Ferill 786. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1588  —  786. mál.




Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur um bankaskatt.


     1.      Er ráðherra kunnugt um að lækkun á bankaskatti hafi skilað sér í bættum kjörum til neytenda?
    Sértæk skattlagning á fjármálafyrirtæki á borð við bankaskatt er til þess fallin að hækka fjármögnunarkjör fjármálafyrirtækja. Af þeim sökum hefur slík skattlagning að öðru jöfnu í för með sér aukinn vaxtamun og lakari vaxtakjör heimila og fyrirtækja. Til nánari skýringar er vísað til ítarlegrar umfjöllunar um sérstaka skattlagningu fjármálafyrirtækja, áhrif hennar og alþjóðlegan samanburð í Hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið sem gefin var út árið 2018.
    Samkvæmt gögnum sem Seðlabanki Íslands birti í riti sínu Fjármálastöðugleiki árið 2022 hefur vaxtamunur kerfislega mikilvægu bankanna lækkað mikið frá árinu 2012. Eftir nokkra hækkun vaxtamunar árin 2015 og 2016 lækkaði hann að nýju frá 2018 til 2021. Lækkun bankaskattsins í þrepum á árunum 2020–2024 var samþykkt á Alþingi 4. desember 2019 og tók gildi 1. janúar 2020. Með lögum um breytingu á ýmsum lögum til að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru var áður lögfestri þrepalækkun bankaskatts flýtt þannig að gjaldhlutfallið var strax á árinu 2021 fært niður í núgildandi hlutfall, þ.e. 0,145%, en að óbreyttu hefði það ekki orðið fyrr en á árinu 2024. Vaxtamunur hækkaði að nýju hjá stóru viðskiptabönkunum þremur árið 2022, líkt og algengt er þegar seðlabankar hækka meginvexti. Í þessu sambandi er ástæða til að vekja athygli á því að í júní 2022 skipaði menningar- og viðskiptaráðherra vinnuhóp til að greina gjaldtöku og arðsemi viðskiptabankanna.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



     2.      Kemur til álita af hálfu ráðherra, í ljósi þess mikla hagnaðar sem íslensku bankarnir skila og til að bregðast við háu vaxtastigi bankanna ásamt auknum mun á innláns- og útlánsvöxtum, að hækka bankaskatt að nýju?
    Bankaskattur var upphaflega 0,041% af skuldum bankanna. Haustið 2011 var með bráðabirgðaákvæði til viðbótar við bankaskattinn lagður á 0,0875% skattur til tveggja ára. Haustið 2013 var bankaskattur hækkaður í 0,145% í almennu tekjuöflunarskyni fyrir ríkissjóð. Það hlutfall var síðan hækkað í meðförum þingsins í 0,376% í tengslum við höfuðstólsleiðréttingu húsnæðislána og var hlutfallið óbreytt þar til það var lækkað aftur í 0,145% í árslok 2020. Hækkun bankaskatts að nýju myndi að öðru óbreyttu leiða til aukins vaxtamunar og verri kjara fyrir heimili og fyrirtæki. Þá er ástæða til að árétta að jafnvel eftir lækkun bankaskatts eru sértækir skattar á banka á Íslandi mun hærri en annars staðar á Norðurlöndunum og í flestum öðrum þróuðum ríkjum sem gjarnan er litið til í samanburði. Þessir sérstöku skattar eru: (1) sérstakur skattur á fjármálafyrirtæki („bankaskattur“), (2) almennur fjársýsluskattur af launum, (3) sérstakur fjársýsluskattur af hagnaði, (4) eftirlitsgjald til Fjármálaeftirlitsins og (5) gjald til umboðsmanns skuldara. Þessi skattlagning er einnig ein skýringin á því að vaxtamunur banka hér á landi er almennt meiri en í samanburðarlöndum.
    Þá er ástæða til að benda á að þótt hagnaður bankanna geti virst hár í krónum talið er mikilvægt að litið sé til arðsemi þeirra miklu fjármuna sem bundnir eru í rekstrinum. Þannig var rekstur beggja banka sem verið hafa í meirihlutaeigu ríkisins í mörg ár nokkuð undir settum markmiðum um arðsemi eigin fjár og þegar betur hefur árað í rekstrinum í seinni tíð hefur arðsemin aðeins farið lítillega umfram markmið. Þá sýna ársreikningar stóru viðskiptabankanna lægri arðsemi eigin fjár árið 2022 en árið 2021. Á hinn bóginn þarf einnig að hafa í huga að ef arðsemi bankanna eykst þá endurspeglast það í auknum skattgreiðslum þeirra til ríkisins.