Ferill 866. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1567  —  866. mál.




Svar


forsætisráðherra við fyrirspurn frá Gísla Rafni Ólafssyni um gagnanotkun Seðlabanka Íslands.

    Eftirfarandi svar ráðherra byggir á upplýsingum sem aflað var hjá Seðlabankanum.

     1.      Hvaða gögn nýtir Seðlabankinn sér til að fá yfirlit yfir skuldastöðu heimila hverju sinni? Hvaða tegundir lána (húsnæðis-, bíla-, yfirdráttarlán o.s.frv.) eru notaðar til þess að meta skuldastöðuna?
    Seðlabankinn safnar ýmsum gögnum um skuldastöðu heimila. Má þar helst nefna tölur úr efnahagsyfirlitum og fjármálareikningum fjármálafyrirtækja sem safnað er frá innlendum fjármálastofnunum á grundvelli 32. gr. laga nr. 92/2019, um Seðlabanka Íslands. Í þeim má finna samantekin gögn um útlán til heimila eftir lánstegundum (verðtryggð, óverðtryggð, gengisbundin, yfirdráttarlán, eignaleigusamningar og hvort lán séu veitt til íbúðakaupa). Í gögnunum er einnig að finna upplýsingar um ný útlán til heimila og uppgreiðslur. 1 Þau gögn eru líka brotin niður eftir lánstegundum og ítarlegar en fyrir öll útlán (til að mynda eru lán flokkuð eftir vaxtagerð og hvort um sé að ræða bílalán).
    Frá því í janúar 2020 hefur Seðlabankinn einnig safnað mánaðarlegum gögnum um öll fasteignalán til neytenda frá þeim lánveitendum sem eru með útistandandi meira en 10 millj. kr. af fasteignalánum til neytenda. 2 Í febrúar 2023 náði þessi fasteignalánaskrá til stóru viðskiptabankanna þriggja, Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (ÍL-sjóður) og níu lífeyrissjóða. 3 Gögnin innihalda meðal annars mánaðarlegar upplýsingar um fjárhæðir allra fasteignalána, gerð þeirra (verðtryggð eða óverðtryggð), vaxtategund og gildandi vexti, upplýsingar um dagsetningar vaxtaendurskoðunar og vanskil. Fyrir nýjar lánveitingar er einnig safnað upplýsingum úr greiðslumati, m.a. um ráðstöfunartekjur lántaka, fjárhæðir ýmissa skulda og greiðslubyrði þeirra.
    Seðlabankinn nýtir einnig gögn Hagstofunnar um skuldir, eignir og eiginfjárstöðu einstaklinga sem unnin eru úr skattframtölum. Þau gögn eru aðeins birt árlega og með töluverðri tímatöf. Af því leiðir að gögnin eru einkum höfð til hliðsjónar og nýtt við mat á sögulegri þróun. 4

     2.      Hvaða gögn nýtir Seðlabankinn sér til að fá yfirlit yfir greiðslugetu heimila? Er í því yfirliti tekið tillit til aukins framfærslukostnaðar, til að mynda fyrir fjölskyldur með börn?
    Seðlabankinn safnar ekki upplýsingum um greiðslugetu heimila almennt, eins og það hugtak er skilgreint í tengslum við lánshæfis- og greiðslumat. Sem fyrr segir safnar Seðlabankinn á hinn bóginn upplýsingum úr lögbundnu lánshæfis- og greiðslumati fjármálafyrirtækja og lífeyrissjóða í fasteignalánaskrá sem hægt er að nota til að reikna út greiðslugetu þeirra heimila sem hafa tekið fasteignalán. Þessum upplýsingum er þó aðeins safnað þegar nýtt lán er veitt og þær ná því ekki til nema lítils hluta heimila hverju sinni.
    Seðlabankinn hefur þó um árabil reiknað hlutfall skulda heimila af ráðstöfunartekjum. 5 Líta má á það hlutfall sem almennan vísi um getu heimila til að standa undir skuldbindingum sínum. Þegar vísirinn er reiknaður eru ráðstöfunartekjur áætlaðar út frá gögnum úr skattframtölum og skuldir heimila fengnar úr fjármálareikningum fjármálafyrirtækja. Við útreikninginn er ekki tekið tillit til framfærslukostnaðar.
    
     3.      Hvaða gögn nýtir Seðlabankinn sér til að fá yfirlit yfir vanskil heimila?
    Upplýsingar um vanskil heimila er m.a. að finna í reglulegum skýrsluskilum fjármálafyrirtækja sem byggja á skýrsluskilastöðlum Evrópusambandsins samkvæmt CRD IV löggjöfinni. Sem fyrr segir má jafnframt finna upplýsingar um vanskil fasteignalána í fasteignalánaskránni. 6

     4.      Hversu auðvelt er að sundurliða framantalin gögn eftir aldri, hjúskaparstöðu, fjölskyldustærð og tekjutíund?
    Gögn Hagstofunnar um skuldir, eignir og eiginfjárstöðu einstaklinga má nálgast með ýmiss konar sundurliðun á vefsíðu Hagstofunnar. Ekki er hægt að sundurliða nein af þeim gögnum sem Seðlabankinn safnar frá fjármálafyrirtækjum eftir aldri, hjúskaparstöðu, fjölskyldustærð eða tekjutíund. Sem fyrr segir eru upplýsingar um ráðstöfunartekjur nýrra lántaka í fasteignalánaskrá, en þær er ekki hægt að sundurgreina eftir einstaklingum þar sem fleiri en einn lántaki getur verið á bak við hverja lánveitingu. Þess utan eru upplýsingar um tekjur lántaka og ráðstöfunartekjur ekki skilgreindar með sama hætti og tekjur í skattframtölum og því ekki unnt að tengja þær beint við tekjutíundir eins og þær eru skilgreindar af Skattinum. Þá byggja tekjutíundir á brúttótekjum en ráðstöfunartekjur eru nettótekjur.

     5.      Hvað er því til fyrirstöðu að uppfæra þessi gögn oftar?
    Gögnum er almennt safnað mánaðarlega eða ársfjórðungslega og eðli máls samkvæmt er ekki unnt að birta gögn oftar en þeim er safnað. Seðlabankinn birtir mánaðarlega talsvert af gögnum um útlán til heimila í samandregnum efnahagsyfirlitum fjármálafyrirtækja. 7 Heildarsamantekt á skuldum heimila við fjármálafyrirtæki er svo birt ársfjórðungslega í fjármálareikningum fjármálafyrirtækja. 8 Ýmis önnur gögn birtast einnig reglulega í Hagvísum Seðlabanka Íslands. 9

     6.      Hvað er því til fyrirstöðu að hafa þessi gögn aðgengileg almenningi?
    Stór hluti þeirra gagna sem vísað hefur verið til hér að framan er aðgengilegur almenningi á samanteknu formi, annað hvort á heimasíðu Seðlabankans eða í ritum hans.
    Rík þagnarskylda hvílir á starfsmönnum Seðlabankans um allt það sem varðar hagi viðskiptamanna bankans, viðskipti og rekstur eftirlitsskyldra aðila, tengdra aðila eða annarra og málefni bankans sjálfs, svo og um önnur atriði sem þeir fá vitneskju um í starfi sínu og leynt skulu fara samkvæmt lögum eða eðli máls, nema dómari úrskurði að upplýsingar sé skylt að veita fyrir dómi eða til lögreglu eða skylt sé að veita upplýsingar lögum samkvæmt, sbr. 1. mgr. 41. gr. laga nr. 92/2019.
    Við birtingu hvers kyns gagna eða upplýsinga, hvort sem er á vefsíðu Seðlabankans eða í ritum hans, þarf að huga sérstaklega að sjónarmiðum um annars vegar þagnarskyldu og hins vegar persónuvernd á grundvelli laga nr. 90/2018, um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga. Birting upplýsinga niður á einstaka aðila væri t.d. ekki í samræmi við slík sjónarmið.

1    Gögnin ná til nýrra útlána innlánsstofnana, lífeyrissjóða og Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS).
2    Gögnum í fasteignalánaskránni er safnað mánaðarlega samhliða skuldbindingaskrá. Frekari upplýsingar um innihald gagnanna má finna í 9. kafla í gagnalíkani skrárinnar á heimasíðu Seðlabankans: www.fme.is/thjonustugatt/rafraen-skil/skuldbindingaskra
3    Gögnum frá lífeyrissjóðum hefur þó aðeins verið safnað frá ágúst 2020. Þeir sjóðir sem gögnum hefur verið safnað frá eru Almenni lífeyrissjóðurinn, Birta lífeyrissjóður, Brú lífeyrissjóður, Frjálsi lífeyrissjóðurinn, Gildi lífeyrissjóður, Lífeyrissjóður verzlunarmanna, Lífsverk lífeyrissjóður, LSR og SL lífeyrissjóðir.
4    Sjá dæmi um nýtingu umræddra gagna á mynd I-43 í nýútgefnu riti Seðlabankans, Fjármálastöðugleiki 2023/1.
5    Með ráðstöfunartekjum er átt við væntar viðvarandi tekjur að frádregnum beinum sköttum, sem eftir atvikum eru á þær lagðar, og ýmsum gjöldum.
6    Sjá reiti 9.2.34 og 9.2.35 í gagnalíkani.
7    Sjá sedlabanki.is/hagtolur/talnaefni/
8    Sjá t.d. sedlabanki.is/hagtolur/nanar/2023/03/07/Fjarmalareikningar-fjarmalafyrirtaekja/?stdID=8
9    Sjá t.d. www.sedlabanki.is/utgefid-efni/rit-og-skyrslur/rit/ 2022/12/22/Hagvisar-Sedlabanka-Islands-22.-desember-2022/