Ferill 908. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.
153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1421 — 908. mál.
Tillaga til þingsályktunar
um hótanir rússneskra stjórnvalda.
Flm.: Andrés Ingi Jónsson, Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, Björn Leví Gunnarsson, Gísli Rafn Ólafsson, Halldóra Mogensen, Orri Páll Jóhannsson, Steinunn Þóra Árnadóttir, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir.
Alþingi fordæmir áform rússneskra stjórnvalda um að koma kjarnavopnum fyrir í Belarús. Slíkt gengi í berhögg við samning Sameinuðu þjóðanna um bann við útbreiðslu kjarnavopna (NPT-samningnum) og ynni gegn friði.
Alþingi beinir því til stjórnvalda í Rússlandi að láta af þessum áformum þegar í stað og beinir því til stjórnvalda í Belarús að hafna hvers konar samkomulagi um að hýsa kjarnavopn.
Alþingi hvetur öll kjarnorkuveldi sem hafa komið kjarnavopnum fyrir á yfirráðasvæði annarra ríkja til að fjarlægja þau án tafar.
Alþingi hvetur íslensk stjórnvöld til að beita sér gegn áformum rússneskra stjórnvalda og á vettvangi Sameinuðu þjóðanna til að hrinda yfirstandandi aðför gegn helstu stofnunum á sviði afvopnunar.
Greinargerð.
Þá er þess skemmst að minnast að í sumar beittu rússnesk stjórnvöld sér gegn endurskoðun samnings Sameinuðu þjóðanna um bann við útbreiðslu kjarnavopna (NPT-samningsins) og að fyrr í ár ákváðu Rússar að segja sig frá nýja START-samkomulaginu sem er ætlað að takmarka það hve marga kjarnaodda Rússar og Bandaríkjamenn mega hafa reiðubúna til notkunar.
Pútín tilkynnti nú 25. mars að hann hygðist láta flytja kjarnavopn vestur yfir landamæri Rússlands til Belarúss, en um það hefði hann náð samkomulagi við Alexander Lúkasjenkó, forseta Belarúss og einn helsta bandamann Pútíns. Lúkasjenkó beitti sér nýlega fyrir breytingum á stjórnarskrá Belarúss þess efnis að heimilt væri að hýsa kjarnavopn og rússneskt herlið til frambúðar í landinu. Svjatlana Tsíkhanóskaja, sem leiðir stjórnarandstöðuna í Belarús í útlegð, gagnrýndi þjóðaratkvæðagreiðsluna um stjórnarskrárbreytingarnar og benti á að harðar aðgerðir stjórnvalda gegn hvers konar gagnrýnisröddum hefðu komið í veg fyrir að ákvörðunin væri tekin á lýðræðislegum grunni. Þá hefur Tsíkhanóskaja gagnrýnt samkomulag forsetanna á þeim grundvelli að það sé ekki í samræmi við þjóðarvilja.
Rússlandsforseti vísar til þess til stuðnings ákvörðun sinni að Bandaríkin hafi um langt skeið geymt kjarnavopn í Evrópu. Sú staðreynd réttlætir ekki þessa aðgerð, enda gengur hún í berhögg við skuldbindingar Rússlands samkvæmt NPT-samningnum. Þótt samnýting Atlantshafsbandalagsins á kjarnavopnum byggist á samkomulagi sem náðist áður en gildandi alþjóðasamningar á sviði afvopnunar voru gerðir, þá ætti engu að síður að vera umhugsunarefni að þessi staða gæti nýst Pútín sem tylliástæða og réttlæting fyrir ákvörðun sinni.
Flutningsfólk tillögu þessarar telur afar brýnt við þessar aðstæður að tekin sé skýr afstaða með friði og gegn óábyrgri hegðun stjórnvalda í Rússlandi.