Ferill 691. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.
153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1144 — 691. mál.
Svar
heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni um lífsýnatöku og læknisrannsóknir við landamæraeftirlit.
1. Er heimilt að taka lífsýni úr fólki við landamæraeftirlit á Íslandi? Ef svo er, hvaða reglur gilda um þá meðferð? Gilda mismunandi reglur eða verklag um töku á lífsýni eftir því af hvaða þjóðerni viðkomandi er?
Við vinnslu svars við fyrirspurninni verður einungis horft til löggjafar sem heyrir undir heilbrigðisráðherra, sbr. forsetaúrskurð um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands, nr. 6/2022.
Ef sóttvarnalæknir fær tilkynningu um að einstaklingur sé haldinn smitsjúkdómi eða grunur er um smit hjá viðkomandi, tekur hann afstöðu til þess hvort grípa skuli til frekari aðgerða en heilbrigðisstarfsmaður hefur þegar gert til þess að fyrirbyggja eða hefta útbreiðslu smits sem ógnað getur almannaheill, sbr. 1. og 2. mgr. 14. gr. sóttvarnalaga, nr. 19/1997. Slíkar upplýsingar geta borist sóttvarnalækni um einstakling sem er að koma til landsins. Sóttvarnalæknir hefur heimild til að taka ákvörðun um aðgerðir sem geta falið í sér heilbrigðisskoðun, sbr. 3. mgr. 14. gr. laganna.
Enn fremur má geta þess að 13. gr. sóttvarnalaga, nr. 19/1997, gerir ráð fyrir að ráðherra geti sett reglugerð, að fenginni tillögu sóttvarnalæknis, um að gripið skuli til sóttvarnaráðstafana vegna hættu á að farsóttir berist til eða frá Íslandi.
Í 4. tölul. 2. mgr. 13. gr. laganna er sérstaklega fjallað um að heimilt sé að kveða á um að ferðamenn undirgangist heilbrigðisskoðun sem sé eins lítið ífarandi og unnt er til að ná settu lýðheilsumarkmiði. Í 4. mgr. 13. gr. er tekið fram að ef vísbendingar séu um að lýðheilsa sé í yfirvofandi hættu geti ráðherra kveðið á um í reglugerð að ferðamenn skuli undirgangast ráðstafanir sem koma í veg fyrir sjúkdóma, aðrar en ónæmisaðgerð, eða varna útbreiðslu þeirra, þ.m.t. einangrun, sóttkví, vöktun og sjúkdómsskimun, svo sem með stroki úr nef- eða munnholi eða annars konar heilbrigðisskoðun sem ekki krefst mikils inngrips.
Reglurnar geta því verið misjafnar eftir því hvað ráðherra ákveður að setja reglugerð um að fenginni tillögu sóttvarnalæknis.
2. Í hvaða tilfellum er heimilt að taka lífsýni, t.d. blóðsýni, úr mönnum við landamæraeftirlit á Íslandi? Svar óskast tilgreint eftir þjóðerni ef það á við.
Sóttvarnalæknir getur tekið ákvörðun um aðgerðir gegn einstakling sem kemur til landsins fái hann upplýsingar um eða grunur er um að viðkomandi sé haldinn smitsjúkdómi sem ógnað getur almannaheill, sbr. 1. og 2. mgr. 14. gr. sóttvarnalaga, nr. 19/1997 . Sóttvarnalæknir hefur heimild til að taka ákvörðun um aðgerðir sem geta falið í sér heilbrigðisskoðun, sbr. 3. mgr. 14. gr. laganna.
3. Í hvaða tilfellum þurfa þeir sem koma til landsins að gangast undir læknisrannsókn eða útvega sjálfir lífsýni, t.d. blóðsýni? Svar óskast tilgreint eftir þjóðerni ef það á við.
Sóttvarnalæknir getur tekið ákvörðun um aðgerðir gegn einstaklingi sem kemur til landsins fái hann upplýsingar um eða grunur er um að viðkomandi sé haldinn smitsjúkdómi sem ógnað getur almannaheill, sbr. 1. og 2. mgr. 14. gr. sóttvarnalaga, nr. 19/1997 . Sóttvarnalæknir hefur heimild til að taka ákvörðun um aðgerðir sem geta falið í sér heilbrigðisskoðun, sbr. 3. mgr. 14. gr. laganna.
Þeim sem koma til landsins og sækja um alþjóðlega vernd er gert að fara í læknisrannsókn, sbr. 1 . mgr. 25. gr. laga um útlendinga, nr. 80/2016. Einnig þurfa þau sem sækja um dvalarleyfi að samþykkja að fara í læknisrannsókn, sbr. 1. mgr. 53. gr. laga um útlendinga. Um kostnað þeirra læknisrannsókna eða heilbrigðisskoðana fer skv. 17. gr. sóttvarnalaga. Sóttvarnalæknir hefur enn fremur sett verklagsreglur um læknisrannsóknir á fólki sem flyst til Íslands.
4. Hver tekur ákvörðun um nefndar rannsóknir og sýnatökur og hvaða lög heimila þær?
Sóttvarnalæknir hefur heimild til þess að grípa til aðgerða, eins og að framkvæmd verði heilbrigðisskoðun, ef hann fær tilkynningu um eða grunur leikur á að einstaklingur sé með smitsjúkdóm sem ógnað getur almannaheill, sbr. 1. og 2. mgr. 14. gr. sóttvarnalaga, nr. 19/1997.
Heilbrigðisráðherra hefur einnig heimild til þess að setja reglugerð með lagastoð í sóttvarnalögum, nr. 19/1997, um hvaða rannsóknir og sýnatökur skuli framkvæmdar til að koma í veg fyrir sjúkdóma eða til að varna gegn útbreiðslu þeirra hér á landi.