Ferill 677. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.
153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1553 — 677. mál.
Svar
fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Ásthildi Lóu Þórsdóttur um stimpilgjöld.
Fyrirspurnin hljóðar svo:
Hver var fjöldi stimpilgjaldsskyldra skjala og hverjar voru heildartekjur ríkissjóðs af stimpilgjöldum árin 2021 og 2022? Hverjar eru áætlaðar heildartekjur ríkissjóðs af stimpilgjöldum árið 2023? Svar óskast sundurliðað eins og unnt er eftir því hvort um er að ræða skjöl er varða:
a. eignaryfirfærslu íbúðarhúsnæðis og rétthafi er lögaðili,
b. eignaryfirfærslu annarra fasteigna en íbúðarhúsnæðis og rétthafi er lögaðili,
c. eignaryfirfærslu íbúðarhúsnæðis og rétthafi er einstaklingur sem hefur ekki áður keypt fasteign,
d. eignaryfirfærslu íbúðarhúsnæðis og rétthafi er einstaklingur sem hefur áður keypt fasteign og
e. eignaryfirfærslu annarra fasteigna en íbúðarhúsnæðis og rétthafi er einstaklingur.
Upplýsingar um fjölda stimpilgjaldsskyldra skjala og fjárhæð stimpilgjalda eftir umbeðinni flokkun er að finna í meðfylgjandi töflu fyrir árin 2021 og 2022. Upplýsingarnar eru fengnar úr gögnum frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS). Heildartekjur af stimpilgjöldum samkvæmt fjárlögum fyrir árið 2023 eru áætlaðar tæplega 6,2 milljarðar kr.
Í svari við fyrirspurninni er byggt á nokkrum forsendum. Talin voru upp þau fastanúmer sem skráð eru sem „íbúðarhúsnæði“ í fasteignaskrá og án sérstakrar afmörkunar. Gert er þó ráð fyrir því að eignaryfirfærsla jarðar flokkist sem eignaryfirfærsla á íbúðarhúsnæði, ef á jörðinni er skráð fastanúmer í fasteignaskrá HMS og það fastanúmer jafnframt skráð sem íbúðarhúsnæði. Svarið byggist einnig á því að með rétthafa sé átt við kaupanda eignar. Samkvæmt 3. mgr. 5. gr. laga um stimpilgjald, nr. 138/2013, greiðist hálft stimpilgjald af gjaldskyldu skjali þegar um ræðir fyrstu kaup einstaklings á íbúðarhúsnæði. Í fyrirspurn er beðið um sundurliðun eftir því hvort rétthafi sem er einstaklingur hafi keypt fasteign áður eða ekki og í svarinu er því stuðst við það hvort afsláttur af stimpilgjöldum hafi verið veittur við kaupin eða ekki. Þeir sem eru hér flokkaðir undir umbeðna rétthafa í c-lið eru því þeir sem var veittur afsláttur. Þeir sem eru hér flokkaðir undir umbeðna rétthafa í d-lið eru þeir sem var ekki veittur afsláttur.
Það ber að athuga að stafliðir fyrirspurnarinnar eru ekki aðskilin mengi heldur skarast þeir að einhverju leyti. Samtala stafliðanna er því hærri en uppgefin heildartala þar sem einstaklingar og lögaðilar eru í sumum tilfellum skráðir saman sem rétthafar. Eru stimpilgjöld og fjöldi stimpilgjaldsskyldra skjala í þeim tilfellum því tvítalin, að því leyti að þau eru talin í fleiri en einum staflið.
Ár | Liður | Fjöldi | Stimpilgjöld |
2021 | heild | 38.410 | 6.726 m.kr. |
a | 2.837 | 1.138 m.kr. | |
b | 4.181 | 1.879 m.kr. | |
c | 7.603 | 834 m.kr. | |
d | 23.140 | 3.654 m.kr. | |
e | 15.615 | 2.358 m.kr. | |
2022 | heild | 30.212 | 6.118 m.kr. |
a | 2.745 | 1.247 m.kr. | |
b | 4.360 | 2.154 m.kr. | |
c | 5.102 | 566 m.kr. | |
d | 17.537 | 2.888 m.kr. | |
e | 11.475 | 1.761 m.kr. |