagi og bjóða starfskjör sem viðhalda starfsánægju starfsmanna. Heilsa starfsmannanna sjálfra, öryggi á vinnustað og andleg vellíðan þeirra er einnig mikilvæg. Greina þurfi kynja- og aldurstengdan mun á þörfum starfsmanna, hættu á kulnun, vinna gegn áreitni og koma í veg fyrir ofbeldi á vinnustað. Notendur þjónustunnar muni jafnframt njóta góðs af ef starfsmenn fá betra starfsumhverfi og stuðning við störf sín. Einnig er lögð áhersla á að geta starfsmanna sé nýtt að fullu við að veita heilbrigðis- og umönnunarþjónustu og að nægilegur fjöldi starfsmanna með nauðsynlega færni sé til staðar á réttum stað á réttum tíma. Fylgja eigi siðareglum um ráðningar og bregðast við breyttri aldurssamsetningu þjóða og fólksflutningum. Þá er sérstaklega varað við því að ástandinu verði svarað með auknum einkarekstri í heilbrigðisþjónustu í gróðaskyni.
Augljóst er að íslensk stjórnvöld verða að gera betur í þessum efnum og mun meira en þetta frumvarp gerir ráð fyrir. Það er áhyggjuefni að í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir árin 2024–2028 er talað um mönnunarvandann sem áskorun en allt of fáar raunhæfar fjármagnaðar leiðir lagðar fram til úrbóta. Það væri hægt að gera margt fyrir aukið fjármagn, svo sem að laða að starfsmenn og halda hinum sem fyrir eru með betri kjörum, kaupa nýrri og betri tæki og fjölga nemaplássum svo eitthvað sé nefnt, auk þess að fara eftir sama verklagi og WHO og ESB mæla með.
Allir eru sammála um að mönnunarvandinn mun vinda upp á sig og verða ein helsta ógn við heilbrigði þjóða ef ekkert verður að gert. Vandinn verður ekki leystur án fjárútláta og ekki heldur með því að bjóða eldra starfsfólki lakari kjör ef það vinnur lengur en til 70 ára aldurs.
Lagaskylda til greiðslu iðgjalds til skyldutryggingar lífeyrisréttinda fellur niður við 70 ára aldur. Á sama tíma fellur skyldubundið lífeyrisiðgjald launagreiðanda vegna launþega einnig niður vegna aldurs. Launþegar geta þó kosið að greiða enn þá iðgjald til viðbótarlífeyrissparnaðar og gerir frumvarpið ráð fyrir að sömu reglur gildi um slíkar greiðslur og mótframlag launagreiðanda þó svo að starfsmaður sé orðinn 70 ára að aldri.
Fyrsti minni hluti getur ekki tekið undir það sem fram kemur í greinargerð frumvarpsins, þar sem því er haldið fram að aðrar leiðir en lagasetning séu betur til þess fallnar að bregðast við þeim möguleika að kostnaður ríkisins vegna starfsmanna yfir sjötugu yrði lægri en vegna yngri starfsmanna. Varðandi séreignarsjóð viðbótarlífeyrisréttinda getur starfsmaður sem náð hefur 70 ára aldri áfram kosið að nýta heimild til þess að láta draga af launum sínum til greiðslu í séreignarsjóð lífeyrisréttinda og þiggja mótframlag launagreiðanda samkvæmt hefðbundnum reglum sem um það gilda. Greiðsla launagreiðanda í samtrygginguna fellur hins vegar niður og þannig verða eldri starfsmenn ódýrara vinnuafl en þeir sem eru yngri en 70 ára.
BHM bendir í umsögn sinni á að miðað við núverandi kjarasamninga ber launagreiðanda að greiða 11,5% af heildarlaunum í mótframlag í samtryggingarsjóð og að auki allt að 2% í séreignarsparnað. Það eigi hins vegar ekki við um starfsfólk eldra en 70 ára enda tekur Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins ekki við greiðslum í samtryggingarsjóði frá eldra fólki. Samkvæmt núverandi fyrirkomulagi gæti því launagreiðandi sparað sér sem nemur þessu mótframlagi í lífeyrissjóð með því að ráða til sín einstakling sem kominn er yfir sjötugt. Þá segir í umsögn BHM: „Það er lágmarkskrafa að starfsfólk sem ákveður að vinna lengur í þágu heilbrigðiskerfis og þjóðar fái sams konar kjör og áður. Því er það skýlaus krafa bandalagsins að bætt verði inn í frumvarpið ákvæði um að í stað þess að greiða mótframlag í skyldutryggingu beri launagreiðanda að greiða samsvarandi hlutfall af heildarlaunum, auk þess sem nemur séreignarframlaginu ef við á, ofan á launin ellegar inn í séreignarsjóð, í nánara samkomulagi við starfsmann.“ BSRB segir í umsögn sinni að stefna stjórnvalda virðist vera sú að það fólk sem starfi áfram eftir 70 ára aldur verði ódýrari starfskraftur en yngra starfsfólk, enda þurfi atvinnurekandi þá ekki að greiða mótframlag í lífeyrissjóð viðkomandi.
Fyrsti minni hluti telur nauðsynlegt að löggjafinn sé skýrari um kjör og réttindi starfsfólksins en lagt er til í frumvarpinu og leggja flutningsmenn til breytingartillögu þar um. Í ljósi þess að lög um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997, gera ekki ráð fyrir skyldu til greiðslu lágmarksiðgjalds eftir 70 ára aldur er lagt til að kveðið verði sérstaklega á um meðferð mótframlags launagreiðanda vegna þeirra starfsmanna sem ráðnir eru á grundvelli ákvæðisins. Breytingartillagan tryggir að starfsfólkið verði ekki af mótframlagi launagreiðanda samkvæmt kjarasamningum og geti ákveðið að fá sama hlutfall af heildarlaunum greitt í séreignarsjóð. Í því felst að atvinnurekandinn ber ekki minni kostnað af eldra starfsfólki og starfsfólkið er hvatt til starfa með betri kjörum. Þessi breyting taki aðeins til þess hóps sem frumvarpið um heilbrigðisstarfsmenn fjallar um.
Jafnvel þó að réttlætanlegt megi telja að setja sérstaka aldursreglu fyrir heilbrigðisstarfsfólk hvetur 1. minni hluti til þess að málið verði skoðað heildstætt með almennum reglum fyrir alla ríkisstarfsmenn.
Alþingi, 1. júní 2023.
Oddný G. Harðardóttir, frsm. |
Halldóra Mogensen. |