Ferill 952. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Prentað upp.

Þingskjal 2095  —  952. mál.
Leiðréttur texti.

2. umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um virðisaukaskatt, lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða og lögum um tekjuskatt (eftirlitsheimildir, endurgreiðsla og séreignarsparnaður).

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Guðlaugu Maríu Valdemarsdóttur, Hlyn Ingason, Önnu Valbjörgu Ólafsdóttur og Elínu Guðjónsdóttur frá fjármála- og efnahagsráðuneyti, Sigurð Hannesson, Björgu Ástu Leifsdóttur og Ingólf Bender frá Samtökum iðnaðarins. Friðrik Jónsson og Vilmar Hilmarsson frá Bandalagi háskólamanna og Guðnýju Bjarnadóttur, Ingu Láru Hjaltadóttur og Jóhönnu Láru Guðbrandsdóttur frá Skattinum.
    Umsagnir bárust frá Arkitektafélagi Íslands, Bandalagi háskólamanna, Hagsmunasamtökum heimilanna, Samtökum iðnaðarins, Seðlabanka Íslands og Skattinum. Þá barst nefndinni minnisblað frá fjármála- og efnahagsráðuneyti.

Efni frumvarpsins.
    Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997, og lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003.
    Breytingar á lögum um virðisaukaskatt lúta að auknum úrræðum Skattsins í þeim tilgangi að bæta skil og eftirlit með þeim sem skráðir eru á virðisaukaskattsskrá og lækkun á endurgreiðsluhlutfalli virðisaukaskatts af vinnu manna við nýbyggingu, endurbætur og viðhald íbúðarhúsnæðis úr 60% í 35%. Lækkun endurgreiðsluhlutfallsins er liður í aðgerðum stjórnvalda til þess að bæta afkomu ríkissjóðs, draga úr þenslu og sporna gegn verðbólguþrýstingi og hækkun verðbólguvæntinga.
    Einnig er lagt til að heimild til skattfrjálsrar ráðstöfunar og úttektar viðbótariðgjalds til séreignarsparnaðar vegna öflunar íbúðarhúsnæðis til eigin nota verði framlengd um eitt og hálft ár, eða til og með 31. desember 2024. Að óbreyttu fellur úrræðið úr gildi 30. júní 2023.

Umfjöllun.
Lækkun á endurgreiðsluhlutfalli virðisaukaskatts vegna vinnu manna við nýbyggingu, endurbætur og viðhald íbúðarhúsnæðis.
    Í 5. gr. frumvarpsins er lagt til að hlutfall þess virðisaukaskatts, sem byggjendur og eigendur íbúðarhúsnæðis hafa greitt af vinnu manna á byggingarstað við nýbyggingu, endurbætur og viðhald húsnæðis til eigin nota fá endurgreitt, verði lækkað úr 60% í 35% frá og með 1. júlí 2023. Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að aðgerðin sé liður í markmiðum stjórnvalda til að bæta enn frekar afkomu ríkissjóðs, draga úr þenslu og ná niður verðbólguvæntingum. Þá sé aðgerðinni ætlað að styðja við eitt af meginmarkmiðum Seðlabankans, þ.e. að stuðla að stöðugu verðlagi og því að árleg verðbólga verði að jafnaði sem næst 2,5%.
    Í umsögn Samtaka iðnaðarins kemur fram að samtökin telji fyrirhugaða lækkun á endurgreiðsluhlutfalli virðisaukaskatts til þess fallna að draga úr uppbyggingu íbúðarhúsnæðis. Þá komi áformin til með að hækka kostnað við húsbyggingar, draga úr framboði íbúða sem komi fram eftir 2–3 ár, hækka verð íbúða, auka verðbólgu þegar áhrifin koma fram á húsnæðismarkaði og leiða til hærri vaxta. Í minnisblaði ráðuneytisins er ítarlega farið yfir efni umsagnarinnar og brugðist við einstökum efnisatriðum hennar. Meiri hlutinn vísar til þeirra sjónarmiða sem þar koma fram og undirstrikar að aðgerðin er m.a. til þess fallin að hægja á vexti heildareftirspurnar í hagkerfinu og draga úr verðbólgu. Það fari eftir aðstæðum hjá byggingaraðilum sjálfum og á íbúðamarkaði að hve miklu leyti aðilar kunni að sjá sér hag í því að draga úr fyrri byggingaráformum, bæði út frá kostnaði og tekjum af sölu íbúða. Muni áhrif ákvæðisins ráðast af því samspili. Meiri hlutinn telur mikilvægt að ekki dragi úr uppbyggingu íbúðarhúsnæðis enda á að auka enn frekar byggingu íbúða í almenna íbúðakerfinu úr 500 íbúðum árlega í 1.000 íbúðir á ári 2024 og 2025. Auk þess verður 250 nýjum íbúðum bætt við fyrri áætlanir þessa árs og verða þær þá samtals tæplega 800. Þetta styður við aukið framboð á húsnæðismarkaði.
    Meiri hlutinn beinir því til ráðuneytisins að samhliða lækkun á endurgreiðsluhlutfalli virðisaukaskatts verði fylgst með því hvort breytingar verða sem leiði til aukinna skattundanskota.
    Nefndin fjallaði einnig um það hvort tilefni væri til þess að undanskilja uppbyggingu almennra íbúða samkvæmt lögum um almennar íbúðir, nr. 52/2016, lækkuninni á endurgreiðsluhlutfalli enda væru þær almennt byggðar upp af óhagnaðardrifnum félögum. Við umfjöllun nefndarinnar kom fram að heimilt væri að veita stofnframlög til byggingar og kaupa á almennum íbúðum. Við útreikning á stofnvirði við byggingu íbúðanna væri m.a. tekið tillit til þess hvort virðisaukaskattur sé endurgreiddur af vinnu manna á byggingarstað. Sama ætti við um útreikning á stofnvirði við kaup almennra íbúða. Því myndi lækkun á endurgreiðsluhlutfalli virðisaukaskatts vegna vinnu manna við nýbyggingu, endurbætur og viðhald almenns íbúðarhúsnæðis leiða til hækkunar á stofnvirði almennra íbúða sem nemur lækkuninni. Lækkunin ætti því ekki að leiða til neinnar skerðingar á stofnframlögum.

Skattfrjáls ráðstöfun viðbótariðgjalds til séreignarsparnaðar til að afla íbúðarhúsnæðis til eigin nota.
    Í 6.–8. gr. frumvarpsins er lagt til að ákvæði til bráðabirgða við lög um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997, og laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, sem kveða á um heimild til skattfrjálsrar ráðstöfunar viðbótariðgjalds til öflunar íbúðarhúsnæðis til eigin nota verði framlengd til 31. desember 2024. Ákvæðin falla að óbreyttu úr gildi 30. júní 2023.
    Annars vegar er um að ræða heimild til ráðstöfunar séreignarsparnaðar inn á höfuðstól fasteignaláns sem tryggt er með veði í íbúðarhúsnæði til eigin nota og hins vegar útborgun á séreignarsparnaði til að afla íbúðarhúsnæðis til eigin nota. Heimilt er samkvæmt ákvæðunum að ráðstafa allt að 500 þús. kr. á ári vegna einstaklinga, en 750 þús. kr. vegna hjóna eða einstaklinga sem uppfylla skilyrði samsköttunar.
    Við umfjöllun nefndarinnar komu fram sjónarmið þess efnis að tilefni kynni að vera til að endurskoða þá fjárhæð sem heimilt er að ráðstafa samkvæmt ákvæðinu með tilliti til breytinga á vísitölu neysluverðs, þannig að úrræðið haldi virkni sinni í hlutfalli við það sem lagt var upp með. Í minnisblaði ráðuneytisins kemur fram að ákvæðið sé til komið vegna stuðningsyfirlýsingar stjórnvalda í tengslum við kjarasamninga frá lokum árs 2022 og gangi tillaga um hækkun viðmiðunarfjárhæða lengra en sú yfirlýsing. Þá myndi slík hækkun eingöngu gagnast einstaklingum sem væru yfir þeim tekjumörkum sem leiðir af núverandi hámarki.
    Meiri hlutinn tekur undir framangreind sjónarmið.

Breytingartillögur.
    Meiri hlutinn leggur til breytingar sem eru tæknilegs eðlis og ekki ætlað að hafa efnisleg áhrif. Um er að ræða leiðréttingu á millivísun í 1. málsl. 1. mgr. 2. gr., en þar ætti með réttu að vísa til 9. –11. mgr. og leiðréttingu á framsetningu 7. gr.

    Með vísan til framangreinds leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Í stað tilvísunarinnar „8.–10. mgr.“ í 1. málsl. 1. efnismgr. 2. gr. komi: 9.–11. mgr.
     2.      7. gr. orðist svo:
                      Í stað dagsetningarinnar „30. júní 2023“ í fyrra skiptið í 1. málsl. 1. mgr. og í 3. málsl. 2. mgr. og sömu dagsetningar í síðara skiptið í 1. málsl. 1. mgr. í ákvæði til bráðabirgða XVII í lögunum kemur: og með 31. desember 2024; og: 31. desember 2024.

Alþingi, 8. júní 2023.

Guðrún Hafsteinsdóttir,
form., frsm.
Ágúst Bjarni Garðarsson. Teitur Björn Einarsson.
Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir. Steinunn Þóra Árnadóttir.