Ferill 833. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1286  —  833. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á umferðarlögum, nr. 77/2019 (öryggi gangandi vegfarenda).

Flm.: Björn Leví Gunnarsson, Andrés Ingi Jónsson, Gísli Rafn Ólafsson, Halldóra Mogensen, Viðar Eggertsson.


1. gr.

    Orðin „ef nauðsynlegt er“ í 2. málsl. 4. mgr. 27. gr. laganna falla brott.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Í markmiðakafla greinargerðar með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 77/2019 segir að í fyrsta lagi sé stefnt að auknu umferðaröryggi og í öðru lagi að færa gildandi ákvæði til nútímalegra horfs með því að taka mið af reynslu síðastliðinna áratuga og þróun í umferðar- og tæknimálum, með tilliti til þess m.a. að gangandi vegfarendum hefur farið fjölgandi með breyttu samgöngumynstri undanfarin ár. Orðalag 2. málsl. 4. mgr. 27. gr. nýrra umferðarlaga skýtur því aðeins skökku við, en hann fjallar um það þegar gangandi vegfarandi er á gangbraut eða á leið út á hana þar sem umferð er hvorki stjórnað af umferðarljósum né lögreglu. Skal ökumaður þá nema staðar fyrir gangandi vegfaranda ef nauðsynlegt er. Þetta orðalag er óbreytt frá ákvæði 6. mgr. 26. gr. eldri umferðarlaga, nr. 50/1987, en ekki má finna skýringar á því af hverju þessu er haldið óbreyttu í núgildandi umferðarlögum, þrátt fyrir að liðin séu yfir þrjátíu ár. Af því má leiða að þetta hafi ekki komið sérstaklega til skoðunar við samningu nýrra laga.
    Við setningu eldri umferðarlaga kom fram nýmæli í 1. mgr. 26. gr., um að það skyldi vera meginregla að ökumaður sem mætir eða ekur fram hjá gangandi vegfaranda skuli gefa þeim síðarnefnda tíma til að víkja til hliðar og veita honum nægilegt rými. Þessari meginreglu var haldið í 27. gr. núgildandi umferðarlaga. Greinin fjallar um sérstakar skyldur gagnvart gangandi vegfarendum, sem snúa m.a. að því að veita þeim forgang, valda þeim ekki hættu og sýna þeim tillitssemi í umferðinni. Eina ákvæðið sem gerir ekki kröfu til ökumanna um að nema staðar er fyrrnefndur 2. málsl. 4. mgr. 27. gr., þ.e. aðeins í þeim tilvikum þegar „nauðsynlegt er“ að nema staðar, sem er í sjálfu sér afbrigði frá meginreglunni. Hvorki í greinargerð með eldri umferðarlögum né í greinargerð með núgildandi lögum er að finna rökstuðning fyrir þessu né í hvaða aðstæðum væri nauðsynlegt að nema staðar.
    Við umferðarþungar götur er umferð stjórnað af umferðarljósum og liggur enginn vafi á því hver á forganginn hverju sinni. Þar sem lægri hámarkshraði gildir eru sjaldnar umferðarljós, heldur er gangandi vegfarendum mörkuð leið með gangbraut sem þverar akveginn. Þar sem er lægri ökuhraði er jafnan auðveldara fyrir ökumenn að greina gangandi vegfarendur fram undan og nema staðar. Í ljósi þeirrar þróunar sem orðið hefur á samgöngumynstri undanfarin ár með fjölgun gangandi vegfarenda, og þá einkum með tilliti til öryggissjónarmiða, þykir flutningsmönnum þessa frumvarps liggja beinast við að afnema skilyrðið um að það sé aðeins vegna nauðsynjar sem bifreið skuli stöðvuð fyrir gangandi vegfarendum á gangbraut. Því sé réttast að taka hér af allan vafa og veita gangandi vegfarendum forganginn.