Ferill 850. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1539  —  850. mál.




Svar


utanríkisráðherra við fyrirspurn frá Andrési Inga Jónssyni um aðild Íslands að kjarnavopnalausu svæði á Norðurlöndum.


     1.      Hvaða áhrif hafa skuldbindingar Íslands gagnvart NATO á möguleika landsins til að verða hluti af kjarnavopnalausu svæði á Norðurlöndum?
    Kjarnavopnalaust svæði (e. Nuclear-Weapon-Free Zone) er ekki til staðar á Norðurlöndunum. Stjórnvöld hafa því beitt sér fyrir afvopnun með öðrum hætti. Sú stefna íslenskra stjórnvalda að leyfa ekki staðsetningu kjarnavopna hér á landi er vel kunn meðal bandalagsríkja og hefur verið óbreytt um áratugaskeið. Þessi stefna er áréttuð í þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland. Í stefnunni er að finna sérstakt ákvæði sem kveður á um að Ísland og íslensk landhelgi sé friðlýst fyrir kjarnavopnum, að teknu tilliti til alþjóðlegra skuldbindinga, í því augnamiði að stuðla að afvopnun og friði af Íslands hálfu. Þjóðaröryggisstefnan leggur jafnframt áherslu á aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu og þær skuldbindingar sem af henni leiða sem lykilstoð í vörnum landsins, sbr. 3. gr. stefnunnar.
    Ný grunnstefna Atlantshafsbandalagsins var samþykkt í júní 2022. Stefnan kveður á um að stefnt skuli að heimi án kjarnavopna. Aftur á móti tilgreinir grunnstefnan, nú eins og áður, kjarnavopn sem hluta af fælingar- og varnarstefnu bandalagsins á meðan kjarnavopn fyrirfinnast. Ísland, líkt og önnur bandalagsríki, hefur fylgt þeirri stefnu og þeim pólitísku skuldbindingum sem í henni felast. Í stefnu Atlantshafsbandalagsins felst þó ekki velþóknun á kjarnavopnum og hið endanlega markmið er skýrt, þ.e. að fækka kjarnavopnum og skapa þau skilyrði að þeim verði hægt að eyða. Ísland hefur þess vegna lagt áherslu á að unnið sé að markvissri afvopnun
    Rétt er að geta þess að utanríkisráðherrar Norðurlandanna ákváðu á fundi sínum í Reykjavík 29.–30. mars 1987 að kanna hvort koma mætti á kjarnavopnalausu svæði á Norðurlöndum. Nefnd embættismanna skilaði skýrslu hvað það varðar í mars 1991. Í niðurstöðu skýrslunnar segir m.a. að slíku svæði verði aðeins komið á að höfðu samráði við Atlantshafsbandalagsríki og að ekki verði séð að slík friðlýsing þjóni öryggishagsmunum Norðurlandanna. Lítil sem engin áhersla hefur því verið á stofnun slíks svæðis síðustu áratugi og hafa ríkin þess í stað einbeitt sér að öðrum aðferðum til að vinna að afvopnun.

     2.      Gætu einhverjar skuldbindingar Íslands gagnvart NATO hindrað að Ísland verði hluti af kjarnavopnalausu svæði á Norðurlöndum? Ef svo er, hverjar eru þær skuldbindingar?
    Sjá svar við 1. tölul. fyrirspurnar.

     3.      Hvert er álit ráðherra á þeirri skoðun að Ísland geti ekki orðið hluti af kjarnavopnalausu svæði á Norðurlöndum vegna hernaðartengsla Íslands við Bandaríkin?
    Það er álit ráðherra að fyrrgreindar skuldbindingar sem felast í aðildinni að Atlantshafsbandalaginu og sameiginlegum varnarskuldbindingum þess vegi hér þyngst.

     4.      Er afstaða ráðherra í þessum atriðum sú sama og fram kom í svari við sambærilegri fyrirspurn á 104. löggjafarþingi (338. mál)? Ef ekki, er þess óskað að ráðherra geri grein fyrir því hvað valdi breyttri afstöðu stjórnvalda.
    Skýr afstaða ráðherra er í samræmi við þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland sem fjallað var um í svari við 1. tölul. fyrirspurnar. Hún felur í sér að stefna skuli að kjarnavopnalausri veröld og að kjarnavopnum verði eytt með markvissum og gagnkvæmum hætti. Þessi yfirlýsta stefna Íslands hefur verið kynnt og áréttuð við bandalagsríki sem búa yfir kjarnavopnum.
    Rétt er að geta þess að Ísland hefur í gegnum tíðina gerst aðili að fjölda samninga sem lúta að afvopnun, banni við útbreiðslu kjarnavopna og allsherjarbanni við tilraunum með kjarnavopn. Jafnframt hefur Ísland stutt margvíslegar yfirlýsingar og ályktanir um þessi mál á alþjóðavettvangi, t.d. hjá Sameinuðu þjóðunum.

    Alls fóru þrjár vinnustundir í að taka svarið saman.