Ferill 726. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.
153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1255 — 726. mál.
Svar
heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Evu Sjöfn Helgadóttur um einstaklinga með tengslaröskun.
1. Hver er stefna ráðuneytisins þegar kemur að greiningum barna með tengslaröskun?
Skilgreind stefna af hálfu ráðuneytisins um greiningu barna með tengslaröskun er ekki fyrir hendi, enda setur ráðuneytið almennt ekki stefnu um tiltekna sjúkdóma, greiningu þeirra eða meðferð. Aftur á móti byggist heilbrigðisþjónusta og veiting hennar á lögum sem marka almenna stefnu í þessum víðtæka málaflokki og einnig hafa verið mótaðar stefnur og aðgerðaáætlanir á skilgreindum sviðum sem veita mikilvægar upplýsingar um þau markmið sem að er stefnt og hvernig þeim skuli náð.
Eins og fram kemur í lögum um heilbrigðisþjónustu, nr. 40/2007, er markmið þeirra að allir landsmenn eigi kost á fullkomnustu heilbrigðisþjónustu sem á hverjum tíma eru tök á að veita. Við skipulag heilbrigðisþjónustu skal stefnt að því að hún sé ávallt veitt á viðeigandi þjónustustigi og veitt í því skyni að efla heilbrigði, fyrirbyggja, greina eða meðhöndla sjúkdóma og endurhæfa sjúklinga.
Í gildi er heilbrigðisstefna til ársins 2030 sem samþykkt var á Alþingi sem þingsályktun árið 2019 og fjallar um eflingu og uppbyggingu heilbrigðisþjónustu, helstu markmið og hvernig þeim skuli náð.
Þingsályktun um stefnu í geðheilbrigðismálum til ársins 2030 var samþykkt á liðnu ári. Eins og þar segir er stefnt að því að heildræn geðheilbrigðisþjónusta „verði samþætt og byggð á bestu mögulegu gagnreyndu meðferð, hæfingu og endurhæfingu. Þjónustan verði veitt af hæfu starfsfólki á viðeigandi þjónustustigum í árangursríku samstarfi við þjónustuveitendur í velferðarþjónustu.“ Þar er jafnframt skilgreind sú áhersla til ársins 2030 að: „Innleiðingu verði lokið á þeim grundvallarþáttum aðgerðaáætlunar um geðræktarstarf, forvarnir og stuðning við börn og ungmenni í leik-, grunn- og framhaldsskólum sem flokkast undir heilbrigðisþjónustu.“
Tillaga til þingsályktunar um aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum verður lögð fram á Alþingi innan skamms en drög að henni voru birt til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda í desember sl. Meðal skilgreindra aðgerða er: „Að efla sérhæfða þjónustu í barneignaferlinu við verðandi foreldra og foreldra með ung börn til að draga úr vanlíðan og auka foreldrahæfni þeirra.“ Tilgangur þessa er að styrkja fjölskyldur í barneignaferli með fræðslu og snemmíhlutun og auka aðgengi foreldra/fjölskyldna að sérhæfðri geðheilbrigðisþjónustu frá meðgöngu að 5 ára aldri barnsins.
2. Hversu mörg börn hafa verið greind með tengslaröskun á Íslandi sl. 20 ár? Óskað er eftir sundurliðun eftir árum og aldri barna við greiningu.
Ráðuneytið óskaði eftir upplýsingum um greiningar barna með tengslaröskun hjá Geðheilsumiðstöð barna (GMB), sem starfar undir Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, og hjá barna- og unglingageðdeild Landspítala (BUGL).
GMB tók formlega til starfa 1. apríl 2022. Þetta er nýtt úrræði hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins sem þjónustar börn og fjölskyldur á landsvísu. Miðstöðin sameinar þjónustu sem Þroska- og hegðunarstöð, Geðheilsuteymi fjölskylduvernd og nýtt meðferðarteymi fyrir börn og unglinga hafa veitt hingað til. Markmiðið er að þessi nýja miðstöð efli enn frekar þjónustu við börn og fjölskyldur þeirra. GMB veitir 2. stigs heilbrigðisþjónustu á landsvísu fyrir börn að 18 ára aldri. Miðstöðin sinnir greiningu, ráðgjöf og meðferð vegna geð- og þroskavanda barna og unglinga.
Tengslaröskun er skilgreind í ICD-10-sjúkdómaflokkunarkerfinu og eru greiningarflokkarnir F94.1 Svörunartengslaröskun (e. Reactive attachment disorder of childhood) og F94.2 Afhömluð tengslaröskun í bernsku (e. Disinhibited attachment disorder of childhood). Svörunartengslaröskun er mun algengari en hin. Afhömluð tengslaröskun er aðallega greind hjá börnum sem hafa fengið umönnun margra aðila í frumbernsku og tengjast því ekki einum umönnunaraðila, t.d. börnum sem hafa verið ættleidd frá stað þar sem börn eru á barnaheimilum þar sem margir sinna umönnun eins barns.
Mikil skörun er milli tenglsaröskunar og annarra raskana og oft erfitt að greina á milli einhverfurófs- og tengslaraskana þar sem um er að ræða svipuð einkenni og vandamál hlutaðeigandi barna.
Samkvæmt upplýsingum GMB hafa tvö börn verið greind með tengslaröskun hjá miðstöðinni og forvera hennar á því tímabili sem spurt er um, annað barnið árið 2016 og hitt árið 2022. Í svari GMB kom fram að lengst af hefði verið venja að vísa málum til barna- og unglingageðdeildar Landspítala væri grunur um tengslaröskun fyrir hendi.
Samkvæmt upplýsingum frá barna- og unglingageðdeild Landspítala hafa samtals 78 börn verið greind með tengslaröskun á því árabili sem spurt er um, sbr. eftirfarandi töflu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Sjálfstætt starfandi sérfræðingar í barna- og unglingageðlækningum greina einnig tengslaröskun en ráðuneytið hefur ekki upplýsingar um umfang þeirra greininga.
3. Hafa einstaklingar sem greindir eru með tengslaröskun sömu réttindi og einstaklingar sem greindir eru með einhverfu? Ef ekki, er vinna í gangi hjá ráðuneytinu til að tryggja réttindi þeirra einstaklinga sem greindir eru með tengslaröskun?
Í þessari fyrirspurn, sem snýr að réttindum einstaklinga með tengslaröskun, er ekki tilgreint til hvaða eða hvers konar réttinda er vísað. Hvað varðar rétt til heilbrigðisþjónustu þá er hann skýr og byggir á lögum um heilbrigðisþjónustu, líkt og rakið er í svari við 1. tölul. fyrirspurnar. Því á ekki að vera munur á réttindum einstaklinga sem greindir eru með einhverfu annars vegar og tengslaröskun hins vegar. Að öðru leyti vísast hér til svara mennta- og barnamálaráðherra við þessari sömu fyrirspurn á Alþingi í janúar sl. (þskj. 920, 501. mál), þ.e. að í lögum um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna, nr. 86/2021, felist m.a. að öll börn fái stuðning í samræmi við stuðningsþarfir óháð því hvort eða hvaða greiningu barnið hefur fengið. Þar segir enn fremur: „Þarfir einstaklinga með tengslaröskun annars vegar og einstaklinga með einhverfu hins vegar eru fjölbreyttar og ekki unnt að bera saman einstaklinga úr þessum hópum án þess að frekari upplýsingar liggi fyrir um stuðningsþarfir.“