Ferill 836. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 2280  —  836. mál.




Svar


félags- og vinnumarkaðsráðherra við fyrirspurn frá Andrési Inga Jónssyni um langvinn áhrif COVID-19.


     1.      Hversu mörg er talið að glími við skerta starfsgetu sem hluta af langvinnum eftirköstum sýkingar af völdum COVID-19? Svar óskast greint eftir kyni.
    Ráðuneytið býr ekki yfir sjúkraskrárgögnum og getur því ekki svarað þessari fyrirspurn heildstætt. Á hinn bóginn þá hefur Tryggingastofnun ríkisins upplýsingar um hvaða sjúkdómsgreining er orsök örorku eða umsókna um endurhæfingarlífeyri. Nauðsynlegt er þó að setja fyrirvara við þær upplýsingar þar sem sjúkdómsgreiningar í læknisvottorðum vegna umsókna um endurhæfingarlífeyri og örorku eru yfirleitt frá einni og upp í á annan tug fyrir hvern umsækjanda. Því er oft veruleg óvissa um það hvaða sjúkdómar vega þyngst í óvinnufærni umsækjenda þótt ætla megi að fyrsta sjúkdómsgreining á læknisvottorði geri það.
    Hér á eftir eru tölur um fjölda þeirra sem eru með eftirstöðvar COVID-19 sem eina af sjúkdómsgreiningum í læknisvottorði vegna örorku eða umsóknar um endurhæfingarlífeyri á árunum 2020–2022. Til samanburðar eru einnig lagðar fram tölur um fjölda þeirra sem eru með þreytuheilkenni skráð eftir veirusýkingu, þar sem í þeirri sjúkdómsgreiningu er ekki gerður greinarmunur á þeim veirum sem taldar eru liggja að baki (það er eingöngu gert vegna COVID-19 undir greiningarnúmerinu U09). Tölurnar eru bæði greindar eftir aldri og kyni. Tölurnar eftir aldri byggjast aðeins á fyrsta mati en tölurnar eftir kyni á öllum mötum.
    Varðandi örorkumat fyrir árin 2020–2022 kemur t.d. eftirfarandi fram um nýgengi (fyrsta mat):     
     Þreytuheilkenni eftir veirusýkingu:
         Yngri en 35 ára: 1.
         35–50 ára: 16.
         51–66 ára: 8.
     Eftirstöðvar COVID-19:
         Yngri en 35 ára: Enginn.
         35–50 ára: 1.
         51–66 ára: 2.
    Varðandi endurhæfingarlífeyri fyrir árin 2020–2022 kemur t.d. eftirfarandi fram um nýgengi (fyrsta mat):
     Þreytuheilkenni eftir veirusýkingu:
         Yngri en 35 ára: 2.
         35–50 ára: 5.
         51–66 ára: 1.
     Eftirstöðvar COVID-19:
         Yngri en 35 ára: 3.
         35–50 ára: 16.
         51–66 ára: 8.
    
    Kynjaskipting allra sjúkdómsgreininga í læknisvottorðum. Ekki er um nýgengi að ræða heldur allar sjúkdómsgreiningar í læknisvottorðum vegna umsókna um endurhæfingar- eða örorkulífeyri 2020–2022:
     Örorkulífeyrir – karlar:
         Þreytuheilkenni eftir veirusýkingu: 15.
         Eftirstöðvar COVID-19: 4.
     Örorkulífeyrir – konur:
         Þreytuheilkenni eftir veirusýkingu: 81.
         Eftirstöðvar COVID-19: 19.
     Endurhæfingarlífeyrir – karlar:
         Þreytuheilkenni eftir veirusýkingu: 21.
         Eftirstöðvar COVID-19: 41.
     Endurhæfingarlífeyrir – konur:
         Þreytuheilkenni eftir veirusýkingu: 62.
         Eftirstöðvar COVID-19: 89.
    
     2.      Hefur verið lagt mat á þjóðhagsleg áhrif þess, t.d. á vinnumarkað og almannatryggingakerfið?
    Ráðuneytið hefur ekki upplýsingar um hvort mat hafi verið lagt á þjóðhagsleg áhrif COVID-19 á t.d. vinnumarkað og almannatryggingakerfið.