Ferill 655. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.
153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1215 — 655. mál.
Svar
innviðaráðherra við fyrirspurn frá Indriða Inga Stefánssyni um leigubifreiðaakstur.
1. Hvernig hefur ráðherra brugðist við aukinni eftirspurn eftir leigubifreiðum?
Fram til ársins 2022 hafði atvinnuleyfum leigubifreiðastjóra ekki fjölgað að ráði síðan 1995 þegar stjórnvöld settu þak á fjölda þeirra á tilteknum svæðum. 2022 ákvað ráðherra hins vegar að fjölga atvinnuleyfum á höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum (takmörkunarsvæði I) um 100, úr 560 í 660. Var það gert til að koma á móts við óskir í samfélaginu um meiri þjónustu og koma aftur á jafnvægi á þjónustu á leigubifreiðamarkaði.
Haustið 2022 mælti ráðherra fyrir frumvarpi til nýrra laga um leigubifreiðaakstur þar sem m.a. er fallið frá þessum fjöldatakmörkunum til að tryggja að framboð mæti á hverjum tíma eftirspurn á þessu sviði. Með því að opna fyrirkomulag leyfisveitinga má sjá fyrir sér að aðgangur að leigubifreiðum aukist og samhliða fjölgun leyfa aukist samkeppni á markaðnum og þjónustan verði því hagkvæmari og lagi sig frekar að kröfum neytenda. Frumvarpið varð að lögum í desember 2022 og taka þau gildi 1. apríl 2023.
2. Hversu mörg atvinnuleyfi til að stunda leigubifreiðaakstur hafa verið í gildi ár hvert sl. 10 ár?
Samkvæmt gildandi lögum um leigubifreiðar, nr. 134/2001, er leigubílstjórum heimilt að leggja inn leyfi sín og nýta þau þar með ekki. Hér að aftan má sjá fjölda atvinnuleyfa í gildi á takmörkunarsvæðum frá 2014–2023 að frádregnum þeim leyfum sem lögð hafa verið inn.
Leyfi veitt/hámark | Innlögð leyfi | Virk leyfi | |
2023 | 753 | 83 | 670 |
2022 | 753 | 86 | 667 |
2021 | 653 | 118 | 535 |
2020 | 651 | 92 | 559 |
2019 | 651 | 42 | 609 |
2018 | 651 | 52 | 599 |
2017 | 650 | 43 | 607 |
2016 | 630 | 38 | 592 |
2015 | 630 | 44 | 586 |
2014 | 630 | 35 | 595 |
Ferðamálastofa tekur saman upplýsingar um fjölda ferðamanna sem koma til Íslands. Á heimasíðu stofnunarinnar er að finna töflu yfir heildarfjölda erlendra ferðamanna sem hingað komu síðastliðin níu ár. Tölur fyrir árið 2022 hafa ekki verið birtar en þær upplýsingar fengust frá Ferðamálastofu að ferðamenn sem fóru um Keflavíkurflugvöll voru 1.696.785 og með Norrænu komu 18.968 farþegar.
Keflavíkurflugvöllur | Akureyri/ Reykjavík |
Seyðisfjörður Norræna | Samtals | |
2021 | 687.802 | 109 | 10.270 | 698.181 |
2020 | 478.510 | 1.344 | 6.454 | 486.308 |
2019 | 1.986.153 | 8.164 | 18.887 | 2.013.204 |
2018 | 2.315.925 | 7.158 | 19.158 | 2.342.241 |
2017 | 2.195.271 | 6.450 | 22.353 | 2.224.074 |
2016 | 1.767.726 | 3.859 | 19.795 | 1.791.380 |
2015 | 1.261.938 | 8.662 | 18.540 | 1.289.140 |
2014 | 969.181 | 10.260 | 18.115 | 997.556 |
2013 | 781.016 | 9.696 | 16.637 | 807.349 |
2012 | 646.921 | 13.072 | 12.780 | 672.773 |
Heimild: Ferðamálastofa og Smyril Line. |
Eins og áður segir var atvinnuleyfum til aksturs leigubifreiða fjölgað um 100 árið 2022 vegna aukinnar eftirspurnar. Þá fela ný lög um leigubifreiðar í sér verulegar breytingar sem stuðla eiga að því að framboð mæti eftirspurn á hverjum tíma.
4. Hefur farið fram þarfagreining á fjölda atvinnuleyfa til að stunda leigubifreiðaakstur á Íslandi?
Samkvæmt gildandi lögum um leigubifreiðar er fjöldi atvinnuleyfa fyrir leigubifreiðar takmarkaður á tilteknum svæðum á grundvelli tillagna frá Samgöngustofu að fenginni umsögn viðkomandi sveitarstjórna, héraðsnefnda og félaga leigubifreiðastjóra. Þá skal ráðuneytið fara yfir og endurskoða fjölda atvinnuleyfa á hverju takmörkunarsvæði fyrir sig og grípa til aðgerða ef marktækt ójafnvægi hefur myndast milli eftirspurnar og framboðs, sbr. reglugerð um leigubifreiðar nr. 397/2003.