Ferill 752. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.
153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1755 — 752. mál.
Svar
menningar- og viðskiptaráðherra við fyrirspurn frá Ásmundi Friðrikssyni um ráðningu starfsfólks með skerta starfsorku.
1. Hver er stefna ráðuneytisins er varðar ráðningu starfsfólks með skerta starfsorku? Liggur sú stefna fyrir opinberlega og ef svo er ekki, hvaða ástæður liggja þar að baki?
Í mannauðsstefnu Stjórnarráðsins segir: Í anda Jafnréttisáætlunar Stjórnarráðsins á allt starfsfólk sömu möguleika á að geta nýtt hæfileika sína í starfi og á ekki að sæta mismun af nokkrum toga.
Stefna um málefni fólks með skerta starfsorku er í mótun í menningar- og viðskiptaráðuneyti. Forveri ráðuneytisins, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, var með tvo einstaklinga með skerta starfsorku sem deildu einu starfi.
2. Hefur ráðuneytið beitt sér fyrir því að undirstofnanir þess móti skýra stefnu við ráðningu starfsfólks með skerta starfsorku? Ef ekki, hvers vegna ekki? Hvaða undirstofnanir hafa mótað stefnu og hverjar ekki?
Stefna varðandi þetta er í mótun í menningar- og viðskiptaráðuneytinu og mun ráðuneytið hvetja undirstofnanir til að setja sér skýra stefnu við ráðningar starfsfólks með skerta starfsorku. Tvær undirstofnanir ráðuneytisins styðjast við óformlegar stefnur.
3. Hafa ráðuneytið og undirstofnanir þess sett sér tölusett markmið varðandi fjölda starfa sem henta einstaklingum með skerta starfsorku? Ef ekki, mun ráðherra beita sér fyrir slíkri stefnumótun?
Í stefnunni sem vísað er til í svari við 1. og 2. tölul. fyrirspurnarinnar verða sett tölusett markmið varðandi fjölda starfa sem henta einstaklingum með skerta starfsorku. Gert er ráð fyrir að stefnan verði tilbúin eigi síðar en 3. desember, á alþjóðlegum degi fatlaðs fólks.
4. Hversu margt starfsfólk með skerta starfsorku er í hlutastarfi eða fullu starfi hjá ráðuneytinu og undirstofnunum þess? Svar óskast sundurliðað eftir stofnunum.
Í eftirfarandi töflu kemur fram fjöldi starfsfólks með skerta starfsorku hjá undirstofnunum ráðuneytisins:
Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra | 12 |
Kvikmyndasafn Íslands | 2 |
Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn | 2 |
Gljúfrasteinn – hús skáldsins | 1 |
Sinfóníuhljómsveit Íslands | 1 |
Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum | 1 |
Þjóðminjasafn Íslands | 1 |
5. Liggur fyrir mat á því hversu mörg störf eða hlutastörf, sem henta einstaklingum með skerta starfsorku, geti verið hjá ráðuneytinu eða undirstofnunum? Svar óskast sundurliðað eftir stofnunum.
Ekki liggur fyrir mat um hversu mörg störf eða hlutastörf eru hjá ráðuneytinu sem henta einstaklingum með skerta starfsorku. Nú þegar starfa 20 manns með skerta starfsorku hjá undirstofnunum ráðuneytisins sem gefur til kynna ákveðið mat á fjölda starfa.