Ferill 719. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.
153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1712 — 719. mál.
Svar
innviðaráðherra við fyrirspurn frá Indriða Inga Stefánssyni um ógagnkvæma gildingu ökuskírteina.
Fyrirspurnin hljóðar svo:
Eru einhver dæmi þess að íslenska ríkið taki gild ökuskírteini útgefin af ríki sem tekur ekki gild íslensk ökuskírteini? Ef svo er, stendur til að koma á samningi við viðkomandi ríki um gagnkvæma gildingu?
Samkvæmt 1. mgr. 62. gr. umferðarlaga setur ráðherra reglur um þau skilyrði sem þeir sem dveljast hér á landi og hafa eiga íslenskt ökuskírteini þurfa að fullnægja til að mega stjórna vélknúnu ökutæki.
Þær reglur er að finna í reglugerð um ökuskírteini, nr. 830/2011. Samkvæmt 1. mgr. 29. gr. reglugerðarinnar veitir ökuskírteini sem gefið er út í ríki sem er aðili að Evrópska efnahagssvæðinu eða í Færeyjum handhafanum almennt rétt til að stjórna sömu ökutækjum hér á landi og það heimilar honum að stjórna í útgáfulandinu á gildistíma þess, þó ekki lengur en til 70 ára aldurs.
Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar veitir ökuskírteini sem gefið er út í ríki sem ekki er aðili að Evrópska efnahagssvæðinu, svo og ökuskírteini sem gefið er út á grundvelli slíks ökuskírteinis, handhafanum rétt til að stjórna sömu ökutækjum hér á landi og það heimilar honum að stjórna í útgáfulandinu í allt að einn mánuð eftir að skilyrðum um fasta búsetu er fullnægt. Þó ekki til vöru- eða farþegaflutninga í atvinnuskyni auk þess sem krafa er gerð um að viðkomandi uppfylli aldursskilyrði reglugerðarinnar, sbr. 3. og 4. mgr. Erlend ökuskírteini eru því almennt tekin gild hér á landi óháð uppruna, en þess er þó jafnframt krafist skv. 6. mgr. að skírteinið sé með latneskum bókstöfum eða að því fylgi þýðing á texta þess á íslensku, dönsku, norsku, sænsku eða ensku.
Um það hvort íslensk ökuskírteini eru tekin gild erlendis fer eftir lögum hvers og eins ríkis en í ákveðnum tilvikum hefur sérstaklega verið samið um gildi þeirra, svo sem í samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2006/126/EB um ökuskírteini er hluti EES-samningsins og á grundvelli hennar gilda öll ökuskírteini sem gefin eru út í einu ríki Evrópska efnahagssvæðisins í öllum hinum ríkjum svæðisins. Íslensk ökuskírteini hafa því almennt sama gildi í þeim ríkjum og þau hafa hér á landi.
Hoyvíkursamningnum er ætlað að mynda eitt efnahagssvæði á yfirráðasvæðum Íslands og Færeyja. Mismunun á grundvelli ríkisfangs, staðfestustaðar eða upprunastaðar vöru er bönnuð innan efnislegs gildissviðs samningsins. Með samningnum er meðal annars kveðið á um að samningsaðilar skuli viðurkenna sambærileg prófskírteini eins og þau hefðu verið gefin út á eigin yfirráðasvæði. Ekki er berum orðum minnst á ökuskírteini en á grundvelli samningsins eru íslensk ökuskírteini tekin gild í Færeyjum.
Þá er Ísland aðili að samningi Sameinuðu þjóðanna um umferð á vegum frá 1949. Íslenskt ökuskírteini gildir sem akstursheimild í þeim ríkjum sem eru aðilar að samningnum. Annaðhvort gildir íslenska skírteinið eitt og sér eða framvísa þarf með því alþjóðlegu ökuskírteini sem er gefið út skírteininu til viðbótar, en hvert aðildarríki fyrir sig getur krafist þess að ökumenn hafi alþjóðlegt ökuskírteini meðferðis. Það liggja ekki fyrir öruggar upplýsingar um hvaða ríki samningsins gera þá kröfu en það getur verið breytilegt og ríkjunum ber samkvæmt samningnum ekki að tilkynna breytingar. Leiki vafi á hvort íslenskt ökuskírteini sé eitt og sér fullnægjandi heimild til aksturs erlendis er því nauðsynlegt að hafa alþjóðlegt ökuskírteini meðferðis.
Gerður hefur verið samningur við Sameinuðu arabísku furstadæmin um gagnkvæma viðurkenningu ökuskírteina og að hvort ríki afhendi gilt skírteini í skiptum fyrir gilt skírteini hins án þess að krafa sé gerð um próftöku. Unnið er að gerð sambærilegra samninga við Bretland og Indland.
Ráðuneytinu hefur borist erindi þar sem fram kemur að íslensk ökuréttindi hafi ekki verið viðurkennd í Brasilíu. Brasilía er ekki aðili að fyrrgreindum samningi Sameinuðu þjóðanna frá 1949 en er aðili að samningi Sameinuðu þjóðanna um umferð á vegum frá árinu 1968, en í honum er kveðið á um gagnkvæma viðurkenningu ökuréttinda. Ísland hefur ekki gerst aðili að síðarnefnda samningnum en unnið hefur verið að undirritun og fullgildingu hans hér á landi. Með því yrði tryggt að íslensk ökuréttindi nytu einnig viðurkenningar í þeim ríkjum sem ekki hafa fullgilt þá samninga sem Ísland hefur þegar undirritað.
Einnig hefur ráðuneytinu borist erindi þar sem fram kemur að íslensk ökuréttindi séu ekki viðurkennd í Kína og um það hefur verið fjallað í fjölmiðlum. Kína er hvorki aðili að fyrrgreindum samningi Sameinuðu þjóðanna frá 1949 né hinum síðarnefnda frá 1968. Ekki liggur fyrir ákvörðun um að hefja viðræður við Kína um gagnkvæma viðurkenningu ökuskírteina.