Ferill 744. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 2012  —  744. mál.




Svar


mennta- og barnamálaráðherra við fyrirspurn frá Ingveldi Önnu Sigurðardóttur um verkefnið Kveikjum neistann.


     1.      Hvernig hyggst ráðherra nýta og framfylgja fyrstu niðurstöðum þróunarverkefnisins Kveikjum neistann sem birtar voru nýlega?
    Verkefnið Kveikjum neistann er fjölbreytt og fjölþætt og ber að fagna því eins og öðrum metnaðarfullum og hvetjandi verkefnum sem hafa það að leiðarljósi að bæta menntun og styðja við þroska, ánægju og árangur barna í skóla.
    Aðstandendur verkefnisins Kveikjum neistann hafa kynnt góðan árangur þess. Á það hefur þó verið bent að vandasamt geti verið að meta árangur menntaumbóta og innleiðingar af þessu tagi á þeim skamma tíma sem liðinn er frá því verkefnið hófst. Niðurstöður þróunarverkefnisins eru engu að síður áhugaverðar og mennta- og barnamálaráðuneyti heldur áfram að fylgjast með verkefninu.

     2.      Stendur til að innleiða verkefnið, sem nær nú aðeins til Grunnskóla Vestmannaeyja, í fleiri grunnskóla á landinu?
    Samkvæmt aðalnámskrá grunnskóla hafa grunnskólar val um hvaða kennsluaðferðir og vinnubrögð þeir kjósa að viðhafa með tilliti til skilgreindra hæfniviðmiða aðalnámskrárinnar þannig að möguleikar nemenda á að ná þeim séu nýttir til hins ýtrasta. Mennta- og barnamálaráðuneytið tekur ekki ákvarðanir fyrir skóla um hvaða aðferðir eru notaðar til að ná markmiðum aðalnámskrár. Þó skal á það bent að umfangsmikil vinna stendur nú yfir varðandi endurskipulagningu á umgjörð menntakerfisins, þar á meðal með tilkomu nýrrar stofnunar sem ætlunin er að verði þjónustu- og þekkingarmiðstöð á landsvísu. Eitt af markmiðum með nýrri stofnun er að samræma og samhæfa skólastarf og meðal annars gert ráð fyrir að hún byggi upp, haldi utan um og miðli til skóla góðum aðferðum og úrræðum sem styðja við skólastarf.