Ferill 758. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 2197  —  758. mál.




Svar


félags- og vinnumarkaðsráðherra við fyrirspurn frá Ásmundi Friðrikssyni um ráðningu starfsfólks með skerta starfsorku.


     1.      Hver er stefna ráðuneytisins er varðar ráðningu starfsfólks með skerta starfsorku? Liggur sú stefna fyrir opinberlega og ef svo er ekki, hvaða ástæður liggja þar að baki?
    Ráðuneytið styðst við mannauðsstefnu Stjórnarráðsins í störfum sínum en þar segir að allt starfsfólk eigi að hafa sömu möguleika til að geta nýtt hæfileika sína í starfi og að vinnustaðurinn eigi að geta mætt breytilegum kröfum og áskorunum. Ráðuneytið lítur svo á að þessi stefna taki einnig til starfsfólks með mismikla starfsorku hvort heldur það eigi við um ráðningar á nýju starfsfólki eða þeirra sem verða fyrir áföllum eða heilsubresti á starfsævinni sem dregur úr starfsgetu þeirra.
    Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið er ráðuneyti málaflokksins og leggur sig fram við að skapa og fjölga starfsmöguleikum fyrir fólk með mismikla starfsorku bæði í rekstri sínum og með ýmsum aðgerðum sem styðja atvinnulífið og vinnumarkaðinn á Íslandi til að gera slíkt hið sama.

     2.      Hefur ráðuneytið beitt sér fyrir því að undirstofnanir þess móti skýra stefnu við ráðningu starfsfólks með skerta starfsorku? Ef ekki, hvers vegna ekki? Hvaða undirstofnanir hafa mótað stefnu og hverjar ekki?
    Rétt er að benda á að stofnanir ráðuneytisins eru mjög mismunandi að stærð og umfangi og til að mynda er embætti ríkissáttasemjara aðeins með tvo fastráðna starfsmenn. Þær stofnanir sem hafa a.m.k. einhverja tugi starfsmanna svara því til að þrátt fyrir að ekki sé fylgt skýrri mótaðri stefnu við ráðningu starfsfólks með mismikla starfsorku þá sé ávallt haft í huga hvort einstaklingur með mismikla starfsorku geti leyst starfið, þegar ráðningar eru framundan.
    Þá hafa stofnanirnar einnig útbúið sérstök verkefni sem henta fólki með mismikla starfsgetu, bæði sem sumarstörf og verkefni til lengri tíma. Þau störf eru ætluð til þjálfunar og endurhæfingar svo viðkomandi eigi betri möguleika á föstu starfi á vinnumarkaði í kjölfarið.
    Eftirfarandi tafla sýnir yfirlit yfir stofnanir ráðuneytisins sem hafa mótað sérstaka stefnu vegna ráðningar starfsfólks með mismikla starfsorku.

Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála Í vinnslu
Ríkissáttasemjari Nei
Tryggingastofnun ríkisins Nei
Umboðsmaður skuldara Nei
Úrskurðarnefnd velferðarmála Nei
Vinnueftirlitið
Vinnumálastofnun
Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu Nei

     3.      Hafa ráðuneytið og undirstofnanir þess sett sér tölusett markmið varðandi fjölda starfa sem henta einstaklingum með skerta starfsorku? Ef ekki, mun ráðherra beita sér fyrir slíkri stefnumótun?
    Vegna stefnumótunar og breytinga á örorku- og endurhæfingarlífeyriskerfinu á Íslandi þá er á vegum félags- og vinnumarkaðsráðherra að störfum samhæfingarnefnd um velferð og virkni á vinnumarkaði. Nefndinni er falið að vinna tillögu til ráðherra að vinnumarkaðsstefnu með áherslu á jöfn tækifæri til vinnu og velferð fólks á vinnumarkaði. Nefndin mun fjalla um mögulegar leiðir til að fjölga sveigjanlegum störfum og hlutastörfum, til að mynda með samkomulagi ríkis, sveitarfélaga og atvinnulífs. Markmið þess er að tryggja fólki með mismikla starfsgetu fjölbreytt störf, bætt lífskjör og viðunandi starfsaðstæður og þannig auka fjölbreytileika og fjölga tækifærum til þátttöku á vinnumarkaði. Þá mun nefndin skoða áhrif loftslags- og tæknibreytinga á þróun vinnumarkaðarins, þ.m.t. ólíkar starfsgreinar og þjóðfélagshópa. Enn fremur er nefndin að skoða hvernig megi bæta gagnaöflun og gagnavinnslu um vinnumarkaðinn. Nefndin mun einnig leita leiða til að stuðla að aukinni velferð á vinnumarkaði með áherslu á aðgerðir til að styðja við endurkomu og draga úr ótímabæru brotthvarfi af vinnumarkaði. Loks verði nefndinni falið að móta heildstæða stefnu um málefni ungs fólks á vinnumarkaði, þar sem áhersla verði á að lækka hlutfall ungmenna og ungs fólks sem er ekki í vinnu, námi eða starfsþjálfun (e. NEET, Not in Employment, Education or Training).
    Þá er rétt að láta þess getið að vegna fyrirspurnarinnar hafa mannauðsstjórar Stjórnarráðsins fundað og ákveðið að taka fyrir mótun stefnu um ráðningar starfsfólks með mismikla starfsorku sem á að vera tilbúin fyrir árslok 2023. Félags- og vinnumarkaðsráðuneyti og stofnanir þess hafa ekki sett sér tölusett markmið varðandi fjölda starfa sem henta einstaklingum með mismikla starfsorku. Með vísan í svar við 1. tölul. fyrirspurnarinnar þá er það stefna Stjórnarráðsins að stuðla að fjölbreyttari starfstækifærum fyrir fólk með mismikla starfsorku. Að því sögðu mun félags- og vinnumarkaðsráðherra beita sér fyrir slíkri markmiðssetningu fyrir ráðuneytið og beina því jafnframt til stofnana þess að gera slíkt hið sama.

     4.      Hversu margt starfsfólk með skerta starfsorku er í hlutastarfi eða fullu starfi hjá ráðuneytinu og undirstofnunum þess? Svar óskast sundurliðað eftir stofnunum.
    

Fjöldi starfsfólks með skerta starfsorku.

Stofnun Fullt starf Hlutastarf
Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið 0 0,5
Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála 0 0
Ríkissáttasemjari 0 0
Tryggingastofnun ríkisins 2 8
Umboðsmaður skuldara 0 0
Úrskurðarnefnd velferðarmála 0 0
Vinnueftirlitið 0 2
Vinnumálastofnun 0 0
Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu 0 3

     5.      Liggur fyrir mat á því hversu mörg störf eða hlutastörf, sem henta einstaklingum með skerta starfsorku, geti verið hjá ráðuneytinu eða undirstofnunum? Svar óskast sundurliðað eftir stofnunum.
    Slíkt mat liggur ekki fyrir en bæði ráðuneytið og stofnanir þess telja að hlutastörf af margvíslegu tagi henti starfsfólki með mismikla starfsgetu best. Ráðuneytið leggur til að mynda mat á þætti svo sem hvort hægt sé að bjóða upp á möguleika á hlutastarfi, starfi án staðsetningar eða annan sveigjanleika, í upphafi hvers ráðningarferlis. Í þeim tilfellum sem það á við er það tilgreint í starfsauglýsingu.