Ferill 736. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1120  —  736. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um stöðlun byggingareininga.


Flm.: Indriði Ingi Stefánsson, Björn Leví Gunnarsson, Lenya Rún Taha Karim.


    Alþingi ályktar að fela innviðaráðherra í samvinnu við Húsnæðis- og mannvirkjastofnun að undirbúa og útbúa stöðlun byggingareininga íbúða, svo sem glugga, hurða og þess háttar, til að einfalda innkaup og viðhald, sérstaklega með tilliti til minni byggingareininga, og til að draga úr byggingarkostnaði og minnka flækjustig.

Greinargerð.

    Í núgildandi byggingarreglugerð er kveðið á um lágmarksstærð hurða en ekki glugga, ef frá eru talin björgunarop (flóttaleiðir). Þar af leiðandi geta hurðir og gluggar verið í mörgum mismunandi stærðum, svo fremi að þeir séu jafnstórir eða stærri en leiðir af lögbundnu lágmarki. Þetta getur aukið flækjustig og valdið háum kostnaði við viðhald húsnæðis þegar skipta þarf um glugga eða hurðir. Oft þarf að sérsmíða einingar sem komist í hurðar- eða gluggaop sem fyrir eru og húsnæðiseigendur þurfa sumir að leggja út fyrir vinnu við að stækka eða minnka slík op. Þessi kostnaður getur vaxið fólki í augum og latt menn þess að hefja nauðsynlegt viðhald, sem getur leitt til enn hærri kostnaðar þegar fram í sækir.
    Með því að staðla stærðir glugga og hurða mætti smám saman einfalda innkaup á byggingareiningum og minnka kostnað vegna viðhalds húsnæðis. Slíkir staðlar skapa forsendur fyrir því að þess konar einingar fáist sem hilluvara í byggingarvöruverslunum frekar en sem sérsmíði.
    Mikilvægt er að árétta að markmið með tillögu þessari er ekki að skerða frelsi fólks sem kýs aðrar gluggastærðir, heldur að þessir staðlar yrðu meginregla um nýbyggingar. Eins myndu slíkir staðlar ekki gilda afturvirkt og því yrðu eigendur húsnæðis sem byggt er fyrir gildistöku þeirra ekki bundnir af stöðlunum nýju.