Ferill 750. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.
153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 2254 — 750. mál.
Svar
umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra við fyrirspurn frá Jóhanni Friðriki Friðrikssyni um raforkuöryggi í Vestmannaeyjum.
1. Á hverju grundvallast verkefnaval í framkvæmdaáætlun Landsnets?
Skipta má öllum verkefnum á framkvæmdaáætlun Landsnets í tvo meginflokka, endurnýjunarverkefni og þróunarverkefni. Endurnýjunarverkefni eru verkefni sem snúa að endurnýjun núverandi flutningsmannvirkja, lína og tengivirkja, með það að markmiði að viðhalda sama þjónustustigi og fyrir er. Þróunarverkefni eru öll þau verkefni sem ekki snúa beint að endurnýjun núverandi flutningsmannvirkja og koma þau inn á áætlun á þrenns konar hátt. Í fyrsta lagi eru það verkefni sem verða til vegna nýrrar notkunar á raforkumarkaði eða breytingar á afhendingu til núverandi viðskiptavina. Í öðru lagi eru það verkefni sem snúa að uppbyggingu til dreifiveitna (svæðisbundnu kerfunum) sem hafa ýmist þann tilgang að bæta afhendingaröryggi með aukinni samtengingu eða auka flutningsgetu á tiltekin svæði til að bregðast við aukinni þörf fyrir raforku og eins ef bæta á við nýjum afhendingarstað í flutningskerfinu. Í þriðja lagi eru það verkefni sem snúa að því að styrkja meginflutningskerfið, ýmist í þeim tilgangi að mæta vaxandi þörf fyrir aukna flutningsgetu eða til að auka stöðugleika kerfisins og tryggja þannig afhendingaröryggi notenda til framtíðar.
Fjárfestingargeta í flutningskerfinu er takmörkuð og tekur mið af ýmsum þáttum, svo sem áhrifum á gjaldskrá, eiginfjárhlutfalli o.fl., en lögð er áhersla að forgangsraða verkefnum á þann hátt að nýta fjármagn sem best. Við forgangsröðun endurnýjunarverkefna er horft til ástands, aldurs og mikilvægis viðkomandi virkis. Hvað varðar forgangsröðun verkefna er snúa að þróun flutningskerfisins er horft til þarfa og væntinga notenda. Er þar tekið tillit til markaðarins og þá hvernig framboð og eftirspurn eftir raforku muni þróast. Lögð er megináhersla á að tryggja aðgengi að raforku, en óviðunandi aðgengi að raforku hefur víða staðið uppbyggingu atvinnulífs fyrir þrifum. Einnig er horft til öryggis, en afhendingaröryggi er grunnkrafa notenda raforku og í þeim efnum er unnið markvisst eftir stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku, en þar er m.a. kveðið á um tvítengingu allra afhendingarstaða Landsnets fyrir árið 2040 og ákveðin forgangssvæði tilgreind. Orkuskipti spila einnig mikilvægt hlutverk í forgangsröðun þróunarverkefna, en orkuskipti í samgöngum og í hafsækinni starfsemi gera vaxandi kröfur til kerfisuppbyggingar.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Meðfylgjandi mynd frá Landsneti sýnir árangur af auknu aðgengi í flutningskerfinu 2020–2023. Aðgengi að raforku hefur aukist um gróflega 300–500 MW í flutningskerfinu sem að mestu þrjár framkvæmdir hafa skilað á Norðausturlandi og Suðurlandi.
Tvær framkvæmdanna eru ný kynslóð byggðalínunnar frá Fljótsdal að Kröflu, frá Hólasandi að Akureyri og að auki nýtt tengivirki á Suðurlandi, Lækjartún. Fjárfestingarkostnaður þessara framkvæmda var gróflega 19 ma.kr.
Afhendingaröryggi var uppfyllt samkvæmt stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis á sex stöðum á landinu, þar af fjórum á Norðausturlandi og tveimur á Suðurlandi.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Framangreind mynd sýnir áform Landsnets samkvæmt langtímaáætlun til næstu 10 ára, eða til ársins 2032. Samkvæmt upplýsingum frá Landsneti mun aðgengi að raforku í flutningskerfinu aukast um rúmlega 2.500 MW og verður flutningskerfi raforku tilbúið í full orkuskipti árið 2032. Flutningsgeta eykst á öllu landinu.
Um fimm stórar framkvæmdir hafa hvað mest áhrif á að auka aðgengi að raforku í flutningskerfinu, en það er tenging Reykjaness við Hafnarfjörð, tenging frá höfuðborgarsvæðinu að Hvalfirði og ný kynslóð byggðalínunnar frá Hvalfirði að Akureyri, en sú leið skiptist í þrjár framkvæmdir.
2. Eru fordæmi fyrir því að lagningu raforkustrengja hafi verið flýtt þegar raforka hefur skerst vegna bilana? Ef svo er, hyggst ráðherra beita sér fyrir því að Vestmannaeyjalínu 4 verði flýtt?
Stjórn Landsnets heyrir ekki undir umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra og ráðherra á enga aðkomu að skipan stjórnarinnar sem tekur þær ákvarðanir sem hér er spurt um.
3. Hvaða vinna er fyrirhuguð til að bæta raforkuöryggi í Vestmannaeyjum?
Í febrúar sl. skipaði ráðherra starfshóp sem hefur það hlutverk að vinna tillögur um framgang mála í Vestmannaeyjum, sem heyra undir málefnasvið ráðuneytisins, með það að markmiði að efla samfélagið. Starfshópnum er falið að leggja fram tillögur er snúa að bættu orkuöryggi svæðisins hvað varðar dreifi- og flutningskerfi raforku og kanna möguleika á aukinni orkuöflun innan svæðisins. Jafnframt skal hópurinn leggja fram tillögur um eflingu hringrásarhagkerfisins, menningarminjar og náttúrutengda innviðauppbyggingu sem og með hvaða hætti verði stuðlað að grænni atvinnuuppbyggingu á svæðinu. Gert er ráð fyrir að starfshópurinn ljúki störfum í september og munu tillögur starfshópsins verða teknar til skoðunar í ráðuneytinu í kjölfarið.