Ferill 718. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1402  —  718. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Indriða Inga Stefánssyni um sanngirnisbætur.


     1.      Í þeim tilvikum þar sem ríkissjóður hefur greitt sanngirnisbætur til þolenda ofbeldis á vistheimilum á vegum ríkisins, hvert var hlutfall útgreiddra bóta af heildarkostnaði við útgreiðslu þeirra, þ.e. kostnaði við stjórnsýslu, rannsóknir, málsmeðferð eða annað sem við á?
    Í eftirfarandi töflu er að finna sundurliðun á þeim kostnaði sem hefur fallið til vegna sanngirnisbóta frá því lög nr. 47/2010, um sanngirnisbætur fyrir misgjörðir á stofnunum eða heimilum sem falla undir lög nr. 26/2007, öðluðust gildi hinn 28. maí 2010. Í töflunni er hvorki gerð grein fyrir kostnaði vegna starfsmanna ráðuneyta við samningu lagafrumvarpa né kostnaði vegna tíma starfsmanna við önnur verkefni í tengslum við yfirstjórnunar- og eftirlitsheimilda ráðuneytisins. Þær upplýsingar liggja ekki fyrir.
    Upplýsingar sem liggja fyrir um kostnað vegna verkefnisins eru í fyrsta lagi vegna vinnu vistheimilanefndar, sem annaðist könnun á starfsemi vist- og meðferðarheimila fyrir börn samkvæmt lögum nr. 26/2007, yfir árin 2007–2017. Upplýsingarnar voru fengnar frá forsætisráðuneytinu þar sem það ráðuneyti stofnaði til kostnaðarins og skipaði nefndina. Í öðru lagi upplýsingar um launakostnað sem fylgt hefur verkefnum embættis sýslumannsins á Norðurlandi eystra samkvæmt lögum nr. 47/2010, sbr. reglur nr. 345/2011 og 1080/2021, fengnar frá sýslumannsembættinu. Í þriðja lagi upplýsingar um kostnað vegna starfa tengiliða vegna vistheimila, sbr. 10. gr. laga nr. 47/2010. Í fjórða lagi upplýsingar um kostnað vegna starfshóps sem var skipaður í desember 2021 vegna barnaheimilisins á Hjalteyri. Að lokum er í töflunni að finna upplýsingar um samanlagða fjárhæð útgreiddra sanngirnisbóta en þær upplýsingar voru fengnar frá Fjársýslunni fyrir milligöngu sýslumannsembættisins á Norðurlandi eystra þar sem kerfi Fjársýslunnar heldur utan um greiðslurnar.
    Hlutfall útgreiddra sanngirnisbóta af heildarkostnaði verkefnis er um 92%, þ.e. (3.326.445.854/3.610.136.319)*100 = 92%.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




     2.      Hver er eftirfylgni með þolendum eftir að þeir hafa fengið greiddar sanngirnisbætur? Er þeim t.d. boðið upp á sálfræðiþjónustu eða áfallameðferð af hálfu ríkisins?
    Við framkvæmd verkefna á grundvelli laga nr. 47/2010, var tengiliði vegna vistheimila m.a. falið skv. 10. gr. laganna að aðstoða fyrrverandi vistmenn sem áttu um sárt að binda í kjölfar vistunar við að sækja sér þjónustu sem ríki og sveitarfélög bjóða upp á, svo sem varðandi endurhæfingu og menntun. Samkvæmt skýrslu um framkvæmd sanngirnisbóta, sem gefin var út í desember 2018 af starfsmanni dómsmálaráðuneytisins, sem annaðist verkefni tengiliðar vegna vistheimila, og starfsmanni sýslumannsins á Norðurlandi eystra, sem annaðist stjórnsýsluframkvæmd embættisins, mun eftirfylgni með bótaþegum hafa verið takmörkuð. Fólst hún einna helst í því að tengiliður vegna vistheimila aðstoðaði einstaklinga með að reka ýmis málefni sín, svo sem húsnæðismál, skuldamál, fjárhagsaðstoð, meðlags- og umgengnismál, erfðamál, menntun, úrlausnir í heilbrigðiskerfinu o.fl. með því að koma þeim í samband við rétta aðila innan stjórnkerfisins. Þá mun tengiliður vegna vistheimila jafnframt hafa leiðbeint bótaþegum um hvar og hvaða félagsleg þjónusta stæði þeim til boða og m.a. samið við mörg sveitarfélög um greiðslu kostnaðar fyrir slíkan stuðnings (Skýrsla um framkvæmd á greiðslu sanngirnisbóta á grundvelli laga nr. 47/2010, útg. í desember 2018, bls. 43–44). Að öðru leyti hefur ekki sérstök eftirfylgni átt sér stað af hálfu ráðuneytisins.

     3.      Hefur farið fram greining af hálfu ráðuneytisins á því hvernig er best að hlúa að þeim sem hafa orðið fyrir slíku ofbeldi á stofnunum á vegum ríkisins, þ.e. á því hvaða aðgerðir skila mestum árangri til hagsbóta fyrir þolendur? Hefur farið fram eftirfylgni eða mat á gagnsemi þeirra aðgerða sem nú þegar hafa verið framkvæmdar, þ.e. hvort þær hafi náð tilsettum árangri? Ef svo er, hverjar voru niðurstöður þess?
    Ekki hefur verið unnin greining af hálfu ráðuneytisins á því hvernig best sé að hlúa að þeim sem orðið hafa fyrir ofbeldi á stofnunum á vegum ríkisins, sem svarar því að auki hvaða aðgerðir eru taldar skila mestum árangri til hagsbóta fyrir þolendur afbrota. Ráðuneytið hefur hvorki haft eftirfylgni með tjónþolum né metið gagnsemi þeirra aðgerða sem þegar hafa verið framkvæmdar. Eina greiningin sem liggur fyrir fjallar um framkvæmd sanngirnisbóta og birtist hún í fyrrgreindri skýrslu um framkvæmd á greiðslu sanngirnisbóta á grundvelli laga nr. 47/2010, útg. í desember 2018. Sú skýrsla fjallar hins vegar fyrst og fremst um framkvæmd á greiðslu sanngirnisbóta og er sérstaklega bent á það á í skýrslunni að engin könnun hafi farið fram á því hvernig sanngirnisbætur nýttust þeim sem þær fengu (Skýrsla um framkvæmd á greiðslu sanngirnisbóta á grundvelli laga nr. 47/2010, útg. í desember 2018, bls. 46).
    Skýrslan var birt á vef Stjórnarráðsins 14. desember 2018 og er aðgengileg þar.