Ferill 962. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.
153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1981 — 962. mál.
Svar
heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Evu Sjöfn Helgadóttur um skimun fyrir krabbameini.
1. Stendur til að bjóða upp á skimun fyrir brjóstakrabbameini fyrir konur yngri en 40 ára í ljósi þess að 215 konur undir 40 ára aldri hafa greinst með brjóstakrabbamein sl. 20 ár?
Afar mikilvægt er að lýðgrunduð skimun byggi á gagnreyndri og bestu þekkingu. Hér á landi er stuðst við evrópskar ráðleggingar um skimun. Flest lönd hefja skimun fyrir brjóstakrabbameini við 45 eða 50 ára aldur. Það er vegna þess að ávinningur er ekki eins mikill hjá yngri konum. Meiri skimun skilar ekki betri árangri og of miklar skimanir geta verið skaðlegar þegar um er að ræða falskar jákvæðar niðurstöður sem geta leitt til ofgreininga og ýmissa skaðlegra hliðarverkana eða falskar neikvæðar niðurstöður sem valda falskri öryggiskennd og hugsanlega seinkaðri greiningu. Til að breyta aldursviðmiði fyrir skimun þyrftu að koma til nýjar rannsóknir og ráðleggingar sem styddu það.
2. Hversu margar konur hafa greinst með brjóstakrabbamein við fyrstu skimun sem boðað er í þegar þær ná 40 ára aldri? Óskað er eftir sundurliðun fyrir sl. 10 ár.
Samkvæmt upplýsingum úr krabbameinsskrá greindust 75 konur á aldrinum 38–68 ára með brjóstakrabbamein í fyrstu skimun á árunum 2009–2020. Ekki eru til upplýsingar fyrir árin 2021 og 2022. Skilgreiningin sem notuð er við þessa útreikninga tekur til krabbameina sem greinast allt að sex mánuðum eftir mætingu í skipulagða leit.
Meðalaldur þessara kvenna var 49 ár. Í takt við það var hlutfall þeirra sem voru yngri en fimmtugar við greiningu 65%. Hér er um að ræða bráðabirgðaútreikninga og tölurnar gætu tekið einhverjum breytingum. Unnið er að uppgjöri fyrir leitarstarfið, sem nær yfir 30 ára tímabil, þar sem sérstaklega er skoðuð útkoma hjá hópnum sem var boðaður 40–49 ára og hún borin saman við hópinn sem mætti 50–69 ára. Niðurstöður úr þeirri athugun eru væntanlegar á næsta ári.
Taflan hér á eftir sýnir fjölda krabbameina eftir árum. Mikilvægt er að hafa í huga að töluvert flökt getur verið milli ára og skýrist það einkum af smæð þjóðarinnar. Af þeim sökum er nýgengi krabbameins yfirleitt reiknað sem meðaltal fimm ára til að gefa réttari mynd af stöðu mála.
Ár | Fjöldi |
2009 | 9 |
2010 | 8 |
2011 | 7 |
2012 | 9 |
2013 | 6 |
2014 | 1 |
2015 | 3 |
2016 | 3 |
2017 | 8 |
2018 | 3 |
2019 | 10 |
2020 | 8 |
Samtals | 75 |
3. Stendur til að endurskoða það fyrirkomulag að bjóða konum að fara í skimun fyrir leghálskrabbameini aðeins á þriggja ára fresti, í stað tveggja eins og áður var?
Í skimun fyrir leghálskrabbameini hér á landi er nú stuðst við danskar leiðbeiningar sem byggðar eru á bestu þekkingu og notuð er næmari greiningaraðferð en áður var notuð, með HPV-mælingu. Ekki stendur til að endurskoða það fyrirkomulag. Vonir eru bundnar við að skimun fyrir leghálskrabbameini kunni að verða óþörf þegar hópar sem bólusettir hafa verið við HPV komast á skimunaraldur.