Ferill 755. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 2081  —  755. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Ásmundi Friðrikssyni um ráðningu starfsfólks með skerta starfsorku.


     1.      Hver er stefna ráðuneytisins er varðar ráðningu starfsfólks með skerta starfsorku? Liggur sú stefna fyrir opinberlega og ef svo er ekki, hvaða ástæður liggja þar að baki?
    Ráðuneytið hefur að leiðarljósi mannauðsstefnu Stjórnarráðsins við ráðningar. Stefnan er öllum aðgengileg á vef Stjórnarráðsins. Ráðuneytið hefur ekki mótað sérstaka stefnu um ráðningar einstaklinga með skerta starfsgetu. Í mannauðsstefnunni segir m.a. að allt starfsfólk eigi að hafa sömu möguleika til að nýta hæfileika sína í starfi og eigi ekki að sæta mismunun af nokkrum toga. Í rammagrein 15 í fjármálaáætlun 2023–2027 er lýst þeirri stefnu ríkisins að fjölga markvisst sveigjanlegum störfum og hlutastörfum í samvinnu ríkis, sveitarfélaga og atvinnulífs. Lögð er áhersla á að þátttaka og endurkoma einstaklinga með skerta starfsgetu á vinnumarkaði verði auðvelduð þannig að fólk hafi fjárhagslegan hag af atvinnuþátttöku og fái tækifæri á vinnumarkaði án þess að afkomuöryggi þess sé ógnað. Ráðuneytið og stofnanir þess starfa jafnframt á grundvelli laga nr. 150/2020, um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, og laga nr. 86/2018, um jafna meðferð á vinnumarkaði.

     2.      Hefur ráðuneytið beitt sér fyrir því að undirstofnanir þess móti skýra stefnu við ráðningu starfsfólks með skerta starfsorku? Ef ekki, hvers vegna ekki? Hvaða undirstofnanir hafa mótað stefnu og hverjar ekki?
    Ráðuneytið hefur ekki beitt sér fyrir því að stofnanir þess móti skýra stefnu við ráðningu starfsfólks með skerta starfsgetu. Forstöðumenn eru ábyrgir fyrir framkvæmd mannauðsmála innan sinna stofnana og þeim ber að þróa stefnur í samræmi við gildandi lög og reglur hverju sinni. Ráðuneytinu bárust svör frá 20 stofnunum ráðuneytisins og hefur einungis Landhelgisgæslan mótað sér mannauðsstefnu og jafnréttisstefnu um ráðningar sem þessar samkvæmt svörum stofnananna.

     3.      Hafa ráðuneytið og undirstofnanir þess sett sér tölusett markmið varðandi fjölda starfa sem henta einstaklingum með skerta starfsorku? Ef ekki, mun ráðherra beita sér fyrir slíkri stefnumótun?
    Nei, ráðuneytið hefur ekki beitt sér fyrir slíkri stefnumótun.

     4.      Hversu margt starfsfólk með skerta starfsorku er í hlutastarfi eða fullu starfi hjá ráðuneytinu og undirstofnunum þess? Svar óskast sundurliðað eftir stofnunum.
    Einungis tvær stofnanir eru með starfsfólk með skerta starfsorku ýmist í fullu eða hlutastarfi. Það eru sýslumaðurinn á Norðurlandi eystra sem er með einn starfsmann ráðinn í gegnum úrræði VIRK við tímabundnar afleysingar og svo Útlendingastofnun sem hefur tvo starfsmenn með skerta starfsorku í hlutastörfum.

     5.      Liggur fyrir mat á því hversu mörg störf eða hlutastörf, sem henta einstaklingum með skerta starfsorku, geti verið hjá ráðuneytinu eða undirstofnunum? Svar óskast sundurliðað eftir stofnunum.

    Það hefur ekki verið gerð greining á störfum sem henta einstaklingum með skerta starfsorku hjá ráðuneytinu. Landhelgisgæslan hefur lagt áherslu á að kynna starfsemi sína fyrir fólki með skerta starfsorku en sökum eðlis starfseminnar telur stofnunin að störf sem henti séu tiltölulega fá. Ekkert starf fellur undir skilgreiningu um skerta starfsorku eins og sakir standa.
    Sýslumaðurinn á Norðurlandi eystra leggur mat á öll störf sem losna hvort það henti einstaklingi með skerta starfsorku eða einstaklingi sem er að koma úr starfsendurhæfingu. Reglulega er skoðað hvort möguleiki sé á að bæta við hlutastarfi fyrir fólk með skerta starfsgetu.
    Aðrar stofnanir hafa ekki lagt sérstakt heildarmat á fjölda starfs sem henta einstaklingum með skerta starfsorku.