Ferill 888. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.
153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1550 — 888. mál.
Svar
dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Arndísi Önnu Kristínardóttur Gunnarsdóttur um endurteknar umsóknir og Dyflinnarmál.
1. Hversu margar endurteknar umsóknir um alþjóðlega vernd hafa verið lagðar fram hér á landi á síðustu þremur árum, þ.e. nýjar umsóknir eftir að niðurstaða vegna fyrri umsóknar lá fyrir? Ekki er hér átt við beiðnir um endurupptöku máls á grundvelli stjórnsýslulaga.
Eins og sjá má í töflunni hér að neðan hafa borist alls 110 endurteknar umsóknir á síðustu þremur árum, þ.e. frá 2020 til 2022. 1
Heildarfjöldi umsókna um alþjóðlega vernd | Þar af endurteknar umsóknir | |
2020 | 652
|
23 |
2021 | 875 | 21 |
2022 | 4516 | 66 |
2. Hversu margir einstaklingar sem sóttu um alþjóðlega vernd hér á landi árið 2009, reyndust með fingraför sín skráð í Eurodac-gagnagrunninn svonefnda, af hálfu grískra stjórnvalda, án þess að hafa fengið þar alþjóðlega vernd? En árið 2019?
Í Eurodac-gagnagrunninum er leitað að fingraförum einstaklinga 14 ára og eldri. Árið 2009 bárust 35 umsóknir um alþjóðlega vernd á Íslandi. Fingraför þriggja umsækjenda um vernd, 14 ára og eldri, fundust í Eurodac-gagnagrunninum vegna þess að grísk yfirvöld höfðu skráð þau þar. Enginn þeirra hafði fengið vernd í Grikklandi.
Árið 2019 bárust 868 umsóknir um alþjóðlega vernd á Íslandi. Fingraför 98 umsækjenda um vernd, 14 ára og eldri, fundust í Eurodac-gagnagrunninum vegna þess að grísk yfirvöld höfðu skráð þau þar. Af þessum 98 einstaklingum reyndust 84 þegar hafa fengið vernd í Grikklandi.
1 Í kerfum Útlendingastofnunar eru endurteknar umsóknir ekki flokkaðar eftir því hvort fyrri umsóknir hafi verið afgreiddar með ákvörðun eða ekki. Til endurtekinna umsókna teljast því allar umsóknir frá einstaklingum sem höfðu áður sótt um alþjóðlega vernd, óháð því hvort fyrri umsóknir hafi verið afgreiddar með ákvörðun eða dregnar til baka.