Ferill 920. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.
153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1602 — 920. mál.
Svar
innviðaráðherra við fyrirspurn frá Guðrúnu Hafsteinsdóttur um bundið slitlag á héraðs- og tengivegum.
1. Hver er samanlögð vegalengd héraðs- og tengivega á Íslandi, sundurliðað eftir kjördæmum?
Í eftirfarandi töflu kemur fram lengd héraðs- og tengivega, sundurliðað eftir kjördæmum.
Kjördæmi | Tengivegir í km | Héraðsvegir í km |
Suður | 867,3 | 700,8 |
Suðvestur | 87,8 | 33,9 |
Reykjavík | 11,0 | 30,3 |
Norðvestur | 1.499,0 | 1.129,1 |
Norðaustur | 950,1 | 735,6 |
Samtals | 3.415,2 | 2.629,6 |
2. Hversu stór hluti þessara héraðs- og tengivega hefur verið lagður bundnu slitlagi, sundurliðað eftir kjördæmum?
Í eftirfarandi töflu kemur fram hversu stór hluti héraðs- og tengivega hefur verið lagður bundnu slitlagi, sundurliðað eftir kjördæmum.
Kjördæmi | Tengivegir í km | Héraðsvegir í km |
Suður | ||
Bundið | 493,0 | 169,5 |
Möl | 374,3 | 531,2 |
Suðvestur | ||
Bundið | 76,3 | 4,2 |
Möl | 11,5 | 29,7 |
Reykjavík | ||
Bundið | 7,5 | 6,6 |
Möl | 3,5 | 23,7 |
Norðvestur | ||
Bundið | 319,9 | 94,2 |
Möl | 1.179,1 | 1.034,9 |
Norðaustur | ||
Bundið | 400,8 | 61,3 |
Möl | 549,4 | 674,3 |
Samtals | ||
Bundið | 1.297,5 | 335,9 |
Möl | 2.117,8 | 2.293,8 |
3. Hver er áætlaður kostnaður við að ljúka lagningu bundins slitlags á alla héraðs- og tengivegi, sundurliðað eftir kjördæmum?
Áætlaður kostnaður við að koma á bundnu slitlagi á tengivegi er nokkuð misjafn. Meðalkostnaður á hvern km í þeirri áætlun sem liggur fyrir næstu fimm ár varðandi tengivegi er um 70 millj. kr./km. Það gæti því kostað um 150 milljarða kr. að koma á bundnu slitlagi á þá 2.118 km sem eru nú með malarslitlagi.
Héraðsvegir eru mjórri vegir en tengivegir og áætlaður kostnaður við að koma á bundnu slitlagi á héraðsvegi er um 70% af kostnaði við tengivegi. Því má gera ráð fyrir að það kosti 50 millj. kr. á hvern km að koma á bundnu slitlagi á héraðsveg. Það gæti því kostað um 115 milljarða kr. að koma á bundnu slitlagi á alla héraðsvegi sem nú eru með malarslitlagi. Eftirfarandi tafla sýnir áætlaðan kostnað sundurliðaðan á hvert kjördæmi í milljónum króna.
Kjördæmi | Tengivegir | Héraðsvegir |
Millj. kr. | Millj. kr. | |
Suður | 26.201 | 26.560 |
Suðvestur | 805 | 1.485 |
Reykjavík | 245 | 1.185 |
Norðvestur | 82.537 | 51.745 |
Norðaustur | 38.458 | 33.715 |
Samtals | 148.246 | 114.690 |
4. Hvenær er áætlað að ljúka lagningu bundins slitlags á alla héraðs- og tengivegi?
Frá árinu 2011 hefur verið sérstök fjárveiting í samgönguáætlun sem ætluð er til að koma á bundnu slitlagi á tengivegi. Undanfarin ár hefur þessi fjárveiting verið nálægt 2.500 millj. kr. og því hefur verið bætt við u.þ.b. 35 km af tengivegum með bundnu slitlagi á hverju ári. Ef gert er ráð fyrir að fjárveiting verði áfram 2.500 millj. kr. á ári má gera ráð fyrir að það taki um 60 ár að koma á bundnu slitlagi á alla tengivegi, en ekki hefur slíkt markmið verið sett fram í samgönguáætlun.
Almennt greiða landeigendur helming kostnaðar við gerð héraðsvega og yfirleitt eru þeir ekki byggðir með bundnu slitlagi. Óski landeigandi eftir því að setja bundið slitlag á héraðsveg þá greiðir hann þann hluta að fullu. Fjárveiting til nýrra héraðsvega hefur verið um 110 millj. kr. á ári. Það eru því ekki áform um að leggja bundið slitlag á alla héraðsvegi.