Ferill 886. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1551  —  886. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Arndísi Önnu Kristínardóttur Gunnarsdóttur um aðgang að farþegalistum flugfélaga.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hvaða aðilar hafa eða geta fengið aðgang að farþegalistum flugfélaga og á hvaða lagagrundvelli?

    Skv. 2. mgr. 17. gr. laga nr. 136/2022, um landamæri, er fyrirtækjum sem annast flutning farþega til og frá landinu skylt að afhenda lögreglu upplýsingar um farþega og áhöfn. Sama skylda hvílir á stjórnendum, eigendum eða umráðamönnum fara á leið til og frá landinu, þar á meðal einkaloftfara og seglbáta. Skyldan nær einnig til upplýsinga um áætlaðan tíma komu og brottfarar.
    Skv. 3. mgr. sömu greinar er lögreglu heimilt að safna og skiptast á upplýsingum um farþega og áhöfn við tollyfirvöld í þágu eftirlits og greiningarstarfs eða vegna rannsókna á ætluðum brotum, og við Landhelgisgæslu Íslands og önnur stjórnvöld að því marki sem nauðsynlegt er til að þau geti sinnt lögbundnu hlutverki sínu. Lögreglu er einnig heimilt að miðla upplýsingum um farþega og áhöfn til erlendra yfirvalda að því marki sem nauðsynlegt er til að koma í veg fyrir, koma upp um, rannsaka eða saksækja fyrir hryðjuverk eða önnur alvarleg afbrot. Um slíkar miðlanir fer að öðru leyti eftir ákvæðum III. kafla laga um vinnslu persónuupplýsinga í löggæslutilgangi, nr. 75/2019.
    Sams konar ákvæði um skyldu til að afhenda lögreglu og tollyfirvöldum farþegaupplýsingar er einnig að finna í 51. gr. a tollalaga, nr. 88/2005, og ákvæði um notkun og miðlun slíkra upplýsinga af hálfu lögreglu er að finna í 42. gr. lögreglulaga, nr. 90/1996.
    Á grundvelli 51. og 180. gr. tollalaga hefur fjármálaráðherra svo sett reglugerð nr. 1072/2019 um upplýsingagjöf um farþega og áhöfn þar sem nánari reglur er að finna um skylduna til að afhenda upplýsingar til tolls og lögreglu.
    Það eru því lögregla og tollyfirvöld sem fá farþegaupplýsingar afhentar frá flugrekendum á grundvelli framangreindra lagaákvæða. Á síðasta ári tók til starfa sérstök eining innan embættis ríkislögreglustjóra sem fer með söfnun, varðveislu og greiningu farþegaupplýsinga, svonefnd farþegagreiningardeild. Í deildinni starfa bæði starfsmenn ríkislögreglustjóra og tollyfirvalda.
    Af hálfu lögreglu eru farþegaupplýsingar notaðar í þágu landamæraeftirlits og í hvers kyns löggæslutilgangi.
    Lögreglu er aðeins heimilt að miðla farþegaupplýsingum til annarra stjórnvalda að því marki sem nauðsynlegt er til að viðkomandi stjórnvald geti sinnt lögbundnu hlutverki sínu, sbr. 3. mgr. 17. gr. laga um landamæri. Miðlun upplýsinga til annarra stjórnvalda er sniðinn þröngur stakkur, nauðsyn er skilyrði fyrir miðluninni þannig að stjórnvaldið geti sinnt lögbundnu hlutverki sínu og hún þarf alltaf að vera í samræmi við lög.