Ferill 692. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.
153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 2244 — 692. mál.
Svar
umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra við fyrirspurn frá Líneik Önnu Sævarsdóttur um ofanflóðasjóð.
1. Gengur vinna við að ljúka öllum framkvæmdaverkefnum til varnar ofanflóðum árið 2030 samkvæmt uppfærðri áætlun frá 2020?
Í greinargerð sem unnin var í kjölfar snjóflóðanna á Flateyri í byrjun árs 2020 er tilgreint hvaða framkvæmdaverkefnum á sviði ofanflóðavarna þarf að ljúka til þess að draga verulega úr fjölda þeirra sem verða fyrir áhrifum hamfara og röskun á undirstöðuþjónustu, svo sem heilbrigðis- og menntakerfi, m.a. með því að verja fólk á heimilum sínum á þeim þéttbýlissvæðum sem búa við slíka ógn. Jafnframt kemur fram hversu mikið fjármagn þarf til að ljúka þeim framkvæmdum árið 2030. Fjárheimildir ofanflóðasjóðs voru auknar í samræmi við þær niðurstöður og hefur verið unnið eftir því markmiði að öllum framkvæmdum við ofanflóðavarnir verði lokið árið 2030.
Áætlaður framkvæmdakostnaður vegna ofanflóðamannvirkja hefur nú verið uppfærður með aðstoð FSRE þar sem tekið hefur verið tillit til áætlaðs kostnaðar við endurgerð varna á Flateyri og aukins kostnaðar vegna varna á Seyðisfirði. Jafnframt hefur aukin þekking og reynsla af varnargörðum og bætt reiknilíkön í kjölfar snjóflóðsins á Flateyri gert það að verkum að margar framkvæmdir verða kostnaðarsamari en áður hafði verið gert ráð fyrir. Afleiðingar af COVID-19 og stríðinu í Úkraínu hafa haft og munu áfram hafa mikil áhrif á verð aðfanga sem hefur hækkað mikið og þá sérstaklega á stáli og olíu.
Miðað við gildandi fjármálaáætlun fyrir árin 2023–2027 og óbreyttar fjárheimildir ofanflóðasjóðs fram til ársins 2030 er ljóst að framkvæmdum mun ekki ljúka á tilsettum tíma. Við undirbúning fjármálaáætlunar fyrir árin 2024–2028 fór fram rýni á kostnaðaráætlun frá 2020 með það að markmiði að leita leiða til að tryggja fjármögnun áætlunarinnar fram til ársins 2030.
Ríkisstjórnin hefur ákveðið að flýta upphafi framkvæmda við ofanflóðavarnir á Norðfirði um eitt ár og þær hefjist árið 2024 í stað 2025. Sú ákvörðun hefur í för með sér að 600 m.kr. sem nú er gert ráð fyrir til framkvæmda á árinu 2030 færast fram til ársins 2024 og 300 m.kr. verða færðar fram, frá árunum 2028 og 2029 til áranna 2025 og 2026.
Þá hafa framkvæmdir við ofanflóðavarnir á Seyðisfirði gengið hraðar en áætlað var og heimiluð hefur verið 150 m.kr. aukning til þeirra á þessu ári til að flýta verkefninu.
Veðurstofa Íslands hefur að beiðni umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins unnið að mati á þörf fyrir varnarvirki og viðbúnað vegna ofanflóðahættu á atvinnusvæðum á Íslandi. Ofanflóðahætta er víða á atvinnusvæðum bæði í og við þéttbýli og í dreifbýli og er skýrslunni ætlað að skapa yfirsýn yfir þann ofanflóðavanda sem við er að eiga á atvinnusvæðum í ofanflóðahættu. Varnartillögur skýrslunnar miðast við að hús verði á þeim svæðum þar sem hættan er talin mest í ofanflóðahættumati.
Ráðherra hyggst leggja fram frumvarp til breytinga á lögum nr. 49/1997 þar sem markmiðum og gildissviði laganna verður breytt á þann hátt að lögin taki einnig til atvinnusvæða sem búa við ofanflóðahættu í þéttbýli og varnarmannvirkja sem þeim tengjast.
2. Hver er áætluð árleg fjárþörf ofanflóðasjóðs til framkvæmdaverkefna til ársins 2030?
Uppfærður framkvæmdakostnaður ofanflóðamannvirkja tímabilið 2024–2030 sem miðar að því að ljúka öllum framkvæmdaverkefnum árið 2030 er áætlaður um 26,3 ma.kr. á verðlagi ársins 2023. Áætlaður heildarkostnaður tekur mið af núverandi verði aðfanga en hann getur tekið breytingum á tímabilinu. Meðfylgjandi er áætluð dreifing á framkvæmdakostnaði árin 2024–2030 miðað við að framkvæmdirnar séu að fullu fjármagnaðar með framlagi úr ríkissjóði.
2024 | 2025 | 2026 | 2027 | 2028 | 2029 | 2030 | Samtals |
3.808 | 3.805 | 3.820 | 3.760 | 3.709 | 3.710 | 3.713 | 26.325 |
3. Hver er áætluð árleg fjárþörf sjóðsins til annarra verkefna?
Uppfærður kostnaður vegna annarra verkefna en framkvæmdaverkefna á tímabilinu 2024–2030 er áætlaður 4,5 ma.kr. og snýr m.a. að viðhaldi og endurbótum, rekstri, rannsóknum og hættumati. Reikna má með að fjárþörf vegna annarra verkefna aukist eftir því sem líður á tímabilið þar sem kostnaður vegna viðhalds og endurbóta varnarmannvirkja eykst eftir því sem varnir eldast. Í eftirfarandi töflu má sjá áætlaða dreifingu á kostnaði vegna annarra verkefna árin 2024–2030.
2024 | 2025 | 2026 | 2027 | 2028 | 2029 | 2030 | Samtals |
590 | 590 | 585 | 640 | 690 | 690 | 690 | 4.475 |