Ferill 657. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.
153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1359 — 657. mál.
Svar
innviðaráðherra við fyrirspurn frá Lilju Rafneyju Magnúsdóttur um byggingarrannsóknir og rannsóknir tengdar rakavandamálum.
Innviðaráðherra skilaði nýlega skýrslu til Alþingis um tjón af völdum rakaskemmda og myglusvepps í fasteignum og um réttarstöðu eigenda þeirra, sjá þingskjal 940, 268. mál, frá janúar 2023. 1 Vísað verður til þeirrar skýrslu, sem og skýrslu starfshóps um endurskoðun laga og reglugerða með tilliti til myglusvepps í húsnæði sem skilað var til Alþingis árið 2015. 2
1. Telur ráðherra að nægileg þekking sé til staðar hér á landi svo finna megi lausnir á rakavandamálum í byggingum?
Ráðherra telur að ekki liggi fyrir nægileg þekking hér á landi svo finna megi lausnir á rakavandamálum í byggingum. Í framangreindri skýrslu ráðherra, sem skilað var til Alþingis í janúar 2023, kemur fram að tjón af völdum rakaskemmda og myglusvepps í fasteignum hafi fylgt mannkyninu frá upphafi siðmenningar og að ekki hafi auðnast að vinna bug á þeirri meinsemd þrátt fyrir allar þær miklu og þverfaglegu rannsóknir sem farið hafi fram á seinni tímum víða um heim, og þrátt fyrir hið flókna og umfangsmikla regluverk mannvirkjagerðar nútímans. Þetta gildir jafnt um Ísland sem og önnur lönd því tæknilegar kröfur um loftun og rakavernd í regluverki okkar Íslendinga eru svipaðar og hjá nágrannaþjóðunum. Ljóst er að ekki er til staðar nægileg þekking, hvorki hérlendis né annars staðar, svo að finna megi endanlegar lausnir á rakavandamálum í byggingum. Stjórnvöld á Íslandi hafa því mörg undanfarin ár leitast við að huga vel að regluverki, fræðslu og rannsóknum á þessu sviði, eins og kemur fram í framangreindri skýrslu, og hafa stjórnvöld sett á stofn Ask – mannvirkjarannsóknarsjóð, en hluti þeirra verkefna sem hlotið hafa rannsóknarstyrk úr Aski snúa einmitt að rakavandamálum í byggingum á Íslandi.
2. Er ástæða til að endurskoða núgildandi byggingarreglugerð í ljósi frétta af leka í nýlegum byggingum, með tilheyrandi rakaskemmdum, og grípa samhliða til aðgerða svo stemma megi stigu við lekavandamálum?
Settur var starfshópur sem skilaði skýrslu til Alþingis árið 2015 um endurskoðun laga og reglugerða með tilliti til myglusvepps í húsnæði. Helstu niðurstöður starfshópsins voru þær að orsakir vandans virtust helst liggja í röngum vinnubrögðum við hönnun og mannvirkjagerð, vanrækslu á viðhaldi og rangri notkun á húsnæði. Mat starfshópsins var að ekki væri þörf á umfangsmiklum lagabreytingum í þeirri viðleitni að ráða bót á þessum vanda, heldur að tækifærin fælust helst í aukinni fræðslu, leiðbeiningum, menntun fagaðila og auknum rannsóknum á sviðinu sem leitt gæti til nýrra og bættra vinnubragða og byggingaraðferða. Yfirferð og endurskoðun á regluverki byggingariðnaðarins er viðvarandi og samfellt verkefni ráðuneytisins og Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, í samstarfi við helstu hagaðila, svo sem sveitarfélög og aðila byggingariðnaðarins, og í þeirri vinnu er stöðugt litið til ýmissa byggingargalla sem geta komið fram, svo sem lekavandamála. Í þeirri vinnu verður byggingarreglugerðin endurskoðuð.
3. Þarf að samræma matsviðmið og skoðunaraðferðir þegar glímt er við galla og mistök í fasteignum eða ranga hönnun þeirra?
Ráðherra telur að samræma þurfi matsviðmið og skoðunaraðferðir þegar glímt er við galla og mistök í fasteignum eða ranga hönnun þeirra. Í framangreindri skýrslu sem ráðherra skilaði til Alþingis í janúar 2023 kemur fram að Askur – mannvirkjarannsóknarsjóður hafi verið settur á stofn árið 2021 og veiti sjóðurinn styrki til mannvirkjarannsókna með áherslu á aukna þekkingu, umbætur og nýsköpun til að mæta samfélagslegum áskorunum á sviði mannvirkjagerðar. Áherslur sjóðsins snúa einkum að samfélagslegum áskorunum í byggingariðnaði, svo sem rakaskemmdum í mannvirkjum og aðgerðum til lækkunar kolefnisspors. Úr umsóknum í sjóðinn árið 2021 (styrkir veittir árið 2022) hlutu fjögur rannsóknarverkefni tengd raka og myglu í byggingum styrki, samtals að upphæð 14,5 millj. kr. og munu niðurstöður rannsóknanna liggja fyrir á næstu mánuðum. Eitt verkefnanna fjallar um gerð samræmdra verklagsreglna um hvernig meta eigi ástand bygginga með tilliti til raka og myglu og hvernig bregðast eigi við slíkum vanda. Úr umsóknum í sjóðinn árið 2022 (styrkir veittir árið 2023) var verkefni þessu veittur framhaldsstyrkur. Annað verkefni hefur að markmiði að veita yfirlit yfir þau námsgögn um raka og myglu sem til eru fyrir iðnnám og mæla með úrbótum og tekið verður tillit til tillagna um samræmdar matsaðferðir við endurskoðun námsgagnanna.
4. Ef þörf er á öflugra eftirliti en nú tíðkast með framlögðum verkteikningum og framfylgd þeirra, hvernig mætti haga því sem best?
Ráðherra telur að ástæða sé til að yfirfara eftirlit með framlögðum verkteikningum og framfylgd þeirra og telur að það sé best gert með því að efla rafræna stjórnsýslu í mannvirkjagerð, eins og fram kemur í skýrslu ráðherra sem skilað var til Alþingis í janúar 2023. Í skýrslunni eru settar fram skýrar tillögur til úrbóta um þau skref sem stíga þarf til að efla rafræna stjórnsýslu, hvernig hægt verði að skila eftirlitsskýrslum rafrænt inn í miðlægan gagnagrunn Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, bæði við yfirferð hönnunargagna samkvæmt skoðunarhandbókum stofnunarinnar og við eftirlit með framkvæmd samkvæmt viðeigandi skoðunarhandbókum stofnunarinnar. Ráðherra telur að með eflingu rafrænnar stjórnsýslu þessara mála, og vistun gagna í miðlægri gátt Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar verði gæðaeftirlit í byggingariðnaði eflt með sem hagstæðustum hætti og án þess að auka flækjustig slíks eftirlits.
1 Skýrsla innviðaráðherra um tjón af völdum rakaskemmda og myglusvepps í fasteignum og um réttarstöðu eigenda þeirra, 153. löggjafarþing 2022–2023, þingskjal 940, 268. mál.
2 Skýrsla starfshóps um endurskoðun laga og reglugerða með tilliti til myglusvepps í húsnæði, umhverfis- og auðlindaráðuneyti, mars 2015. Sótt af www.stjornarradid.is/media/umhverfisraduneyti-media/ media/pdf_skrar/mygluskyrsla_og_fylgiskjal.pdf