Ferill 742. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1752  —  742. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Evu Dögg Davíðsdóttur um biðtíma vegna kynleiðréttingaraðgerða.


     1.      Er ráðherra kunnugt um dæmi þess að einstaklingar sem bíða kynleiðréttingarferlis hljóti óviðunandi svör um biðtíma sem skarast á við 18. gr. laga um réttindi sjúklinga, nr. 74/1997, en þar er áréttuð sú skylda læknis að gefa sjúklingum sínum skýringar á því hvers vegna bið er eftir aðgerð eða annarri meðferð?
    Ráðherra er ekki kunnugt um óviðunandi svör vegna biðtíma þeirra sem bíða eftir kynleiðréttingarferli hérlendis.

     2.      Kemur til greina af hálfu ráðherra að leita til annarra landa, til að mynda annarra Norðurlanda, til að stytta biðtíma vegna kynleiðréttingaraðgerða með beinum samningum við þjónustuveitendur, eins og dæmi eru um í annarri þjónustu Landspítala?
    Beinir samningar Sjúkratrygginga Íslands við erlend sjúkrahús vegna íslenskra sjúklinga eru jafnan gerð að frumkvæði ábyrgra lækna hérlendis að undangenginni athugun á tilskildum leyfum, getu og faglegri færni. Ráðherra hefur almennt ekki frumkvæði að slíkum samningum en getur stutt framkvæmdina.

     3.      Hvernig hyggst ráðherra bregðast við löngum biðlistum vegna kynleiðréttingaraðgerða?
    Það eru ekki margir einstaklingar að bíða eftir aðgerðum sem hluta af kynleiðréttingarferli. Kynleiðréttingarferli er flókið og sérstakt fyrir hvern og einn þar sem það byggist á einstaklingsbundnum þörfum. Kynleiðréttingarferli er í nokkrum fösum og er aðgerðarfasi oftast á seinni hluta ferlisins. Hjá þeim einstaklingum sem fara í gegnum aðgerðarhluta kynleiðréttingarferlis getur hann verið frá einni skurðaðgerð upp í fimm eða fleiri. Breytileikinn er mikill og biðtíminn eftir einstökum aðgerðum er því misjafn. Einstaklingur getur því farið aftur á biðlista hjá mismunandi sérgreinum lækninga á því tímabili.
    Ráðherra hefur beitt sér fyrir ýmsum leiðum til að minnka bið eftir skurðaðgerðum á Landspítala, m.a. með samningum við sjálfstætt starfandi sérfræðinga sem hafa getu og hæfni til að sinna brýnum aðgerðum hérlendis þar sem biðin er löng.

     4.      Kemur til álita af hálfu ráðherra að leggja til að kynleiðréttingaraðgerðir verði skilgreindar sem lífsnauðsynlegar í lögum?
    Bráðleiki ákveðinna aðgerða er almennt ekki skilgreindur í lögum og því hefur ráðherra ekki áform um að leggja fram slíka tillögu.