Ferill 724. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1547  —  724. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Indriða Inga Stefánssyni um rannsókn hryðjuverka.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hvaða verkferlar eru til staðar varðandi upplýsingagjöf lögreglu til almennings og fjölmiðla þegar kemur að rannsókn mála af hálfu ríkislögreglustjóra skv. b-lið 2. mgr. 5. gr. lögreglulaga, nr. 90/1996, í ljósi þeirra áhrifa sem upplýsingar um slíkt geta haft á samfélagið?
     2.      Telur ráðherra að endurskoða þurfi þá verkferla með tilliti til máls sem kom nýlega upp og var vísað frá héraðsdómi?
     3.      Ef slíkir verkferlar eru ekki til staðar, stendur yfir vinna í ráðuneytinu að slíkum verkferlum?


    Samkvæmt b-lið 2. mgr. lögreglulaga, nr. 90/1996, ber embætti ríkislögreglustjóra ábyrgð á því að starfrækja lögreglurannsóknardeild sem rannsakar m.a. brot gegn stjórnskipan ríkisins og æðstu stjórnvöldum þess og leggur mat á hættu á hryðjuverkum og skipulagðri glæpastarfsemi. Í 1. gr. reglugerðar nr. 660/2017 um stjórn lögreglurannsókna skulu brot gegn X. og XI. kafla almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, rannsökuð undir stjórn ríkislögreglustjóra.
    Árið 2017 gaf embætti ríkislögreglustjóra út verklagsreglur um rannsókn mála er varða hryðjuverk. Í reglunum er fjallað um samskipti og upplýsingamiðlun við almenning og fjölmiðla í sérstökum kafla sem ber heitið Fjölmiðlastefna. Þar er m.a. fjallað um að markmið fjölmiðlastefnunnar sé að veita réttar og viðeigandi upplýsingar á hverjum tíma til að tryggja traust almennings, styðja við markmið rannsóknar, róa almenning og koma í veg fyrir sögusagnir og rangan fréttaflutning.
    Endurskoðun verkferla og verklags er varðar rannsókn hryðjuverka er verkefni sem krefst sífelldrar endurskoðunar af hálfu stjórnvalda til að bregðast við breyttum aðstæðum og leitast við að tryggja rannsókn og öryggi borgaranna með fullnægjandi hætti. Slík endurskoðun á sér fyrst og fremst stað innan lögreglunnar.