Ferill 819. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.
153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1501 — 819. mál.
Svar
háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni um vaxtaákvarðanir Menntasjóðs námsmanna.
Leitað var umsagnar Menntasjóðs námsmanna varðandi fyrirspurnina og byggjast svör ráðherra á upplýsingum sem aflað hefur verið hjá sjóðnum.
1. Við hvað miðast vaxtaálag skv. 17. og 18. gr. laga um Menntasjóð námsmanna, nr. 60/2020, sem sett er á þau vaxtakjör sem ríkissjóði bjóðast á markaði?
Við mat á áhrifum af breytingum á lögum um Menntasjóð námsmanna, áður Lánasjóð íslenskra námsmanna, var vaxtaálagið metið um 0,8%. Vaxtaálagið skal standa undir öllum væntum afföllum af endurgreiðslum námslána. Eins og fram kemur í 17. gr. laga um Menntasjóð námsmanna, nr. 60/2020, skal vaxtaálagið ákveðið og birt í úthlutunarreglum hvers árs. Lögin komu til framkvæmda 1. júlí 2020 og fyrstu lánþegar fengu lánað samkvæmt nýjum lögum á skólaárinu 2020–2021. Fyrstu greiðendur námslána samkvæmt nýju lögunum hófu greiðslur í ágúst 2022 og voru nýir greiðendur alls 1.805 á árinu 2022. Í samræmi við það telur Menntasjóður námsmanna ekki forsendur fyrir því að endurskoða vaxtaálagið að svo stöddu.
2. Hvers vegna eru vextirnir breytilegir í stað þess að miða bara við markaðsvexti þegar lán er tekið?
Eins og kemur fram í greinargerð með því frumvarpi sem varð að lögum nr. 60/2020 er markmið laganna m.a. að stuðningur ríkisins verði jafnari og gagnsærri en áður, þ.e. í stað þess að stuðningur til námsmanna sé í formi niðurfellingar ógreiddra lána og vaxtamunar fái námsmenn 30% styrk ljúki þeir námi á tilskildum tíma og að veittur verði barnastyrkur í stað barnaláns ljúki námsmaður lágmarkseiningum á önn. Þá gera lögin ráð fyrir að greiðendur velji að meginreglu endurgreiðslur sem taka mið af lántökufjárhæð en ekki tekjutengingu líkt og var í eldra námslánakerfi og námslán verði því að fullu endurgreidd fyrir 65 ára aldur. Þannig mun aðstoð ríkisins til námsmanna verða sýnilegri og jafnari. Jafnframt verði hvati fyrir námsmenn að ljúka námi á tilskildum tíma til að fá 30% niðurfellingu á námslánum sínum. Til þess að nýtt námslánakerfi samkvæmt lögum nr. 60/2020 virki er gert ráð fyrir að endurgreiðslur námslána standi undir sér og ríkið hætti að niðurgreiða vexti líkt og var í eldra námslánakerfi.
3. Telur ráðherra að það sé eðlilegt að námsmenn axli áhættu af þróun þeirra vaxtakjara sem ríkissjóði bjóðast?
Í svari við 2. tölul. fyrirspurnarinnar felst að hluta til svar við þessum tölulið. Breytilegir vextir á námslánum byggjast á vaxtakjörum sem ríkissjóði bjóðast á markaði og þannig er dregið úr vaxtaáhættu sjóðsins. Allir lánþegar greiða á hverjum tímapunkti sömu vexti óháð því hvenær námi lauk. Kostnaður námsmanna af endurgreiðslum námslána verður óhjákvæmilega mismunandi mikill allt eftir aðstæðum sem uppi eru í þjóðfélaginu hverju sinni og móta lánskjör ríkissjóðs. Til að koma til móts við slíkar breytingar er sett þak á endurgreiðsluvexti námslána að meðtöldu vaxtaálagi, þ.e. 4% vaxtaþak á verðtryggð lán og 9% þak á óverðtryggð lán.