Ferill 914. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.
153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1430 — 914. mál.
Stjórnartillaga.
Tillaga til þingsályktunar
um landbúnaðarstefnu til ársins 2040.
Frá matvælaráðherra.
Alþingi ályktar að unnið verði samkvæmt eftirfarandi landbúnaðarstefnu til ársins 2040. Meginmarkmið landbúnaðarstefnunnar verði að efla og styðja íslenskan landbúnað og styrkja stoðir hans til framtíðar með sjálfbæra þróun að leiðarljósi.
Framtíðarsýn í landbúnaði taki til umhverfis, samfélags og samkeppnishæfni og verði eftirfarandi:
a. Ísland verði í fremstu röð ríkja í framleiðslu heilnæmra landbúnaðarafurða.
b. Nýting náttúruauðlinda í landbúnaði verði ávallt sjálfbær.
c. Fæðuöryggi verði tryggt.
d. Landbúnaður hafi dregið verulega úr losun gróðurhúsalofttegunda, verði kolefnishlutlaus og hafi mikla aðlögunarhæfni gagnvart loftslagsbreytingum.
e. Landbúnaður stuðli að verndun og eflingu líffræðilegrar fjölbreytni.
f. Beit og önnur landnýting taki mið af ástandi og getu vistkerfa og verði stjórnað í samræmi við viðmið um sjálfbærni.
g. Ræktun, nýting lands og bætt landgæði styðji við fjölbreytta atvinnustarfsemi og búsetu um land allt.
h. Landnotkun utan þéttbýlis feli í sér vernd góðs landbúnaðarlands.
i. Fullnýting afurða og lífrænna hráefna verði tryggð í virðiskeðju landbúnaðar.
j. Eðlileg nýliðun og kynslóðaskipti í landbúnaði verði tryggð.
k. Framleiðsla verði arðbær, samkeppnishæf og tryggi byggðafestu og uppbyggingu þekkingar í samfélagi.
l. Framfarir í landbúnaði ráðist af nýrri tækni á grundvelli nýsköpunar og hagnýtra rannsókna.
m. Menntun í landbúnaðartengdu námi mæti þörfum atvinnulífsins og markaðarins. Framleiðendur búi yfir hæfni og getu til að takast á við áskoranir og tækifæri framtíðarinnar í samræmi við eftirspurn neytenda.
n. Framleiðsluhættir verði ávallt þannig að heilsa, velferð og aðbúnaður dýra verði höfð að leiðarljósi.
o. Ákvarðanir og stefnumótun á málefnasviðinu taki jafnan mið af samfélagsgæðum, jöfnuði óháð efnahag, kyni, uppruna og búsetu, og hag heildarinnar í efnahagslegu tilliti.
Til þess að framtíðarsýnin verði að veruleika verði lögð áhersla á eftirfarandi meginviðfangsefni:
1. Fæðuöryggi.
2. Loftslagsmál.
3. Líffræðilega fjölbreytni.
4. Landnýtingu og varðveislu landbúnaðarlands.
5. Hringrásarhagkerfi.
6. Alþjóðleg markaðsmál.
7. Neytendur.
8. Nýsköpun og tækni.
9. Menntun, rannsóknir og þróun.
10. Fyrirkomulag stuðnings við landbúnað.
1. Fæðuöryggi.
1.1. Stoðir fæðukerfa og fæðuöryggis landsins verði styrktar með því m.a. að styðja við nýsköpun í landbúnaði og stuðla að aukinni sjálfbærni með tilliti til aðfanga, jarðvegsverndar, auðlindanýtingar og hringrásarhagkerfis. Aðgengi að heilnæmum mat verði óháð efnahag.
1.2. Skilgreindar lágmarksbirgðir matvæla verði í landinu á hverjum tíma, sem og aðföng til framleiðslunnar.
1.3. Við töku ákvarðana um landnotkun verði fæðuöryggi þjóðarinnar haft að leiðarljósi.
1.4. Markvisst verði unnið að framförum í grasrækt og ræktun annarra fóðurjurta samhliða aukinni áherslu á fjölbreyttari garðyrkju og aðra ræktun afurða til manneldis, aukna kornrækt og hvers konar nýjungar svo sem ræktun orkujurta.
1.5. Styrktar verði stoðir fjárhagslegrar afkomu framleiðenda sem einnar af undirstöðum fæðuöryggis.
2. Loftslagsmál.
2.1. Hvati verði skapaður innan stuðningskerfis landbúnaðarins til að auðvelda bændum að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og auka bindingu í gróðri og jarðvegi.
2.2. Mótaður verði rammi um framleiðslu vottaðra kolefniseininga í landbúnaði og landnotkun.
2.3. Aukið verði við rannsóknir og vöktun á áhrifum íslensks landbúnaðar á loftslag og aðlögunar hans að loftslagsbreytingum.
3. Líffræðileg fjölbreytni.
3.1. Landnotkun í landbúnaði tryggi verndun og endurheimt viðkvæmra og mikilvægra tegunda og vistkerfa til að stuðla að líffræðilegri fjölbreytni með vísindi vistkerfisnálgunar að leiðarljósi.
3.2. Staðinn verði vörður um erfðaauðlindir í íslenskum landbúnaði.
4. Landnýting og varðveisla landbúnaðarlands.
4.1. Sett verði skýr viðmið um land- og beitarnýtingu með reglugerð um sjálfbæra landnýtingu. Innan ramma þeirra verði settar reglur um nýtingu á einstökum svæðum.
4.2. Sett verði skýr og samræmd viðmið um hvernig flokka skuli land með tilliti til landbúnaðar og búskapar og hvernig það verði best varðveitt, byggt á upplýsingum um gæði jarðvegs og skilyrðum til ræktunar.
4.3. Sérkenni landbúnaðarlands og landslags verði virt; viðgangur vistkerfa verði tryggður og nytjaland, jarðfræðileg fjölbreytni og menningarlandslag verði varðveitt.
5. Hringrásarhagkerfi.
5.1. Stutt verði hringrásarhagkerfið með þróun í fullvinnslu og fullnýtingu afurða og þannig verði stuðlað að minni sóun og minna kolefnisspori.
5.2. Tryggja skuli að landbúnaður gegni stóru hlutverki innan hringrásarhagkerfisins, ekki síst varðandi nýtingu á lífrænum efnum.
6. Alþjóðleg markaðsmál.
6.1. Stuðlað verði að auknum ábata neytenda og aukinni samkeppni á markaði með landbúnaðarvörur en jafnframt verði gætt að hagsmunum og rekstrarskilyrðum innlendra framleiðenda.
6.2. Tryggt verði með löggjöf að innlendir framleiðendur hafi ekki lakara svigrúm til hagræðingar og samstarfs en framleiðendur í nágrannalöndum þar sem starfað er samkvæmt EES-löggjöf.
7. Neytendur.
7.1. Stuðlað verði að aðlögunarhæfni landbúnaðarins til að mæta þörfum neytenda á hverjum tíma.
7.2. Góðar nettengingar og tækniframfarir verði nýttar til að auka aðgang framleiðenda að markaði.
7.3. Upplýsingagjöf og bein tengsl milli framleiðenda og neytenda styrki gagnkvæmt traust.
7.4. Sérstaklega verði hugað að leiðum til að auðvelda neytendum að velja vörur eftir eigin gildum og afstöðu til landbúnaðarframleiðslu, m.a. með bættum upplýsingum um uppruna, innihald og kolefnisspor landbúnaðarafurða.
8. Nýsköpun og tækni.
8.1. Ný tækni og endurnýjanlegir orkugjafar verði nýttir í þágu framþróunar og nýsköpunar.
8.2. Innleiðing rakningarkerfa byggi upp tengsl bænda og neytenda auk þess sem þau nýtist í þágu matvælaöryggis.
8.3. Tækniframfarir verði nýttar til framþróunar í íslenskri landbúnaðarframleiðslu.
9. Menntun, rannsóknir, þróun.
9.1. Háskólamenntun, starfsmenntun og endurmenntun leggi grunn að framsæknum og öflugum landbúnaði.
9.2. Tryggt verði hæfilegt jafnvægi milli fræðilegra og hagnýtra háskólarannsókna sem kynntar verði framleiðendum á markvissan hátt.
9.3. Lögð verði áhersla á miðlun þekkingar til framleiðenda í því skyni að m.a. efla samkeppnishæfni landbúnaðar, draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, auka bindingu í gróðri og jarðvegi, styðja sjálfbæra landnýtingu og efla lífræna ræktun.
9.4. Landbúnaður verði framsækinn og eftirsóknarverður starfsvettvangur óháð efnahag, kyni og uppruna.
10. Fyrirkomulag stuðnings við landbúnað.
10.1. Stuðningur hins opinbera verði samhæfður með það að markmiði að styrkja og fjölga stoðum landbúnaðar á grunni sjálfbærrar nýtingar í þágu loftslagsmála, umhverfis- og náttúruverndar og fjölbreytni í ræktun.
10.2. Áherslum verði breytt í styrkjakerfi landbúnaðar, þannig að stutt verði við fjölbreyttari framleiðslu landbúnaðarafurða og aukin áhersla verði lögð á jarðrækt og aðra landnýtingu, skógrækt, endurheimt vistkerfa, náttúruvernd og landvörslu.
10.3. Við ráðstöfun opinbers fjár eða við aðrar aðgerðir til að efla stoðir landbúnaðar verði sérstaklega hugað að því að auðvelda kynslóðaskipti og nýliðun.
10.4. Stuðningur við landbúnað skapi stöðugan og traustan grundvöll fyrir innlenda framleiðslu.
Stefnan í framkvæmd.
Til að hrinda landbúnaðarstefnu til ársins 2040 í framkvæmd verði gerðar áætlanir um aðgerðir til fimm ára í senn og þær birtar.
Greinargerð.
Hér er í fyrsta skipti lögð fram tillaga til þingsályktunar um landbúnaðarstefnu fyrir Ísland. Stefna stjórnvalda í landbúnaðarmálum hefur hingað til einkum birst í búvöru- og búnaðarlögum og síðar búvörusamningum eftir að það fyrirkomulag var tekið upp árið 1985. Mikilvægt er að hafa opinbera stefnu í landbúnaði svo hægt sé að taka mið af henni við setningu löggjafar á öðrum sviðum, til dæmis á sviði skipulags- og jarðamála. Þá stuðlar slík stefna að því að öll áætlanagerð og stefnumótun hins opinbera, sérstaklega er varðar landbúnað, verði samhæfð.
Mótun landbúnaðarstefnunnar á sér langan aðdraganda. Þáverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra skipaði samráðshóp um fyrri endurskoðun búvörusamninga árið 2018 og meðal þess sem hópurinn lagði til var að unnin yrði sviðsmyndagreining um framtíð landbúnaðarins til ársins 2040. Í kjölfarið vann KPMG slíka greiningu og fól hún í sér umfangsmikla gagnaöflun með þátttöku yfir 400 manns, m.a. með viðtölum, netkönnun, opnum fundum á sex landsvæðum og greiningu á opinberum gögnum. Í greiningunni var hvatt til þess að unnin yrði landbúnaðarstefna og var verkefnisstjórn um landbúnaðarstefnu fyrir Ísland skipuð hinn 15. september 2020. Í heildina hélt verkefnisstjórnin um 70 fundi með gestum og tók auk þess saman og kynnti sér mikið safn ritaðra heimilda.
Hinn 30. mars 2021 skilaði verkefnisstjórnin ráðherra umræðuskjalinu Ræktum Ísland! Umræðuskjalið var sett í samráðsgátt stjórnvalda og bárust alls 24 umsagnir til ráðuneytisins. Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra boðaði til 10 funda um land allt ásamt því að halda opinn rafrænan fund til að ræða skjalið og kalla eftir hugmyndum og ábendingum en tæplega 300 manns tóku þátt í fundunum. Í kjölfarið vann verkefnisstjórnin úr þeim umsögnum sem bárust, bæði í samráðsgátt og á framangreindum fundum, og skilaði skjalinu Landbúnaðarstefnan Ræktum Ísland! hinn 19. ágúst. 2021. Í skjalinu er að finna áhersluatriði, umræðuskjalið, útdrætti úr umsögnum úr samráðsgátt og frásagnir af fundum um land allt auk heimildalista.
Þingsályktunartillaga þessi byggist á grunni skjalsins Ræktum Ísland! eins og áður var nefnt, en þó hefur verið tekið mið af annarri stefnumótun á málefnasviðinu sem unnin hefur verið og birt eftir útgáfu Ræktum Ísland! Fyrst ber þar að nefna stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs frá því í lok nóvember 2021. Í febrúarlok 2022 kynnti matvælaráðherra síðan áherslur og verklag við stefnumótun á sviði matvæla. Tillögum og greinargerð Landbúnaðarháskóla Íslands um aðgerðir til að bæta fæðuöryggi Íslands var skilað til ráðuneytisins í apríl 2022 og Land og líf, landgræðsluáætlun og landsáætlun í skógrækt til ársins 2031 var birt í ágúst 2022. Ráðherra kynnti drög að nýrri matvælastefnu í nóvember 2022 og er henni ætlað að vera leiðarljós fyrir stefnumörkun í landbúnaði, sjávarútvegi og fiskeldi sem heyra undir matvælaráðuneytið. Tillaga til þingsályktunar um matvælastefnu er lögð fram samhliða þessari tillögu. Þingsályktunartillagan er einnig unnin með hliðsjón af áherslum matvælaráðherra sem og nýs matvælaráðuneytis eftir að það tók til starfa hinn 1. febrúar 2022. Til viðbótar tekur tillagan mið af þeirri þróun sem átt hefur sér stað eftir útgáfu Ræktum Ísland! Heimsfaraldur kórónuveiru og innrás Rússlands í Úkraínu hafa breytt ýmsum forsendum sem áður voru taldar sjálfgefnar. Í þingsályktunartillögunni er því m.a. aukin áhersla lögð á fæðuöryggi, loftslagsmál og hringrásarhagkerfi.
Þetta er sem fyrr segir í fyrsta skipti sem lögð er til heildstæð landbúnaðarstefna fyrir Ísland. Sú stefna sem hér er mörkuð nær til ársins 2040. Framleiðsla landbúnaðarafurða varðar samfélagið allt og er stefnunni ætlað að skapa sterkar stoðir fyrir innlenda landbúnaðarframleiðslu til framtíðar til hagsbóta fyrir samfélagið í heild. Öll áðurnefnd stefnumótun miðar að því að styrkja stoðir fæðukerfis íslensks samfélags með fjölþættum hætti. Fæðukerfið er sannarlega margbrotið og gríðarlega margir þættir sem hafa áhrif á það. Mikilvægt er hafa í huga að þessari tillögu, tillögu um matvælastefnu, landgræðslu- og skógræktarstefnunni Land og líf ásamt annarri stefnumótun, er öllum ætlað að þjóna sömu meginmarkmiðum: að auka fæðuöryggi með sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda, aðferðum hringrásarhagkerfisins, sterkum samfélögum um land allt og framþróun í takt við þarfir neytenda.
2. Meginefni tillögunnar.
Landbúnaðarstefnan byggist á þremur lykilbreytum sem talið er að munu hafa mikil áhrif á þróun landbúnaðar á komandi árum, þ.e. 1) landnýtingu, 2) loftslagsmálum og umhverfisvernd og 3) tækni og nýsköpun. Þessar þrjár breytur setja sterkan svip á þau tíu áhersluatriði sem dregin eru fram í tillögunni. Í tillögunni er sett fram metnaðarfull framtíðarsýn sem snertir umgjörð landbúnaðar í heild sinni og tekur til umhverfis, samfélags og samkeppnishæfni þess starfsvettvangs sem framleiðsla landbúnaðarafurða er. Meginmarkmið stefnunnar er að efla og styðja við íslenskan landbúnað þannig að Ísland verði leiðandi í framleiðslu á heilnæmum landbúnaðarafurðum með sjálfbæra þróun að leiðarljósi.
Til þess að framtíðarsýnin verði að veruleika er lagt til að áhersla verði lögð á tíu meginviðfangsefni. Hér á eftir verður fjallað nánar um hvert og eitt þessara meginviðfangsefna og mikilvægi þeirra.
2.1. Fæðuöryggi.
Fæðuöryggi telst vera til staðar þegar allt fólk hefur ávallt raunverulegan og efnahagslegan aðgang að nægum, öruggum og næringarríkum matvælum til að uppfylla næringarþarfir sínar með frjálsu fæðuvali, til að geta lifað virku og heilsusamlegu lífi. Fæðuöryggi er ein af forsendum þess að hægt sé að tryggja afkomu þjóða og er því hluti af þjóðaröryggi allra samfélaga, ekki síst smárra eyríkja eins og Íslands þar sem aðfangakeðjur geta auðveldlega raskast á hættu- eða óvissutímum. Með vísan til þess er mikilvægt að styrkja stoðir fæðukerfa og fæðuöryggis landsins með því að styðja við nýsköpun í landbúnaði og stuðla að aukinni sjálfbærni. Einnig þarf að tryggja að aðgengi að heilnæmum mat sé óháð efnahag. Þá er matvælaöryggi, sem snýr að því hversu örugg fæðan er til neyslu, mikilvægur liður í fæðuöryggi.
Fæðuöryggi kallar ekki á að Ísland verði algerlega sjálfu sér nægt um matvæli, heldur er mikilvægast að auka fjölbreytni framleiðslunnar, tryggja að hún sé sjálfbær, að aðfangakeðjan sé órofin og að til staðar séu nauðsynlegar neyðarbirgðir matvæla og aðföng til framleiðslunnar. Landbúnaður snýst að stærstum hluta um framleiðslu matvæla og er þannig hluti af matvælakerfinu. Hluti af heilnæmri matvælaframleiðslu er að viðhalda gæðum þeirrar náttúru sem framleiðslan byggist á og þar gegnir landbúnaðarland mikilvægu hlutverki. Þegar teknar eru ákvarðanir um landnotkun þarf því að hafa fæðuöryggi þjóðarinnar að leiðarljósi.
Stuðla þarf að framförum í allri ræktun afurða til manneldis og fóðurjurta og styðja við nýjungar í ræktun. Styrkja þarf stoðir fjárhagslegrar afkomu framleiðenda landbúnaðarafurða með því að m.a. efla menntun, rannsóknir og þróun í landbúnaði og auka aðgengi að hagkvæmri fjármögnun. Ásættanleg fjárhagsleg afkoma framleiðenda er ein af undirstöðum fæðuöryggis og forsenda nýliðunar í bændastétt.
2.2. Loftslagsmál.
Í aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum er stefnt að því að Ísland nái kolefnishlutleysi árið 2040. Til að stuðla að framangreindu markmiði er mikilvægt að dregið verði verulega úr losun gróðurhúsalofttegunda frá landbúnaði, m.a. með því að skapa fleiri hvata innan stuðningskerfis landbúnaðarins til að auðvelda bændum að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og auka bindingu í gróðri og jarðvegi. Tryggja þarf að slíkir hvatar stuðli einnig að bættri landnýtingu, vernd líffræðilegrar fjölbreytni og auknum lífrænum áherslum í anda hringrásarhagkerfisins. Þá er lagt til að mótaður verði rammi um vottaðar kolefniseiningar í landbúnaði og landnotkun.
Ætli stjórnvöld að ná framangreindum markmiðum þarf að vera hægt að leggja reglulega mat á losun vegna matvælaframleiðslu og því er lagt til að aukið verði við rannsóknir og vöktun á áhrifum íslensks landbúnaðar á loftslag og aðlögun hans að loftslagsbreytingum.
2.3. Líffræðileg fjölbreytni.
Ísland er aðili að samningi Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni sem tók gildi árið 1994. Neysla og framleiðsla matvæla eru meðal þeirra þátta sem geta haft og hafa haft mest áhrif á líffræðilega fjölbreytni. Beinir áhrifaþættir hafa verið flokkaðir í breytingar á landnotkun, nýtingu, ágengar framandi tegundir, mengun og loftslagsbreytingar. Óbeinir áhrifaþættir, sem eru þó drifkraftar beinu þáttanna, eru annars vegar neysla og framleiðsla og hins vegar þekking. Landbúnaður hefur veruleg áhrif á vistkerfi, ekki síst vegna ræktunar, þar sem vistkerfum er breytt. Stjórnun nýtingar ætti því alltaf að byggjast á vistkerfisnálgun sem felur í sér að taka tillit til allra þátta vistkerfi. Í ágúst 2008 samþykkti ríkisstjórnin stefnumótun um framkvæmd samnings Sameinuðu þjóðanna. Meginmarkmið hennar var að vernda og styrkja íslenskt lífríki og tryggja sjálfbæra nýtingu þess. Stefnumörkunin skyldi verða rammi um stefnu og aðgerðir stjórnvalda á þessu sviði en þar sagði meðal annars að efld yrði vinna við endurheimt náttúrulegra vistkerfa sem spillst hefðu vegna umsvifa mannsins. Við endurheimtina yrði stuðlað að sátt milli sjónarmiða verndunar og nýtingar. Lögð var áhersla á að vernda og nýta erfðabreytileika og erfðaauðlindir. Með vísan til framangreinds er lagt til að sérstaklega verði staðið vörð um erfðaauðlindir í íslenskum landbúnaði, þar á meðal íslensku búfjárkynin.
2.4. Landnýting og varðveisla landbúnaðarlands.
Tryggja þarf að nýting lands verði sjálfbær þannig að ekki verði gengið á auðlindir þess og þær endurheimtar eins og unnt er. Til að stuðla að því þarf að setja skýr viðmið um land- og beitarnýtingu. Landbúnaðarland gegnir mikilvægu hlutverki í framleiðslu landbúnaðarafurða, og þar af leiðandi fæðuöryggi þjóðarinnar, og því nauðsynlegt að viðhalda gæðum þeirrar náttúru sem framleiðslan byggist á. Því er lagt til að sett verði skýr viðmið um hvernig flokka skuli land með tilliti til landbúnaðar og búskapar og tryggja þannig samræmda framkvæmd hvað það varðar um land allt. Skipulagsáætlanir eru stefnumótandi fyrir landnotkun og ber að horfa til landsskipulagsstefnu við mótun stefnu sem varðar skipulag í dreifbýli.
2.5. Hringrásarhagkerfið.
Brýnt er að stemma stigu við losun gróðurhúsalofttegunda, takmarka neikvæð áhrif á vistkerfi og líffræðilega fjölbreytni og efla hringrásarhagkerfi vegna fæðuframleiðslu. Markmið hringrásarhagkerfis er að draga úr auðlindanotkun, auka líftíma auðlinda jarðar og koma í veg fyrir að efni og hlutir hverfi úr hagkerfinu sem úrgangur. Því er nauðsynlegt að hugað sé að sem bestri nýtingu auðlinda á öllum stigum í framleiðslu, vinnslu og neyslu landbúnaðarafurða. Því er lagt til að lögð verði áhersla á þróun í fullvinnslu og fullnýtingu afurða, ásamt nýtingu á lífrænum efnum, og þannig stuðlað að minni sóun og minna kolefnisspori. Þetta samræmist tillögu að matvælastefnu og eins má benda á að hringrásarhagkerfið og sjálfbærni í framleiðslu styrkir stoðir fæðuöryggis landsins.
2.6. Alþjóðleg markaðsmál.
Stuðla þarf að auknum ábata neytenda og aukinni samkeppni á markaði með landbúnaðarvörur en jafnframt að gæta að hagsmunum innlendra framleiðenda. Til að stuðla að framangreindu er nauðsynlegt að innlend landbúnaðarframleiðsla búi við samkeppnisaðhald en á sama tíma tryggja stöðugt starfsumhverfi greinarinnar. Auk þess þarf að tryggja með löggjöf að innlendir framleiðendur hafi ekki lakara svigrúm til hagræðingar og samstarfs en framleiðendur í nágrannalöndum þar sem starfað er samkvæmt EES-löggjöf.
2.7. Neytendur.
Neytendur munu gera auknar kröfur um öryggi og hollustuhætti í matvælaframleiðslu, sem og að hugað sé að sjálfbærni, kolefnisspori, umhverfisþáttum og dýravelferð í allri virðiskeðju matvæla. Þá kalla neytendur eftir því í auknum mæli að upplýsingar um framangreint séu aðgengilegar. Hér liggja því mikil tækifæri fyrir innlenda landbúnaðarframleiðslu. Stuðla þarf að aðlögunarhæfni landbúnaðarins til að mæta þörfum neytenda á hverjum tíma. Góðar nettengingar og tækniframfarir geta nýst til að auka aðgang framleiðenda að markaði og upplýsingagjöf og bein tengsl milli framleiðenda og neytenda eru til þess fallin að styrkja gagnkvæmt traust og stuðla að vöruþróun og nýsköpun. Sérstaklega þarf að huga að leiðum til að auðvelda neytendum að velja vörur eftir eigin gildum og afstöðu til landbúnaðarframleiðslu, m.a. með bættum upplýsingum um uppruna, innihald og kolefnisspor landbúnaðarafurða.
2.8. Nýsköpun og tækni.
Til að auka sjálfbærni, fjölbreytni og verðmætasköpun í innlendri matvælaframleiðslu gegna rannsóknir, nýsköpun og hagnýting hugvits lykilhlutverki. Samhliða fjölgar jafnframt eftirsóknarverðum og verðmætum störfum. Nýta þarf nýja tækni og endurnýjanlega orkugjafa í þágu grænnar byltingar og nýsköpunar. Byggja þarf upp tengsl framleiðenda og neytenda með innleiðingu rakningarkerfa en slík kerfi nýtast einnig í þágu matvælaöryggis. Þá þarf að tryggja að tækniframfarir verði nýttar til framþróunar í innlendri landbúnaðarframleiðslu, t.d. með markvissu kynbótastarfi bæði í búfjár- og nytjaplönturækt, en sú þróun er ekki síður mikilvæg til að auka verðmætasköpun í framleiðslu landbúnaðarvara.
2.9. Menntun, rannsóknir, þróun.
Háskólamenntun, starfsmenntun og endurmenntun þarf að leggja grunn að framsæknum og öflugum landbúnaði. Tryggja þarf hæfilegt jafnvægi milli fræðilegra og hagnýtra háskólarannsókna og að niðurstöður slíkra rannsókna verði kynntar framleiðendum á markvissan hátt. Þá þarf að leggja áherslu á miðlun þekkingar til framleiðenda í því skyni að m.a. efla samkeppnishæfni landbúnaðar, draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, auka bindingu í gróðri og jarðvegi, styðja sjálfbæra landnýtingu og efla lífræna ræktun.
Landbúnaður þarf að vera framsækinn og eftirsóknarverður starfsvettvangur óháð efnahag, kyni og uppruna. Með aukinni menntun, endurmenntun og auknum rannsóknum er stuðlað að nýsköpun og því að framleiðendur séu betur í stakk búnir til að nýta tækniframfarir á hverjum tíma.
2.10. Fyrirkomulag stuðnings við landbúnað.
Samhæfa þarf stuðning hins opinbera við innlenda landbúnaðarframleiðslu með það að markmiði að styrkja og fjölga stoðum landbúnaðar á grunni sjálfbærrar nýtingar í þágu loftslagsmála, umhverfis- og náttúruverndar og fjölbreytni í ræktun. Þá þarf að breyta áherslum í styrkjakerfi landbúnaðar þannig að stutt sé við fjölbreytta framleiðslu landbúnaðarafurða og auka áherslu á jarðrækt og aðra landnýtingu, skógrækt, endurheimt vistkerfa, náttúruvernd og landvörslu.
Huga þarf sérstaklega að því að auðvelda kynslóðaskipti og nýliðun við ráðstöfun opinbers fjár eða við aðrar aðgerðir til að efla stoðir landbúnaðar. Að sama skapi þarf stuðningur við landbúnað að skapa stöðugan og traustan grundvöll fyrir innlenda framleiðslu.
3. Samráð.
Þingsályktunartillaga þessi er samin í matvælaráðuneytinu. Sú tillaga sem hér er lögð fram byggist að meginstefnu á framangreindri tillögu að landbúnaðarstefnu í Ræktum Ísland! Eins og fram kemur í inngangskafla átti sér stað umfangsmikið samráð við mótun þeirrar tillögu. Tillagan sem nú liggur fyrir byggist hins vegar einnig á þeirri stefnumótun sem farið hefur fram frá þeim tíma sem og öðrum áherslum sem farið er yfir í inngangi greinargerðarinnar.
Drög að þingsályktunartillögu þessari voru í opnu samráði í samráðsgátt stjórnvalda tímabilið 10.–24. febrúar 2023 (mál nr. S-30/2023). 26 umsagnir bárust í samráðsgáttina, þ.e. frá sveitarfélaginu Skagafirði, Samtökum atvinnulífsins, Skógræktinni, sveitarfélaginu Dalabyggð, Félagi atvinnurekenda, Skipulagsstofnun, Landvernd, Náttúrufræðistofnun Íslands, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Neytendasamtökunum, Samtökum verslunar og þjónustu, Auðhumlu svf., Samtökum afurðastöðva í mjólkuriðnaði sf., Bændasamtökum Íslands, sveitarstjórn Húnaþings vestra, Slow food í Reykjavík, VOR, Áhugahópi um framfaramál í íslenskum landbúnaði, Samtökum fyrirtækja í landbúnaði, Matís ohf., Samtökum ungra bænda og fimm einstaklingum.
Margir umsagnaraðilar fögnuðu framkominni tillögu að landbúnaðarstefnu. Gerðar voru ýmsar breytingatillögur sem tekið var tillit til að hluta. Breytingar voru að mestu til frekari skýringa en efnislega óverulegar. Til að mynda kom fram í nokkrum umsögnum að ekki væri skýrt hvað átt væri við í umfjöllun um alþjóðleg markaðsmál. Hefur 6. lið um alþjóðleg markaðsmál því verið breytt til að skýra þau markmið sem stefnt er að. Þá voru skiptar skoðanir á því sem fram kemur í 10. lið um fyrirkomulag stuðnings við landbúnað þar sem aðila greinir á um það hvernig stuðningi við landbúnað skuli háttað til frambúðar. Tekið var tillit til hluta þeirra athugasemda og gerðar breytingar. Einnig var fjöldi athugasemda og tillagna um hvernig skuli ná markmiðum stefnunnar en slíkt bíður aðgerðaáætlunar sem kveðið er á um í stefnunni. Um þá áætlun verður haft sérstakt samráð þegar þar að kemur. Enn fremur var brugðist við ýmsum athugasemdum ýmist með breytingum eða viðbótum við tillöguna eða greinargerðina.
4. Mat á áhrifum.
Landbúnaðarstefna markar stefnumið í landbúnaði fram til ársins 2040. Ráðgert er að í kjölfar samþykktar þingsályktunartillögu um landbúnaðarstefnu verði gerð aðgerðaáætlun til fimm ára. Ekki er búist við að stefnan ein og sér, án aðgerðaáætlunar, leiði til aukins kostnaðar eða hafi önnur áhrif á hagsmunaaðila utan landbúnaðarkerfisins, jafnrétti kynjanna, umhverfi og sjálfbæra þróun. Þó má gera ráð fyrir að einstaka aðgerðir geti leitt til tímabundins kostnaðar og verður það metið þegar aðgerðaáætlun liggur fyrir.
Vonir standa til að landbúnaðarstefnan efli innlendan landbúnað og styrki stoðir hans til framtíðar.