Ferill 682. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.
153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 2158 — 682. mál.
Svar
félags- og vinnumarkaðsráðherra við fyrirspurn frá Oddnýju G. Harðardóttur um lögbundið eftirlit og eftirfylgni með réttindum fatlaðra barna.
1. Eru til aðgengilegar samræmdar reglur, leiðbeiningar eða önnur stjórnvaldsfyrirmæli um gerð kröfulýsinga og ítarlegra þjónustulýsinga um þjónustu heimilis, sbr. 3. gr. reglugerðar nr. 1038/2018 og 4. gr. reglugerðar nr. 1036/2018, með tilliti til skilgreindra markmiða, skilyrða, framfærsluábyrgðar, réttarstöðu og réttinda forsjáraðila og barna, reglubundinnar framkvæmdar úttekta o.fl.?
Samkvæmt upplýsingum sem félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu bárust frá Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála (GEV) eru ekki til samræmdar reglur, leiðbeiningar eða önnur stjórnvaldsfyrirmæli um gerð kröfulýsinga og ítarlegra þjónustulýsinga um þjónustu heimilis sem kveðið er á um í ofangreindum reglugerðum.
Sveitarfélög skulu hafa innra eftirlit með framkvæmd þjónustu sem veitt er á grundvelli laga nr. 38/2018, um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, þar á meðal með framkvæmd samninga sem sveitarfélög gera við einkaaðila um þjónustuna, sbr. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2018. Til að unnt sé að viðhafa skilvirkt eftirlit með því að framkvæmd samninga sveitarfélaga við einkaaðila samræmist markmiðum laga nr. 38/2018 skal kröfulýsing fylgja samningi eða ítarleg þjónustulýsing koma fram í samningi, sbr. 2. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 1036/2018, um eftirlit og eftirfylgni vegna þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir. Þannig er lögbundið eftirlit og eftirfylgni með réttindum fatlaðs fólks á ábyrgð sveitarfélaga sem skulu viðhafa innra eftirlit með framkvæmd þjónustu einkaaðila á grundvelli þjónustusamninga og gerð kröfulýsinga og/eða ítarlegra þjónustulýsinga.
Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. laga nr. 88/2021, um Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála (lög um GEV), fer stofnunin meðal annars með eftirlit með gæðum þjónustu sem veitt er á grundvelli laga nr. 38/2018. Þá skulu allir þeir sem veita þjónustu sem lýtur eftirliti GEV hafa virkt innra eftirlit með starfsemi sinni, sbr. 11. gr. laga um GEV. Í lögbundnu eftirliti GEV felst að stofnunin hefur eftirlit með því að þjónustuveitendur séu með virkt innra eftirlit í samræmi við 11. gr. laga um GEV, sbr. einnig 5. gr. laga nr. 38/2018, og að gæði þjónustu séu í samræmi við gæðaviðmið, lög, reglugerðir og reglur. Fer eftirlit GEV þannig fram að stofnunin getur framkvæmt frumkvæðisathugun á þjónustu sem veitt er á grundvelli þjónustusamnings sveitarfélags við einkaaðila og kannað hvort hún samrýmist ákvæðum laga nr. 38/2018 og er þá ávallt kannað hvort kröfulýsingar eða ítarlegar þjónustulýsingar séu fyrir hendi. Eftirfylgni GEV felst einkum í því að stofnunin getur komið með úrbótatilmæli til þjónustuveitanda, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga um GEV, og einnig beitt viðurlögum samkvæmt IV. kafla laganna, sé úrbótatilmælum ekki sinnt.
Meðal hlutverka GEV er að þróa gæðaviðmið á grundvelli bestu mögulegu þekkingar á málaflokkum sem eru á verkefnasviði stofnunarinnar, sbr. a-lið 2. mgr. 3. gr. laga um GEV. Á grunni slíkra gæðaviðmiða er hægt að setja leiðbeinandi kröfur til þjónustu sem er leyfisskyld og lýtur ytra eftirliti GEV. Rétt er að árétta að GEV ber ekki að tryggja að fyrir hendi séu samræmdar reglur eða leiðbeiningar um gerð kröfu- eða þjónustulýsinga, heldur er það á ábyrgð þjónustuveitenda, sbr. framangreint.
Í starfsáætlun GEV til tveggja ára, sem gefin var út í október 2022 og samþykkt af félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu, er sett fram langtímamarkmið um gæðaþróun í velferðarmálum. Hjá GEV er því hafin undirbúningsvinna við þróun gæðaviðmiða fyrir þá málaflokka er lúta eftirliti GEV, en nú þegar eru til staðar gæðaviðmið fyrir félagslega þjónustu við fatlað fólk.
2. Hvernig er skilvirku og markvissu eftirliti og eftirfylgni ráðherra með starfsemi þjónustu- og húsnæðisúrræða nákvæmlega háttað? Hvaða kröfur, viðmið og mælikvarðar gilda um eftirlitið? Hvernig er brugðist við ef í ljós koma annmarkar á þjónustunni?
GEV hefur eftirlit með því að þau sem bera ábyrgð á þjónustu séu með virkt innra eftirlit og að gæði þjónustunnar séu í samræmi við ákvæði laga, reglugerða, reglna og samninga, svokallað ytra eftirlit. Eftirlit GEV með starfsemi þjónustu- og húsnæðisúrræða á grundvelli laga nr. 38/2018 er með þeim hætti að einkaaðilum, sem hyggjast veita þjónustu sem lýtur eftirliti stofnunarinnar, sbr. 2. mgr. 1. gr. laga um GEV, er skylt að afla rekstrarleyfis hjá GEV áður en byrjað er að veita umrædda þjónustu, sbr. 5. gr. laga um GEV. Þá geta notendur beint kvörtun yfir gæðum þjónustu til GEV á grundvelli 1. mgr. 17. gr. laga um GEV. Stofnunin tekur jafnframt við ábendingum um þjónustu undir eftirliti GEV á grundvelli 13. gr. laganna og metur hvort tilefni sé til að hefja frumkvæðiseftirlit í kjölfar slíkra ábendinga. Þá hefur GEV einnig heimild til að hefja að eigin frumkvæði eftirlit með starfsemi þjónustu- og húsnæðisúrræða fyrir fatlað fólk, sbr. 14. og 15. gr. laga um GEV.
Þær kröfur, viðmið og mælikvarðar sem gilda um framangreint eftirlit GEV með þjónustu- og húsnæðisúrræðum fyrir fatlað fólk fela í sér að kanna hvort þjónustan sé í samræmi við ákvæði laga nr. 38/2018, reglugerða, reglna og gæðaviðmiða fyrir félagslega þjónustu við fatlað fólk.
Ef niðurstaða frumkvæðiseftirlits GEV sýnir að vankantar eru á þjónustu eða þjónustan er ekki í samræmi við ákvæði laga, reglugerða, reglna og gæðaviðmiða bregst stofnunin við með því að koma með úrbótatilmæli, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga um GEV, til þess aðila er ber ábyrgð á þjónustu. Sé ekki farið að tilmælum hefur stofnunin heimild til að beita viðurlögum, sbr. IV. kafla laga um GEV.
3. Er haft eftirlit með og gætt að öðrum réttindum barnsins, svo sem aðgengi að og rétti til menntunar og heilbrigðisþjónustu? Hvernig er brugðist við ef í ljós kemur að þeirra er ekki gætt?
Hluti af framangreindu eftirliti GEV er eftirlit með gæðum þeirrar þjónustu sem fötluð börn eiga rétt á skv. lögum nr. 38/2018, þ.m.t. til stoðþjónustu sem miðast skal við þarfir einstaklinga til menntunar- og heilbrigðisþjónustu. GEV skal þannig kanna hvort gætt sé að rétti fatlaðra barna til menntunar- og heilbrigðisþjónustu, enda er það hluti af gæðaviðmiðum fyrir félagslega þjónustu við fatlað fólk. Ef eftirlit leiðir í ljós annmarka á þjónustu skal stofnunin bregðast við með því að setja fram úrbótatilmæli til þess sem ber ábyrgð á þjónustunni, sbr. fyrrgreinda 2. mgr. 16. gr. laga nr. 88/2021, og eftir atvikum beita viðurlögum samkvæmt IV. kafla laganna.
Jafnframt skal áréttað að eitt af lögbundnum hlutverkum GEV er að hafa eftirlit með gæðum þjónustu sem veitt er á grundvelli laga nr. 86/2021, um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna, sbr. 2. mgr. 1. gr. laga um GEV. Innleiðing á þjónustu í þágu farsældar barna er víða hafin og er það eitt af verkefnunum í starfsáætlun GEV að beina kastljósi að gæðum þjónustunnar sem veitt er á grundvelli laga nr. 86/2021.
4. Hversu margar úttektir hafa verið gerðar á þjónustu við einstaklinga og starfsemi úrræðanna og hver hefur aðkoma sérfræðingateymis skv. 20. og 21. gr. laga nr. 38/2018 verið þar?
Gæða- og eftirlitsstofnun félagsþjónustu og barnaverndar (GEF), forveri Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála, framkvæmdi eina úttekt á þjónustu Vinakots árið 2019 og eina úttekt á þjónustu Klettabæjar árið 2021, sjá skýrslur á vefsíðu Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála. Hvað varðar aðkomu sérfræðingateymisins skv. 20. og 21. gr. laga nr. 38/2018 þá var ekki búið að stofna teymið þegar úttektin fór fram á Vinakoti. Þegar úttekt fór fram á Klettabæ hafði stofnunin samráð við teymið sem hafði þá nýlega tekið til starfa. Teymið svaraði fyrirspurnum GEV en hafði haft litla aðkomu að málefnum þeirra einstaklinga sem þá voru í Klettabæ.
5. Er til staðar samræmt verklag um réttarstöðu einstaklinga, málsmeðferð og ákvarðanir um áframhaldandi þjónustu þegar barn nær lögaldri? Ef svo er, hvernig hljóðar það?
Samkvæmt 2. mgr. 19 gr. laga nr. 38/2018, um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, skal stuðningsteymi fatlaðs barns gera áætlun þar sem fjallað er um þjónustu fyrir barnið eftir að það nær fullorðinsaldri áður en barn sem hefur þörf fyrir fjölþætta þjónustu á öðru og/eða þriðja stigi verður 18 ára. Þá greinir í 12. gr. sömu laga að fatlaður einstaklingur sem hefur þörf fyrir viðvarandi fjölþættan stuðning þjónustukerfa félags-, heilbrigðis- og menntamála eigi rétt á einstaklingsbundinni þjónustuáætlun og þverfaglegu þjónustuteymi undir forystu félagsþjónustunnar sem hefur það hlutverk að útfæra þjónustu við viðkomandi og tryggja gæði hennar. Ákvæðinu er ætlað að stuðla að samfellu í þjónustu þegar barn nær fullorðinsaldri.
6. Njóta forsjáraðilar sem bera tilfinnanleg útgjöld vegna barns áfram greiðslu umönnunarbóta skv. 4. gr. laga um félagslega aðstoð, nr. 99/2007, þegar barn býr utan heimilis?
Í 4. gr. laga nr. 99/2007, um félagslega aðstoð, segir að Tryggingastofnun sé heimilt að inna af hendi umönnunargreiðslur til framfærenda fatlaðra og langveikra barna, sem dveljast í heimahúsi eða á sjúkrahúsi. Með hugtakinu heimahús er átt við lögheimili í skilningi laga nr. 80/2018, um lögheimili og aðsetur, eins og úrskurðarnefnd velferðarmála hefur komist að niðurstöðu um í úrskurðum sínum. Umönnunargreiðslur greiðast því til þess foreldris sem barn er með lögheimili hjá og ef barn flytur af heimili stöðvast greiðslur til foreldris nema það dveljist á sjúkrahúsi. Sérstakar reglur gilda um þá stöðu þegar fyrir liggur samningur um skipta búsetu barns, sbr. 3. mgr. 32. gr. barnalaga, nr. 76/2003. Samkvæmt nýlegri viðbót við 5. gr. reglugerðar um fjárhagslega aðstoð við framfærendur fatlaðra og langveikra barna, nr. 504/1997, sbr. reglugerð nr. 500/2023, er foreldrum sem fá umönnunargreiðslur, þegar fyrir liggur samningur um skipta búsetu barns, heimilt að skipta greiðslum og skulu þeir þá tilkynna Tryggingastofnun hvernig skiptingunni skuli háttað. Ef foreldrar hafa óskað eftir skiptingu en ekki tilkynnt um hvernig henni skuli hagað skiptast umönnunargreiðslur jafnt milli foreldra. Ef barnið er í varanlegri vistun á vegum barnaverndar er Tryggingastofnun heimilt að greiða umönnunargreiðslur til fósturforeldris.