Ferill 917. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1604  —  917. mál.




Svar


utanríkisráðherra við fyrirspurn frá Andrési Inga Jónssyni um flugvélar og sjóför sem borið geta kjarnavopn.


     1.      Hvernig er háttað eftirliti með friðlýsingu Íslands og íslenskrar landhelgi fyrir kjarnavopnum?
    Bandalagsríkjum Íslands sem búa yfir kjarnavopnum er fullkunnugt um stefnu Íslands hvað varðar friðlýsingu þess og íslenskrar landhelgi fyrir kjarnavopnum, að teknu tilliti til alþjóðlegra skuldbindinga. Mjög lítill hluti farartækja er útbúinn til að bera slík vopn og hafa bandalagsríkin opinbera stefnu um hvernig þeim vopnabúnaði er háttað. Aukinn viðbúnaður fylgir þeim farartækjum sem bera kjarnavopn en á friðartímum bera farartæki bandalagsríkja almennt ekki slík vopn, jafnvel þó að þau séu útbúin til þess.
    Íslensk stjórnvöld hafa aldrei haft vitneskju um né heimilað staðsetningu kjarnavopna á Íslandi eða í íslenskri landhelgi.
    Umfram almennt eftirlit með flug- og skipaumferð um íslenskt yfirráðasvæði er ekki viðhaft sérstakt eftirlit með friðlýsingu Íslands og íslenskrar landhelgi fyrir kjarnavopnum heldur ríkir traust um það að önnur ríki, einkum bandalagsríki, virði friðlýsinguna og stefnu Íslands. Í þessu samhengi er mikilvægt að hafa í huga að þau farartæki sem eru útbúin til að bera kjarnavopn eru að jafnaði ríkisför sem njóta friðhelgi, sbr. svar við 2. tölul. fyrirspurnar.

     2.      Hvert er verklag ráðuneytisins þegar samráð er haft um komur flugvéla og sjófara erlends herafla, sérstaklega hvað varðar yfirlýsta stefnu um friðlýsingu fyrir kjarnavopnum? Hvaða skoðun fer fram í hverju tilviki til að tryggja að stefnan sé virt?
    Koma erlendra ríkisloftfara, þ.m.t. herflugvéla, sem og erlendra ríkisskipa, þ.m.t. herskipa, inn á íslenskt yfirráðasvæði er háð samþykki utanríkisráðherra í samræmi við ákvæði laga um loftferðir og laga um vaktstöð siglinga. Ríkisför óska eftir heimild til komu eða ferðar um íslenskt yfirráðasvæði og er það gert með formlegri orðsendingu sem gildir annaðhvort um einstaka komu sjófars eða flugvélar eða sem almenn heimild til tiltekins tíma.
    Ríkisför njóta almennt friðhelgi samkvæmt alþjóðalögum og því fer almennt ekki fram skoðun á farmi eða búnaði slíkra ríkisfara af hálfu íslenskra stjórnvalda, sbr. þó svar við 3. tölul. fyrirspurnarinnar. Eins og áður greinir þekkja bandalagsríki Íslands stefnu þess hvað varðar friðlýsingu Íslands og íslenskrar landhelgi fyrir kjarnavopnum og virða hana.

     3.      Hafa fulltrúar íslenska ríkisins fullan aðgang að öllum hlutum öryggissvæðisins á Keflavíkurflugvelli eða þeim flugvélum og sjóförum erlends herliðs sem hafa viðdvöl á landinu og innan íslenskrar landhelgi?
    Almennt njóta ríkisför friðhelgi samkvæmt alþjóðalögum og er það því á valdi fánaríkis ríkisfars að ákveða hvernig aðgangi er háttað hverju sinni. Öryggissvæðið á Keflavíkurflugvelli er undir stjórn íslenskra stjórnvalda sem stýra aðgangi að því og eftirliti innan svæðisins. Starfsfólk Landhelgisgæslu Íslands í stjórnstöð Atlantshafsbandalagsins á öryggissvæðinu sinnir eftirliti innan svæðisins í umboði utanríkisráðherra, þ.m.t. með vopnabúnaði.

     4.      Hversu oft hefur verið haft samráð við ráðuneytið um komur flugvéla og sjófara undanfarin fimm ár? Þess er óskað að svarið sé greint eftir árum og að fram komi fjöldi farartækja, upprunaríki þeirra og hvort um var að ræða flugvél, skip eða kafbát.
    Þar sem komur erlendra ríkisfara, þ.m.t. herflugvéla og -skipa, skipta hundruðum á ári hverju verður svarið afmarkað, í ljósi efnis fyrirspurnarinnar, við komur farartækja sem sérstaklega eru búin til að bera kjarnavopn.
    Hvað varðar kafbáta og önnur sjóför vísast til svars við 5. tölul. fyrirspurnarinnar.
    Hvað varðar flugvélar þá hefur verið haft sérstakt samráð við íslensk stjórnvöld á umræddu tímabili vegna komu tveggja tegunda sprengjuflugvéla frá Bandaríkjunum. Það var árin 2018, 2019 og 2021. Um var að ræða eina B-52 og fjórar B-2 flugvélar. Vélarnar báru ekki kjarnavopn.

     5.      Hversu oft á undanförnum fimm árum hafa ríki sem búa yfir kjarnavopnum átt samráð við íslensk stjórnvöld um för eða viðdvöl kafbáta sem borið geta kjarnavopn í gegnum íslenska landhelgi? Svar óskast greint eftir árum og upprunaríki kafbáts. Hafi slíkir kafbátar farið um eða haft viðdvöl í íslenskri landhelgi, getur ráðherra fullyrt að þeir hafi ekki verið búnir kjarnavopnum?
    Kafbátar ríkja sem eiga kafbáta sem eru búnir til að bera kjarnavopn hafa ekki haft för um eða dvalið í íslenskri landhelgi og þess vegna hefur ekkert slíkt samráð farið fram.


     6.      Hefur Keflavíkurflugvöllur verið notaður, eða stendur til að nota hann, í tengslum við flutninga vegna þeirrar uppfærslu sem stendur yfir á kjarnaoddum Bandaríkjanna sem staðsettir eru í herstöðvum í Evrópu?
    Nei.

     7.      Getur ráðherra staðhæft með fullri vissu að ekki hafi verið kjarnavopn á Íslandi eða í íslenskri landhelgi einhvern tíma undanfarin fimm ár?
    Hvað varðar komur og umferð bandalagsríkja um svæðið er hægt að staðhæfa að slík vopn hafi ekki verið á Íslandi eða í íslenskri landhelgi.

    Alls fóru 10 vinnustundir í að taka svarið saman.