Ferill 794. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 2184  —  794. mál.




Svar


innviðaráðherra við fyrirspurn frá Höllu Signýju Kristjánsdóttur um byggingaröryggisgjald.


     1.      Hvert rennur byggingaröryggisgjald, sbr. reglugerð nr. 1068/2010, nú eftir að Mannvirkjastofnun var lögð niður?
    Byggingaröryggisgjald er innheimt af vátryggingafélögum við greiðslu iðgjalda fasteignatrygginga og nemur innheimt gjald samtals rúmlega 600 m.kr. á ári. Gjaldið var lögfest árið 2010 með lögum um mannvirki, nr. 160/2010, og til ársins 2018 var kveðið á um að byggingaröryggisgjald skyldi notast til umsýslu hins opinbera vegna málaflokksins byggingarmál. Árið 2018 gengu í gildi lög um breytingu á ýmsum lagaákvæðum um markaðar tekjur, nr. 47/2018. Í 19. gr. þeirra laga var lögum um mannvirki, nr. 160/2010, breytt og einungis kveðið á um að byggingaröryggisgjald skyldi renna í ríkissjóð, og hefur það verið svo síðan.

     2.      Hefur komið til álita að láta þetta gjald renna til sveitarfélaga til að fjármagna rekstur slökkviliða og standa undir brunavörnum í héraði? Ef ekki, hver eru rökin fyrir því?
    Byggingaröryggisgjald er ákvarðað í lögum um mannvirki, nr. 160/2010, og varðar því þá málaflokka sem þar er um fjallað. Lög um brunavarnir, nr. 75/2000, varða m.a. skyldur sveitarfélaga til að starfrækja slökkvilið og kostnað þeirra vegna þess rekstrar. Þar er byggingaröryggisgjald ekki nefnt, sem mögulega skýrir að ekki hefur verið mikil umræða um að gjaldið sé nýtt til að standa undir brunavörnum í héraði.

     3.      Er unnið að aðgerðaáætlun til að vinna að umbótum í brunavörnum í landinu á vegum Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar? Ef svo er, hvenær er hennar að vænta?
    Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) hefur á margvíslegan hátt unnið að umbótum á brunavörnum í landinu. Í október 2022 gaf HMS meðal annars út 100 síðna rit, „Skýrsla um stöðu slökkviliða á Íslandi“, byggt á úttektum stofnunarinnar á starfsemi slökkviliða frá árinu áður. Tilgangur úttektanna var að ná fram heildstæðri sýn yfir starfsemi slökkviliða í landinu svo unnt væri að vinna markvisst að því að efla eldvarnaeftirlit og slökkvistarf þar sem þörf er á og tryggja þannig faglega, virka og samhæfða þjónustu slökkviliða um land allt. Skýrslan inniheldur tillögur að úrbótum og hefur HMS sett upp margs konar verkefni sem stuðla að þeim úrbótum. Einnig er unnið að frekari úrbótum á brunavörnum í landinu á vegum ráðherraskipaðs starfshóps um úrbætur á brunavörnum í húsnæði þar sem fólk hefur búsetu, og mun starfshópurinn skila tillögum til ráðherra á næstu vikum.