Ferill 756. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.
153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 2049 — 756. mál.
Svar
innviðaráðherra við fyrirspurn frá Ásmundi Friðrikssyni um ráðningu starfsfólks með skerta starfsorku.
1. Hver er stefna ráðuneytisins er varðar ráðningu starfsfólks með skerta starfsorku? Liggur sú stefna fyrir opinberlega og ef svo er ekki, hvaða ástæður liggja þar að baki?
Innviðaráðuneytið og undirstofnanir þess hafa ekki mótað sér skriflega stefnu um ráðningu starfsfólks með skerta starfsorku. Til stendur að bæta úr þessu í samráði við önnur ráðuneyti Stjórnarráðsins en mannauðsstjórar ráðuneytanna leiða þá vinnu og áætlað er að henni ljúki fyrir áramót 2023. Einnig fer fram vinna við að endurskoða mannauðsstefnu ráðuneytisins og verður stefna Stjórnarráðsins er varðar ráðningu starfsfólks með skerta starfsorku hluti af endurbættri mannauðsstefnu. Hjá ráðuneytinu er farið eftir mannauðsstefnu Stjórnarráðsins og meginreglu laga um jafna meðferð á vinnumarkaði við ráðningar í störf, m.a. að mismuna ekki umsækjendum um starf vegna skertrar starfsgetu. Eitt af stefnumálum ríkisstjórnarflokkanna í stjórnarsáttmála þeirra er að auðvelda þátttöku og endurkomu einstaklinga með skerta starfsgetu á vinnumarkað þannig að fólk hafi fjárhagslegan ávinning af atvinnuþátttöku og fái tækifæri á vinnumarkaði, sem og að auka þjónustu við þessa einstaklinga. Í samræmi við það var Vinnumálastofnun veittur sérstakur styrkur á síðasta ári í því skyni að efla þjónustu við einstaklinga með skerta starfsgetu og bjóða upp á víðtækari stuðning við þá sem þurfa sveigjanleika eða stuðning í starfi en vilja taka virkan þátt á vinnumarkaði.
2. Hefur ráðuneytið beitt sér fyrir því að undirstofnanir þess móti skýra stefnu við ráðningu starfsfólks með skerta starfsorku? Ef ekki, hvers vegna ekki? Hvaða undirstofnanir hafa mótað stefnu og hverjar ekki?
Innviðaráðuneytið hefur ekki beitt sér fyrir því sérstaklega að undirstofnanir þess móti skýra stefnu varðandi ráðningu starfsfólks með skerta starfsorku og hafa þær ekki mótað sér slíka stefnu. Stefna er í mótun í Stjórnarráðinu og munu undirstofnanir verða hvattar til að setja sér skýra stefnu við ráðningar fólks með skerta starfsorku. Þegar störf eru auglýst hjá ráðuneytinu eða undirstofnunum þess eru öll sem uppfylla skilyrði starfsins hvött til að sækja um. Samgöngustofa hvetur t.d. fólk óháð kyni, þjóðernisuppruna og fötlun til að sækja um laus störf.
3. Hafa ráðuneytið og undirstofnanir þess sett sér tölusett markmið varðandi fjölda starfa sem henta einstaklingum með skerta starfsorku? Ef ekki, mun ráðherra beita sér fyrir slíkri stefnumótun?
Innviðaráðuneytið hefur ekki sett sér tölusett markmið varðandi fjölda starfa sem henta einstaklingum með skerta starfsorku. Vinnusamningar við Vinnumálastofnun sem byggjast á fyrrnefndum vinnumarkaðsúrræðum eru til skoðunar hjá ráðuneytinu.
4. Hversu margt starfsfólk með skerta starfsorku er í hlutastarfi eða fullu starfi hjá ráðuneytinu og undirstofnunum þess? Svar óskast sundurliðað eftir stofnunum.
Innviðaráðuneytið hefur ráðið til sín fólk með skerta starfsgetu og fólk í hlutastörf. Sem stendur starfa tveir starfsmenn í hlutastarfi hjá ráðuneytinu. Ráðuneytið veitir starfsfólki sveigjanleika til lengri og skemmri tíma verði það fyrir því að tapa starfsorku vegna veikinda, slysa eða vegna aldurs.
Hjá Vegagerðinni starfa nú 5 starfsmenn með skerta starfsorku í hlutastarfi. Þjóðskrá hefur unnið með Vinnumálastofnun og VIRK varðandi tækifæri fyrir starfsfólk með skerta starfsorku. Hjá HMS starfar einn starfsmaður með skerta starfsorku. Hjá Samgöngustofu starfa fjórir starfsmenn með skerta starfsorku og hefur Samgöngustofa tekið þátt í verkefnum á vegum Vinnumálastofnunar. Samgöngustofa hvetur fólk með fötlun til að sækja um í auglýsingum um laus störf. Hjá Byggðastofnun og Skipulagsstofnun starfar enginn með skerta starfsorku sem stendur. Almennt leggja undirstofnanir ráðuneytisins áherslu á að veita starfsfólki sveigjanleika verði það fyrir því að tapa starfsorku vegna veikinda, slysa eða vegna aldurs.
5. Liggur fyrir mat á því hversu mörg störf eða hlutastörf, sem henta einstaklingum með skerta starfsorku, geti verið hjá ráðuneytinu eða undirstofnunum? Svar óskast sundurliðað eftir stofnunum.
Innviðaráðuneytið og undirstofnanir þess hafa ekki lagt sérstakt mat á það hversu mörg störf eða hlutastörf geti hentað starfsfólki með skerta starfsorku. Vinnusamningar við Vinnumálastofnun sem ætlað er að efla þjónustu við einstaklinga með skerta starfsgetu og bjóða upp á víðtækari stuðning við þá sem þurfa sveigjanleika eða stuðning í starfi en vilja taka virkan þátt á vinnumarkaði eru einnig til skoðunar hjá ráðuneytinu.