Ferill 909. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 2051  —  909. mál.




Svar


innviðaráðherra við fyrirspurn frá Gísla Rafni Ólafssyni um forvarnir og viðbrögð við gróðureldum.


     1.      Hversu margar slökkviskjólur hafa verið keyptar fyrir Landhelgisgæsluna síðan 30. júní 2022?
    Ein slökkviskjóla og tilheyrandi hífibúnaður (vírar og krókur) hefur verið keyptur fyrir Landhelgisgæsluna síðan 30. júní 2022. Búnaðurinn var pantaður og keyptur í vor, kostnaður við kaupin var um 15 millj. kr. Búnaðurinn hefur verið afhentur Landhelgisgæslunni, sem stendur er verið að prófa búnaðinn og búist við að hann verði kominn í fulla notkun í júní 2023.

     2.      Hversu mörgum slökkviskjólum hefur Landhelgisgæslan yfir að ráða og hvert er ástand þeirra?
    Sem stendur er verið að prófa nýju slökkviskjóluna sem rætt er um í svari við 1. lið fyrirspurnarinnar og búist er við að í júní 2023 hafi Landhelgisgæslan þá yfir tveimur nýlegum slökkviskjólum og meðfylgjandi hífibúnaði að ráða, fyrir tvær þyrlur.

     3.      Hefur fjármagn verið tryggt í fjárlögum eða í fjármálaáætlun til þess annars vegar að kaupa nauðsynlegan viðbragðsbúnað vegna gróðurelda, sbr. tillögur starfshóps Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar í minnisblaði til ráðherra frá byrjun mars 2022, og hins vegar koma upp viðbragðsáætlunum fyrir gróðurelda á helstu stöðum þar sem hætta er á að slíkir eldar kvikni?
    Gróðureldar kvikna oft utan alfaraleiðar og kostnaður sveitarfélags getur orðið mikill við að halda úti mannskap í marga daga og þurfa að borga öðrum slökkviliðum fyrir aðstoð þennan tíma, ásamt mögulegum skemmdum á búnaði og fleiru. Talið er nauðsynlegt að Landhelgisgæslan (LHG) eigi slökkviskjólur (2000 lítra skjólur ásamt krókum, vírum og tilheyrandi) svo hægt sé að aðstoða slökkvilið víða um land við slökkvistörf vegna gróðurelda. Ef lýst er yfir almannavarnaástandi ber LHG samkvæmt lögum að aðstoða við slökkvistarf sé þess nokkur kostur. Í reyndinni hefur sjaldan verið lýst yfir almannavarnaástandi vegna gróðurelda, heldur hefur slökkviliðsstjóri beðið LHG um aðstoð hverju sinni. LHG hefur þá metið aðstæður og aðstoðað eftir bestu getu. Nokkuð ljóst er að það kemur í hlut ríkisvaldsins að fjármagna viðbragð LHG vegna gróðurelda, þar með kaup á slökkviskjólum og hífibúnaði. Fremst koma þrjú ráðuneyti að málinu:
     .      Innviðaráðuneyti, sem skv. lögum ber ábyrgð á málefnum sveitarfélaga og lögum um brunavarnir, nr. 75/2000.
     .      Dómsmálaráðuneyti, sem ber ábyrgð á almannavörnum skv. lögum nr. 82/2008 og Landhelgisgæslu Íslands skv. lögum nr. 52/2006.
     .      Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti, sem ber ábyrgð á lögum nr. 40/2015, um meðferð elds og varnir gegn gróðureldum.
    Þar sem ábyrgð á viðbragði við gróðureldum skiptist að vissu leyti milli ráðuneyta á ofangreindan hátt hefur fjármögnun á búnaði LHG vegna gróðurelda hingað til verið ákveðin sameiginlega af ríkisstjórn. Þannig tók ríkisstjórn haustið 2022 ákvörðun um að veita LHG 36 millj. kr. til kaupa á nauðsynlegum viðbragðsbúnaði vegna gróðurelda. Þar var höfð hliðsjón af tillögum starfshóps Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar í minnisblaði til innviðaráðherra frá byrjun mars 2022. Fjármagn til þessara mála hefur hingað til ekki verið tryggt í fjárlögum eða í fjármálaáætlun, en 36 millj. kr. voru veittar til Landhelgisgæslunnar vegna viðbragðs við gróðureldum samkvæmt fjáraukalögum 2022. Nú hefur 15 millj. kr. af þessu fé verið ráðstafað til kaupa á nýrri slökkviskjólu og hífibúnaði og er LHG sem stendur að prófa búnaðinn, eins og rætt er um í svari við 1. og 2. lið fyrirspurnarinnar hér að framan.
    Einnig er spurt hvort fjármagn sé tryggt til að koma upp viðbragðsáætlunum vegna gróðurelda á helstu stöðum þar sem hætta er á þeim. Það er skylda sveitarfélaga að koma upp viðbragðsáætlunum, í samráði við almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, hvað varðar helstu vá sem gæti komið upp í sveitarfélaginu. Í dag eru til tvær slíkar viðbragðsáætlanir, annars vegar fyrir Skorradalshrepp og hins vegar fyrir sveitarfélögin á Norðurlandi eystra. Þar er trjágróður og sumarhúsabyggð mikil og hafa þessar viðbragðsáætlanir verið unnar í samráði við almannavarnadeild ríkislögreglustjóra. Íslenska ríkið hefur sjaldnast komið að kostnaði við gerð slíkra áætlana, þó svo að dæmi séu um að vinna hafi verið framkvæmd af ráðuneyti eða ríkisstofnun og jafnframt hefur komið fyrir að slík vinna hafi hlotið fjárhagslegan stuðning ráðuneytis eða ríkisstofnunar.

     4.      Hefur verið komið upp endurmenntunarnámskeiði fyrir slökkviliðsmenn vegna gróðurelda? Ef ekki, hvenær er von á að slíkt námskeið verði tilbúið og kennsla hafin?
    Árið 2022 hélt Brunamálaskóli HMS endurmenntunarnámskeið vegna gróðurelda fyrir öll slökkvilið landsins. Til stendur að halda endurmenntunarnámskeið aftur haustið 2023 fyrir stjórnendur slökkviliða, sem er liður í endurmenntunarátaki Brunamálaskólans. Einnig stendur til að almannavarnadeild ríkislögreglustjóra muni á næstu misserum standa fyrir sameiginlegri æfingu viðbragðsaðila vegna gróðurelda.

     5.      Hver er staða á vinnu við rafrænu gáttina Brunagátt þar sem upplýsingar um búnað slökkviliða og staðsetningu hans eiga að verða aðgengilegar auk upplýsinga um miðlægan búnað og utanaðkomandi bjargir sem nýtast til slökkvistarfs?
    Brunagáttin er rafræn gátt sem heldur m.a. utan um upplýsingar um búnað slökkviliða. Slökkviliðum er skylt að skila slíkum upplýsingum til HMS og yfirfara fyrir 1. maí ár hvert samkvæmt 2. mgr. 8. gr. reglugerðar nr. 747/2018, um starfsemi slökkviliða. Upplýsingar um búnað slökkviliða, og á hvaða slökkvistöð viðkomandi búnaður er vistaður, má því finna í gáttinni (sjá nánar: hms.is/brunavarnir/brunagatt). Rétt er að nefna að Brunagáttin er enn í þróun og mun lausnin taka breytingum á næstu mánuðum og árum en HMS stefnir að því að þróa svokallað mælaborð vegna búnaðar slökkviliða, sem verður aðgengilegt á vefnum.