Ferill 844. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.
153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 2270 — 844. mál.
Svar
fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Jakobi Frímanni Magnússyni um kostnað vegna þátttöku Íslands í EES-samstarfinu.
1. Hver var árlegur kostnaður ríkissjóðs vegna þátttöku Íslands í rekstri EFTA árin 2012– 2022?
Kostnaður Íslands vegna þátttöku landsins í EFTA á tímabilinu 2012–2022 nemur samtals 1.031 millj. kr. á verðlagi hvers árs. Framlag hvers aðildarríkis er reiknað sem hlutfall af vergum þjóðartekjum aðildarlandanna. Í eftirfarandi töflu gefur að líta yfirlit yfir framlög Íslands fyrir hvert ár.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
2. Hversu mikið var greitt árlega úr ríkissjóði til EES vegna álagðra gjalda eða kostnaðarþátttöku í sameiginlegum verkefnum á sama tímabili?
EES/EFTA-ríkin og ESB fara saman með stjórnsýslu og framkvæmd Evrópska efnahagssvæðisins með tveggja stoða fyrirkomulagi. Annars vegar er um að ræða stofnanir EFTA-ríkjanna innan EES, EFTA-stoðina svokölluðu, og hins vegar stofnanir Evrópusambandsins, eða ESB-stoðina, auk sameiginlegra stofnana sem kveðið er sérstaklega á um í EES-samningnum.
Þessu til viðbótar greiðir Ísland í Uppbyggingarsjóð EES en honum er ætlað að draga úr félagslegum og efnahagslegum ójöfnuði innan Evrópska efnahagssvæðisins og efla tvíhliða samstarf milli EFTA-ríkjanna innan EES og fimmtán viðtökuríkja sjóðsins í Evrópu. Kostnaðarhlutföll EFTA-ríkjanna eru fastsett þar sem Noregur borgar 89%, Ísland 9% og Liechtenstein 2%.
Samkvæmt ríkisreikningi fyrir árin 2012–2021 námu greiðslur til þeirra stofnana EFTA sem starfa samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið um 2.708 millj. kr. miðað við verðlag hvers árs en því til viðbótar námu framlög til Uppbyggingarsjóðs EES 8.260 millj. kr. á tímabilinu. Í eftirfarandi töflu má sjá hvernig kostnaðurinn skiptist eftir árum.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
3. Hver var árlegur kostnaður ríkissjóðs vegna innleiðingar EES-tilskipana á sama tímabili?
Sjá svar við 4. tölul. fyrirspurnar.
4. Hversu mörg stöðugildi þarf til að vinna að innleiðingu EES-tilskipana? Svar óskast sundurliðað eftir ráðuneytum og undirstofnunum þeirra.
Fjöldi stöðugilda og kostnaður ríkissjóðs sem árlega hefur verið bundinn við innleiðingar á EES-tilskipunum í íslenska löggjöf yfir tímabilið 2012–2022 liggur ekki nákvæmlega fyrir og er eingöngu hægt að áætla gróflega fyrir einstök ráðuneyti og ríkið í heild. Þetta stafar einkum af því að ráðuneytin halda almennt ekki sérstakt verkbókhald yfir einstök verkefni í starfsemi sinni. Almennt gildir að sérfræðingar aðalskrifstofa ráðuneyta sinna margvíslegum verkefnum. Þar á meðal vinna sumir þeirra að innleiðingu EES-tilskipana en eru þó í fæstum tilvikum í fullu starfi við það verkefni.
Við mat á kostnaði og fjölda stöðugilda var því ákveðið að miða við meðaltal síðastliðinna ára í starfsemi ráðuneyta. Í þeim tilvikum þar sem verkefni höfðu færst á milli ráðuneyta varð því að eiga sér stað samtal á milli þeirra til að meta umfangið. Notast var við meðalkostnað við starf sérfræðings og er miðað við 17 millj. kr. á ári að meðtöldum launatengdum gjöldum á verðlagi ársins 2023.
Niðurstöðuna má sjá í eftirfarandi töflu en gera má ráð fyrir að um 26 stöðugildi hjá ráðuneytum og undirstofnunum þeirra séu að jafnaði bundin innleiðingu EES-tilskipana. Tvö ráðuneyti bera engan kostnað vegna innleiðinga EES-tilskipana. Samkvæmt þessu nemur kostnaðurinn um 444 millj. kr. hjá ráðuneytum og undirstofnunum þeirra á verðlagi ársins 2023. Má því áætla lauslega að hann hafi að jafnaði verið svipaður á tímabilinu, eða sem nemur 4.884 millj. kr. öll árin en þá er miðað við verðlag ársins 2023.
Þessu til viðbótar er launakostnaður vegna starfsfólks Þýðingamiðstöðvar utanríkisráðuneytisins en hlutverk hennar er eingöngu að þýða tilskipanir á íslensku áður en þær eru innleiddar í íslensk lög. Gögn um fjölda stöðugilda og kostnað liggja fyrir öll árin sem sjá má í sérstakri töflu hér að neðan. Þess má geta að stöðugildum Þýðingamiðstöðvarinnar fækkaði umtalsvert eftir árið 2015 en þá hafði aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu verið dregin til baka. Síðan þá hafa verið um 32 starfsmenn að meðaltali að störfum hjá stofnuninni á ári. Kostnaðurinn við þessi störf hefur numið 4.285 millj. kr. yfir tímabilið á verðlagi hvers árs.
Í þessu mati er miðað við beinan kostnað við launaða vinnu vegna innleiðingar tilskipana Evrópusambandsins en það er kostnaður sem fellur til við að semja lög og reglugerðir. Því er ekki um að ræða afleiddan kostnað af sjálfum lagabreytingunum hjá stofnunum ríkisins.
Ekki er hægt að líta svo á að um hrein viðbótarútgjöld sé að ræða fyrir ríkissjóð þar sem ganga má út frá því að í flestum tilvikum hefði þurft að koma til laga- og reglugerðarsetningar í meira eða minna mæli óháð aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu. Þá verður að skoða umræddan kostnað sem hluta af því að tryggja ávinning Íslands að innri markaðnum og tengdu samstarfi og að borgarar og fyrirtæki geti notið réttinda sinna samkvæmt samningnum.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.