Ferill 764. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.
153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1350 — 764. mál.
Svar
utanríkisráðherra við fyrirspurn frá Ásmundi Friðrikssyni um ráðningu starfsfólks með skerta starfsorku.
1. Hver er stefna ráðuneytisins er varðar ráðningu starfsfólks með skerta starfsorku? Liggur sú stefna fyrir opinberlega og ef svo er ekki, hvaða ástæður liggja þar að baki?
Ráðuneytið fylgir bæði mannauðsstefnu Stjórnarráðsins og lögum nr. 86/2018, um jafna meðferð á vinnumarkaði. Ekki liggur fyrir sérstök stefna í ráðuneytinu varðandi ráðningu á starfsfólki með skerta starfsorku en stefnt er að því að samræmd stefna á þessu sviði liggi fyrir innan Stjórnarráðsins fyrir árslok 2023.
2. Hefur ráðuneytið sett sér tölusett markmið varðandi fjölda starfa sem henta einstaklingum með skerta starfsorku? Ef ekki, mun ráðherra beita sér fyrir slíkri stefnumótun?
Ráðuneytið er ekki með tölusett markmið varðandi fjölda starfa sem henta einstaklingum með skerta starfsorku. Ráðherra hefur falið mannauðsdeild ráðuneytisins að kanna hvaða störf innan þess gætu hentað starfsfólki með skerta starfsorku og hafa slíkt til hliðsjónar við ráðningar í framtíðinni.
3. Hversu margt starfsfólk með skerta starfsorku er í hlutastarfi eða fullu starfi hjá ráðuneytinu?
Sem stendur eru fjórir starfsmenn við störf í ráðuneytinu með skerta starfsorku.
4. Liggur fyrir mat á því hversu mörg störf eða hlutastörf, sem henta einstaklingum með skerta starfsorku, geti verið hjá ráðuneytinu?
Formlegt mat hefur enn ekki farið fram innan ráðuneytisins á því hversu mörg störf eða hlutastörf henta einstaklingum með skerta starfsorku.
Alls fóru 2 vinnustundir í að taka þetta svar saman.