Ferill 920. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1602  —  920. mál.




Svar


innviðaráðherra við fyrirspurn frá Guðrúnu Hafsteinsdóttur um bundið slitlag á héraðs- og tengivegum.



     1.      Hver er samanlögð vegalengd héraðs- og tengivega á Íslandi, sundurliðað eftir kjördæmum?
    Í eftirfarandi töflu kemur fram lengd héraðs- og tengivega, sundurliðað eftir kjördæmum.

Kjördæmi Tengivegir í km Héraðsvegir í km
Suður 867,3 700,8
Suðvestur 87,8 33,9
Reykjavík 11,0 30,3
Norðvestur 1.499,0 1.129,1
Norðaustur 950,1 735,6
Samtals 3.415,2 2.629,6

     2.      Hversu stór hluti þessara héraðs- og tengivega hefur verið lagður bundnu slitlagi, sundurliðað eftir kjördæmum?
    Í eftirfarandi töflu kemur fram hversu stór hluti héraðs- og tengivega hefur verið lagður bundnu slitlagi, sundurliðað eftir kjördæmum.

Kjördæmi Tengivegir í km Héraðsvegir í km
Suður
    Bundið 493,0 169,5
    Möl 374,3 531,2
Suðvestur
    Bundið 76,3 4,2
    Möl 11,5 29,7
Reykjavík
    Bundið 7,5 6,6
    Möl 3,5 23,7
Norðvestur
    Bundið 319,9 94,2
    Möl 1.179,1 1.034,9
Norðaustur
    Bundið 400,8 61,3
    Möl 549,4 674,3
Samtals
    Bundið 1.297,5 335,9
    Möl 2.117,8 2.293,8

     3.      Hver er áætlaður kostnaður við að ljúka lagningu bundins slitlags á alla héraðs- og tengivegi, sundurliðað eftir kjördæmum?
    Áætlaður kostnaður við að koma á bundnu slitlagi á tengivegi er nokkuð misjafn. Meðalkostnaður á hvern km í þeirri áætlun sem liggur fyrir næstu fimm ár varðandi tengivegi er um 70 millj. kr./km. Það gæti því kostað um 150 milljarða kr. að koma á bundnu slitlagi á þá 2.118 km sem eru nú með malarslitlagi.
    Héraðsvegir eru mjórri vegir en tengivegir og áætlaður kostnaður við að koma á bundnu slitlagi á héraðsvegi er um 70% af kostnaði við tengivegi. Því má gera ráð fyrir að það kosti 50 millj. kr. á hvern km að koma á bundnu slitlagi á héraðsveg. Það gæti því kostað um 115 milljarða kr. að koma á bundnu slitlagi á alla héraðsvegi sem nú eru með malarslitlagi. Eftirfarandi tafla sýnir áætlaðan kostnað sundurliðaðan á hvert kjördæmi í milljónum króna.

Kjördæmi Tengivegir Héraðsvegir
Millj. kr. Millj. kr.
Suður 26.201 26.560
Suðvestur 805 1.485
Reykjavík 245 1.185
Norðvestur 82.537 51.745
Norðaustur 38.458 33.715
Samtals 148.246 114.690

     4.      Hvenær er áætlað að ljúka lagningu bundins slitlags á alla héraðs- og tengivegi?
    Frá árinu 2011 hefur verið sérstök fjárveiting í samgönguáætlun sem ætluð er til að koma á bundnu slitlagi á tengivegi. Undanfarin ár hefur þessi fjárveiting verið nálægt 2.500 millj. kr. og því hefur verið bætt við u.þ.b. 35 km af tengivegum með bundnu slitlagi á hverju ári. Ef gert er ráð fyrir að fjárveiting verði áfram 2.500 millj. kr. á ári má gera ráð fyrir að það taki um 60 ár að koma á bundnu slitlagi á alla tengivegi, en ekki hefur slíkt markmið verið sett fram í samgönguáætlun.
    Almennt greiða landeigendur helming kostnaðar við gerð héraðsvega og yfirleitt eru þeir ekki byggðir með bundnu slitlagi. Óski landeigandi eftir því að setja bundið slitlag á héraðsveg þá greiðir hann þann hluta að fullu. Fjárveiting til nýrra héraðsvega hefur verið um 110 millj. kr. á ári. Það eru því ekki áform um að leggja bundið slitlag á alla héraðsvegi.