Ferill 699. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.
153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1166 — 699. mál.
Svar
utanríkisráðherra við fyrirspurn frá Andrési Inga Jónssyni um neyðarvegabréf.
Fyrirspurnin hljóðar svo:
Hversu mörg vegabréf hafa verið gefin út á grunni 16. gr. a og 16. gr. b reglugerðar nr. 560/2009 um íslensk vegabréf og hvenær voru þau vegabréf gefin út?
Ráðuneytið telur sér ekki unnt að veita umbeðnar upplýsingar með vísan til 9. og 10. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012. Einstaklingar sem kunna að hafa fengið útgefið vegabréf á grundvelli 16. gr. a og 16. gr. b reglugerðar nr. 560/2009 geta verið í viðkvæmri stöðu gagnvart stjórnvöldum í heimalandi sínu. Íslenskum stjórnvöldum er því ekki stætt á öðru en að gæta sérstaklega að ríkum hagsmunum einstaklinga í slíkri stöðu og gefa ekki tilefni til opinberrar umfjöllunar sem leitt getur til vitneskju í heimalandi þeirra í gegnum íslenska fjölmiðla um dvöl og búsetu þeirra á Íslandi. Við það sjónarmið fléttast mikilvægir almannahagsmunir sem eru verndarandlag 1.–3. tölul. 10. gr. upplýsingalaga, sbr. einnig úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál frá 30. janúar 2023 nr. 1123/2023 og 1124/2023, þar sem úrskurðarnefndin staðfesti synjun ráðuneytisins um aðgang að sömu upplýsingum og taldi nefndin ótvírætt að gögnin féllu undir ákvæði 2. tölul. 10. gr. upplýsingalaga.
Umbeðnar upplýsingar liggja fyrir í ráðuneytinu og hafa verið kynntar utanríkismálanefnd Alþingis í trúnaði.
Alls fór ein vinnustund í að taka svarið saman.

