Ferill 731. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1595  —  731. mál.




Svar


menningar- og viðskiptaráðherra við fyrirspurn frá Indriða Inga Stefánssyni um takmörkun á óhóflegum innheimtukostnaði.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Stendur yfir vinna í ráðuneytinu til að sporna við óhóflegum og íþyngjandi innheimtukostnaði, einkum og sér í lagi varðandi lágar lánafjárhæðir, t.d. með því að setja þak á innheimtukostnað? Ef svo er, í hverju felst sú vinna?

    Samkvæmt 12. gr. innheimtulaga, nr. 95/2008, sem eru á málefnasviði menningar- og viðskiptaráðherra, getur ráðherra ákveðið hámarksfjárhæð innheimtukostnaðar í reglugerð. Skal gæta þess að hámarksfjárhæðir sem þannig eru ákveðnar taki mið af raunverulegum kostnaði kröfuhafa vegna innheimtunnar enda geti hann talist nauðsynlegur og hóflegur. Í 6. gr. reglugerðar um hámarksfjárhæð innheimtukostnaðar o.fl., nr. 37/2009, koma slík hámörk fram, annars vegar um innheimtuviðvörun og hins vegar um milliinnheimtubréf. Nema fjárhæðarþökin frá 950 kr. upp í 5.700 kr. fyrir hvern innheimtulið. Fjármálaeftirlitið fer með eftirlit með þeim sem stunda innheimtu samkvæmt innheimtulögum, að lögmönnum undanskildum, og getur beitt stjórnvaldssektum vegna brota gegn reglugerð um hámarksfjárhæð innheimtukostnaðar, sbr. f-lið 1. mgr. 18. gr. laganna.
    Innheimtulögin taka eingöngu til frum- og milliinnheimtu, sbr. 1. gr. laganna. Um löginnheimtu fer eftir lögum um lögmenn, nr. 77/1998, sbr. 24. gr. a þeirra laga, og réttarfarslöggjöf. Löginnheimta er þannig á málefnasviði dómsmálaráðherra og rétt að beina fyrirspurnum um þann þátt innheimtu til þess ráðuneytis.
    Í viljayfirlýsingu menningar- og viðskiptaráðuneytis og Neytendasamtakanna, sem undirrituð var 31. október 2022, kemur meðal annars fram að tekin verði til skoðunar, í samstarfi við dómsmálaráðuneytið, þau ákvæði innheimtulaga sem snúa að hámarki á innheimtukostnað og eftirliti með innheimtustarfsemi, með það að markmiði að setja hámark á fjárhæð löginnheimtukostnaðar sem taki mið af fjárhæð kröfu og einnig að Fjármálaeftirlitið hafi eftirlit með löginnheimtu.
    Bent er á að lagagrundvöllur löginnheimtu, og álitaefni varðandi eftirlit með henni, komu til umfjöllunar við þinglega meðferð frumvarps til laga um breytingu á lögum um neytendalán á 150. löggjafarþingi (223. mál). Í nefndaráliti meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar um málið (þskj. 718) kom m.a. fram að brýnt væri að skýra betur reglur um starfsemi löginnheimtuaðila og eftirlit með starfseminni. Jafnframt kemur þar fram að nefndin hafi verið upplýst um að sú vinna væri í gangi í dómsmálaráðuneyti og fjármála- og efnahagsráðuneyti.