Ferill 753. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.
153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1945 — 753. mál.
Svar
mennta- og barnamálaráðherra við fyrirspurn frá Ásmundi Friðrikssyni um ráðningu starfsfólks með skerta starfsorku.
1. Hver er stefna ráðuneytisins er varðar ráðningu starfsfólks með skerta starfsorku? Liggur sú stefna fyrir opinberlega og ef svo er ekki, hvaða ástæður liggja þar að baki?
Í mannauðsstefnu Stjórnarráðsins kemur fram það leiðarljós að starfsfólk skuli eiga jafna möguleika á að njóta eigin atorku og þroska hæfileika sína í starfi og á ekki að sæta mismunun af nokkrum toga. Stefnan er birt á vef Stjórnarráðsins. Í rammagrein 15 í fjármálaáætlun 2023–2027 er lögð áhersla á að fjölga markvisst sveigjanlegum störfum og hlutastörfum í samvinnu ríkis, sveitarfélaga og atvinnulífs. Lögð er áhersla á að þátttaka og endurkoma einstaklinga með skerta starfsgetu á vinnumarkaði verði auðvelduð þannig að fólk hafi fjárhagslegan hag af atvinnuþátttöku og fái tækifæri á vinnumarkaði án þess að afkomuöryggi þess sé ógnað. Mennta- og barnamálaráðuneytið vinnur í samræmi við þessar stefnur en hefur ekki sett sér sérstaka stefnu um ráðningu starfsfólks með skerta starfsorku.
Í 27. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks er fjallað um vinnu og starf. Af e-lið 1. mgr. 27. gr. samningsins leiðir að aðildarríki skuli gera viðeigandi ráðstafanir til að efla atvinnutækifæri og þróun starfsframa fyrir fatlað fólk á vinnumarkaði ásamt því að auka aðstoð við að finna, öðlast og halda starfi og snúa aftur á vinnumarkað. Mennta- og barnamálaráðuneytið tekur virkan þátt í vinnu við að innleiða samninginn hér á landi.
2. Hefur ráðuneytið beitt sér fyrir því að undirstofnanir þess móti skýra stefnu við ráðningu starfsfólks með skerta starfsorku? Ef ekki, hvers vegna ekki? Hvaða undirstofnanir hafa mótað stefnu og hverjar ekki?
Það hefur engin af stofnunum ráðuneytisins enn sett sér stefnu sem fjallar um ráðningu starfsfólks með skerta starfsorku en hjá Barna- og fjölskyldustofu er slík stefna hluti af jafnréttisáætlun stofnunarinnar. Ráðuneytið hefur til þessa ekki beitt sér sérstaklega fyrir því að undirstofnanir þess móti sérstaka stefnu við ráðningu starfsfólks með skerta starfsorku en leggur áherslu á eftirfylgni með þeim stefnum sem þegar gilda um starfsemi þeirra.
3. Hafa ráðuneytið og undirstofnanir þess sett sér tölusett markmið varðandi fjölda starfa sem henta einstaklingum með skerta starfsorku? Ef ekki, mun ráðherra beita sér fyrir slíkri stefnumótun?
Mennta- og barnamálaráðuneytið hefur ekki sett sér töluleg markmið varðandi fjölda starfa sem henta einstaklingum með skerta starfsorku. Ein af stofnunum ráðuneytisins, Ráðgjafar- og greiningarstöð, er með tölusett markmið varðandi fjölda starfa sem henta einstaklingum með skerta starfsorku. Aðrar undirstofnanir hafa ekki sett sér slík tölusett markmið en á næstunni verður skoðað hvort tilefni sé til slíkrar stefnumótunar.
4. Hversu margt starfsfólk með skerta starfsorku er í hlutastarfi eða fullu starfi hjá ráðuneytinu og undirstofnunum þess? Svar óskast sundurliðað eftir stofnunum.
Á árunum 2019–2021 starfaði einstaklingur með skerta starfsgetu í hlutastarfi í ráðuneytinu. Sem stendur er enginn starfsmaður með skerta starfsorku í starfi en ráðuneytið hefur verið í sambandi við Vinnumálastofnun varðandi ráðningu á starfsmanni í sambærilegt starf og eftir atvikum önnur verkefni sem styðja við atvinnutækifæri fyrir fatlað fólk.
18 af 30 undirstofnunum mennta- og barnamálaráðuneytisins eru með starfsfólk með skerta starfsorku í starfi. Taflan sýnir fjölda stöðugilda og einstaklinga skipt eftir stofnunum. Flestir framhaldsskólar reka starfs- og/eða sérnámsbrautir. Nemendur þeirra brauta sinna gjarnan hluta af atvinnuþjálfun eða starfsþjálfunarnámi sínu í viðkomandi skóla í tilfallandi verkefnum. Taflan tekur ekki tillit til vinnuframlags þeirra einstaklinga.
| Menntaskólinn í Reykjavík | 2,60 | 4 |
| Menntaskólinn á Akureyri | 0,50 | 1 |
| Menntaskólinn að Laugarvatni | 0,00 | 0 |
| Menntaskólinn við Hamrahlíð | 0,38 | 2 |
| Menntaskólinn við Sund | 0,60 | 1 |
| Menntaskólinn á Ísafirði | 0,50 | 1 |
| Menntaskólinn á Egilsstöðum | 0,75 | 1 |
| Menntaskólinn í Kópavogi | 0,50 | 1 |
| Kvennaskólinn í Reykjavík | 0,00 | 0 |
| Fjölbrautaskólinn í Breiðholti | 0,35 | 1 |
| Fjölbrautaskólinn við Ármúla | 0,30 | 1 |
| Flensborgarskóli | 0,50 | 1 |
| Fjölbrautaskóli Suðurnesja | 0,00 | 0 |
| Fjölbrautaskóli Vesturlands | 0,00 | 0 |
| Framhaldsskólinn í Vestmannaeyjum | 0,08 | 1 |
| Fjölbrautaskóli Norðurlands vestra | 0,50 | 1 |
| Fjölbrautaskóli Suðurlands | 1,80 | 3 |
| Verkmenntaskóli Austurlands | 0,50 | 1 |
| Verkmenntaskólinn á Akureyri | 0,50 | 1 |
| Fjölbrautaskólinn í Garðabæ | 0,00 | 0 |
| Framhaldsskólinn í A-Skaftafellssýslu | 0,00 | 0 |
| Framhaldsskólinn á Húsavík | 0,00 | 0 |
| Framhaldsskólinn á Laugum | 0,00 | 0 |
| Borgarholtsskóli | 0,50 | 1 |
| Fjölbrautaskóli Snæfellinga | 0,00 | 0 |
| Framhaldsskólinn í Mosfellsbæ | 0,75 | 1 |
| Menntaskólinn á Tröllaskaga | 0,00 | 0 |
| Barna- og fjölskyldustofa | 0,00 | 0 |
| Ráðgjafar- og greiningarstöð | 0,90 | 2 |
| Menntamálastofnun | 0,00 | 0 |
5. Liggur fyrir mat á því hversu mörg störf eða hlutastörf, sem henta einstaklingum með skerta starfsorku, geti verið hjá ráðuneytinu eða undirstofnunum? Svar óskast sundurliðað eftir stofnunum.
Ráðuneytið hefur ekki ráðist í formlegt mat á því hversu mörg störf henta einstaklingum með skerta starfsorku en viðræður ráðuneytisins við Vinnumálastofnun hafa tekið mið af því að um sé að ræða u.þ.b. hálft stöðugildi. Þrjár undirstofnanir ráðuneytisins hafa gert formlegt mat á fjölda starfa sem henta einstaklingum með skerta starfsorku en það eru Flensborgarskólinn, Fjölbrautaskóli Norðurlands vestra og Ráðgjafar- og greiningarstöð. Aðrar undirstofnanir ráðuneytisins hafa ekki gert formlegt mat á því hversu mörg störf eða hlutastörf sem henta einstaklingum með skerta starfsorku geti verið til staðar.


