Ferill 721. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1497  —  721. mál.




Svar


matvælaráðherra við fyrirspurn frá Indriða Inga Stefánssyni um neyðarbirgðir matvæla.


     1.      Hverjar eru neyðarbirgðir í landinu af matvælum ef til þess kæmi að innflutningur stöðvaðist í þrjá mánuði eða lengur?
    Árið 2022 skipaði forsætisráðherra starfshóp um nauðsynlegar birgðir til þess að tryggja lífsafkomu þjóðarinnar á hættutímum. Hópnum var ætlað að gera drög að viðbragðsáætlun, m.a. um söfnun upplýsinga um birgðastöðu á hverjum tíma, leiðir til að bregðast við óásættanlegri stöðu mikilvægra birgða, skömmtun þeirra og stýringu á úthlutun. Í slíkri viðbragðsáætlun skyldi skilgreint hvað teldist til neyðarbirgða, umfangi og skyldu til nauðsynlegs birgðahalds lýst, auk leiða til að tryggja nauðsynlega birgðastöðu, þ.m.t. kerfisbundnu samstarfi þeirra sem flytja inn eða framleiða vörur sem nauðsynlegar teldust.
    Hópurinn hafði í störfum sínum hliðsjón af þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland, mati þjóðaröryggisráðs á ástandi og horfum í þjóðaröryggismálum frá árinu 2021, stefnu í almannavarna- og öryggismálum 2021–2023, tillögum átakshóps um uppbyggingu innviða 2020 og framvinduskýrslum hópsins, lögum um almannavarnir og norrænni löggjöf á málefnasviðinu.
    Hópurinn skilaði ítarlegri skýrslu síðasta haust sem er aðgengileg á vef forsætisráðuneytisins. Nú stendur yfir vinna einstakra ráðuneyta við nánari útfærslu tillagnanna, m.a. með samráði við hagaðila. Verkefnið er fjölþætt og viðbúið er að það taki tíma að afmarka hvað teljast eigi til neyðarbirgða, tímabil sem þeim sé ætlað að endast, fyrirkomulag birgðahaldsins, kostnað vegna þess, lagaumhverfi og önnur framkvæmdaatriði. Þetta á ekki síst við um málefnasvið ráðuneytisins. Svör við fyrirspurninni miðast við fyrirkomulagið eins og það er í dag, en sem fyrr segir stendur nú yfir vinna við undirbúning breytinga.
    Ekki eru nein gildandi stjórnvaldsfyrirmæli um lágmarksbirgðir matvæla eða aðfanga til matvælaframleiðslu í landinu. Á hverjum tíma eru til birgðir af matvælum hjá framleiðendum, afurðastöðvum, innflytjendum, verslunum og neytendum.
    Opinbert yfirlit um þær er þó ekki til staðar, nema hvað varðar birgðir innlendra kjötframleiðenda sem birtar eru á mælaborði landbúnaðarins mánaðarlega. Jafnframt eru verulegar matvælabirgðir fólgnar í þeim lifandi búfénaði sem er til staðar í landinu. Fjöldi innan ársins er ólíkur eftir búgreinum, t.d. nær fjöldi sauðfjár og hrossa hámarki á sumrin en fjöldi í svína- og alifuglarækt er jafnari yfir árið. Búfjáreigendum er skylt að skila opinberri skýrslu um fjölda gripa í nóvember árlega. Formlegt mat á umfangi þessara birgða sem matvæla hefur ekki farið fram.
    Framleiðsla á ylræktuðu grænmeti jafnast út yfir árið en útiræktað grænmeti er eðli máls samkvæmt uppskorið í sumarlok. Birgðir eru síðan seldar meðan þær endast og geymast. Margvísleg gögn eru tekin saman um innlenda framleiðslu landbúnaðarvara sem Hagstofan birtir árlega en ekki er fylgst miðlægt með birgðum þeirra á hverjum tíma eða birgðum nauðsynlegra aðfanga vegna framleiðslu og dreifingar matvæla.
    Matvælastofnun starfrækir mælaborð fiskeldis þar sem fram kemur hve mikið er af lífmassa í eldi hverju sinni. Þeim upplýsingum má jafna við birgðir í lifandi búfé sem nefnt er hér að ofan. Hagstofan safnar og birtir árlega upplýsingar um árlega framleiðslu og ráðstöfun bæði eldisfisks og villts fisks. Um 98% sjávaraflans fara til útflutnings og yfir 90% eldisafurða samkvæmt mælaborði sjávarútvegsins. Eins og í landbúnaði eru því margvísleg gögn tekin saman um framleiðslu fiskeldis og sjávarútvegs sem Hagstofan birtir árlega en ekki er fylgst miðlægt með birgðum á hverjum tíma eða birgðum nauðsynlegra aðfanga til framleiðslunnar þar sem það á við.
    Jafnframt er stór hluti af fæðuframboði á Íslandi innflutt unnin matvæli. Samkvæmt skýrslu norrænu ráðherranefndarinnar frá 2022 eru 53% innlendu neyslunnar framleidd hér, miðað við orkuinnihald. Stærstur hluti innfluttra matvæla kemur af EES-svæðinu. Ekki eru til upplýsingar um birgðastöðu innflutnings-, dreifingar- og smásölufyrirtækja á matvælum á hverjum tíma, en Hagstofan birtir gögn um innflutning rúmum mánuði eftir að hann á sér stað.
    Heimili eiga almennt ekki neyðarbirgðir af matvælum. Landlæknir gaf út á árinu 2020 lista yfir æskilegt birgðahald heimila í heimsfaraldri sem hluta af viðbragðsáætlun almannavarna vegna hans.

     2.      Liggur fyrir til hvaða aðgerða skuli gripið ef kemur til stöðvunar á innflutningi matvæla?
    Fjallað er með almennum hætti um dreifingu matvæla og annarra nauðsynja í viðbragðsáætlun almannavarna vegna heimsfaraldurs, þ.m.t. forgangsröðun við dreifingu. Þessi viðbragðsáætlun myndi eiga við ef kæmi til stöðvunar á innflutningi matvæla.
    Í skýrslu þjóðaröryggisráðs um ástand og horfur í þjóðaröryggismálum frá 2021 segir m.a. að gera þurfi reglulegar úttektir á matvælabirgðum í því skyni að tryggja að nóg sé til af þeim og skilgreina lágmarksbirgðir af matvælum og aðföngum til matvælaframleiðslu. Sú vinna er yfirstandandi eins og að framan greinir.

     3.      Eru áætlaðar mismunandi aðgerðir vegna þessa með tilliti til árstíma sem innflutningur myndi stöðvast?
    Svo sem fyrr segir er yfirstandandi vinna við að skilgreina magn og umfang nauðsynlegra neyðarbirgða, þar á meðal matvæla. Gangi þau áform eftir verður kveðið á um það lágmarksmagn sem á að vera til staðar í landinu á hverjum tíma og eðlilega hefur árstími áhrif á það eins og annað í lífhagkerfinu.