Ferill 88. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.
153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 88 — 88. mál.
Tillaga til þingsályktunar
um orlofshúsnæði örorkulífeyrisþega.
Flm.: Steinunn Þóra Árnadóttir, Orri Páll Jóhannsson, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Inga Sæland, Jóhann Friðrik Friðriksson, Guðmundur Ingi Kristinsson, Þórunn Sveinbjarnardóttir, Halldóra Mogensen, Þórarinn Ingi Pétursson, Jóhann Páll Jóhannsson, Oddný G. Harðardóttir, Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Eyjólfur Ármannsson, Guðmundur Ingi Kristinsson, Jakob Frímann Magnússon, Tómas A. Tómasson, Jódís Skúladóttir.
Alþingi ályktar að fela félags- og vinnumarkaðsráðherra að gera úttekt á kostnaði við að koma upp orlofshúsum fyrir örorkulífeyrisþega á völdum stöðum á Íslandi. Horft verði sérstaklega til orlofshúsa verkalýðshreyfingarinnar sem fyrirmyndar. Úttektin verði unnin í samráði við hagsmunasamtök fatlaðs fólks, sveitarfélaga og aðila vinnumarkaðarins. Lagt verði mat á þörf, umfang, kostnað og mögulegar fjármögnunarleiðir.
Ráðherra kynni Alþingi niðurstöður úttektarinnar eigi síðar en 1. janúar 2023.
Greinargerð.
Ákvæði um orlof launafólks náðu fram að ganga í kjarasamningum nokkurra verkalýðsfélaga á fimmta áratugnum og voru slík ákvæði lögfest í kjölfarið. Þá þegar höfðu fáein verkalýðsfélög ráðist í byggingu orlofshúsa fyrir félagsmenn sína, en uppbyggingin gekk þó hægt, einkum ef horft er til norrænna fyrirmynda.
Í tíð vinstri stjórnar Hermanns Jónassonar á ofanverðum sjötta áratugnum stigu stjórnvöld með ákveðnum hætti inn í orlofshúsamálin með beinum framlögum í orlofsheimilasjóð verkalýðshreyfingarinnar og loforðum um land til uppbyggingar þeirra. Niðurstaðan varð myndarleg sumarhúsabyggð í Ölfusi sem tekin var í notkun á árinu 1964.
Upp frá þessu hefur verkalýðshreyfingin riðið þétt net orlofshúsa um land allt sem gefið hefur félagsfólki hennar gott færi á að njóta hvíldar í frítíma sínum í heilnæmu umhverfi.
Þótt mikilvægi þess að komast í frí fjarri heimili sínu sé öllum ljóst er aðgangur örorkulífeyrisþega að slíkri þjónustu takmarkaður. Ráða þar bæði hönnun og aðgengi að orlofshúsum en ekki síður sú staðreynd að afnot af orlofshúsum tengjast yfirleitt þátttöku á vinnumarkaði. Örorkulífeyrisþegar eru jafnframt margir hverjir í tekjulægri hópum þjóðfélagsins og eiga því enn erfiðara með að leigja sér orlofshús á frjálsum markaði. Fjölgun ferðamanna undanfarin ár dró ekki úr þeim vanda.
Með tillögu þessari er ráðherra því falið að gera úttekt á kostnaði við að koma upp orlofshúsum fyrir örorkulífeyrisþega á völdum stöðum á Íslandi með góðu aðgengi og á viðráðanlegu verði, þannig að aðgengi örorkulífeyrisþega að orlofshúsnæði verði sambærilegt við það sem gerist hjá félagsmönnum stéttarfélaga landsins.