Ferill 652. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.
153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1246 — 652. mál.
Svar
menningar- og viðskiptaráðherra við fyrirspurn frá Indriða Inga Stefánssyni um hindranir fjölmiðla á Keflavíkurflugvelli.
1. Hvert er mat ráðherra á þeirri atburðarás sem átti sér stað aðfaranótt 3. nóvember 2022 á Keflavíkurflugvelli þegar flóðlýsingu var beint að fjölmiðlum til að hindra störf þeirra, með tilliti til alþjóðlegra mannréttindasamninga sem Ísland er aðili að sem og íslenskra laga?
Frjálsir og óháðir fjölmiðlar eru einn af mikilvægustu hornsteinum lýðræðislegs samfélags og mikilvægt að þeir fái svigrúm til að sinna störfum sínum sem m.a. felast í því að veita ríkinu aðhald. Í málefnum fjölmiðla þarf einnig ávallt að hafa í huga ákvæði 73. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, um vernd tjáningarfrelsis, sbr. einnig 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem leiddur var í lög með lögum um mannréttindasáttmála Evrópu, nr. 62/1994.
2. Brást ráðuneytið við ofangreindum atvikum á einhvern hátt? Ef svo er, hvernig? Ef ekki, af hverju ekki?
Samkvæmt lögum um stofnun opinbers hlutafélags um rekstur Keflavíkurflugvallar o.fl., nr. 76/2008, er innviðaráðherra heimilt að stofna opinbert hlutafélag um rekstur Keflavíkurflugvallar og Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar. Í 2. gr. laganna er tekið fram að ráðherra fjármála fari með hlut ríkisins í félaginu og framkvæmd laganna, sbr. þó 2. mgr. 5. gr. og 7. gr. Í ljósi ofangreinds er það mat menningar- og viðskiptaráðherra að þessum hluta fyrirspurnarinnar skuli beina til hlutaðeigandi ráðherra.
3. Hefur ráðherra áhyggjur af frelsi fjölmiðla í kjölfar ofangreindra atvika? Ef svo er, hyggst ráðherra beita sér til að tryggja öryggi frjálsrar fjölmiðlunar á Íslandi?
Það er forsenda opinnar lýðræðislegrar umræðu að fjölmiðlar geti veitt stjórnvöldum, atvinnulífinu og helstu stofnunum samfélagsins nauðsynlegt aðhald. Ísland situr í 15. sæti á lista alþjóðlegu samtakanna „Blaðamenn án landamæra“ yfir fjölmiðlafrelsi í ríkjum heims. Á meðal þeirra markmiða sem íslensk stjórnvöld hyggjast setja sér í væntanlegri fjölmiðlastefnu er að greina hvað skýri stöðu Íslands á listanum sem og til hvaða aðgerða sé nauðsynlegt að grípa til að færa Ísland ofar á listann og nær hinum Norðurlöndunum.