Ferill 641. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.
153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1405 — 641. mál.
Svar
fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Indriða Inga Stefánssyni um viðbrögð vegna fjölgunar bifreiða.
1. Hefur það komið til skoðunar í ráðuneytinu að forgangsraða fjármagni til almenningssamgangna umfram ívilnanir vegna kaupa á rafmagnsbifreiðum, sem Hagfræðistofnun Háskóla Íslands telur þjóðfélagslega óhagkvæmar, með tilliti til þess að slík forgangsröðun væri frekar til hagsbóta fyrir bæði tekjulægri hópa og ríkissjóð og myndi stuðla frekar að því að loftslagsmarkmiðum ríkisstjórnarinnar verði náð, þar sem nýskráðum bifreiðum fjölgaði um 12.156 umfram afskráðar árið 2022?
Bættar almenningssamgöngur og orkuskipti bílaflotans stuðla hvort tveggja að markmiðum Íslands í loftslagsmálum. Framlög ríkissjóðs til samgöngumála eru af fjölbreyttum toga og styðja m.a. við loftslagsmarkmið og fjölbreytta ferðamáta. Stjórnvöld styðja m.a. við almenningssamgöngur og kaup á vistvænum farartækjum og ráðstafa fjármagni í uppbyggingu innviða fyrir virka ferðamáta. Þótt almenningssamgöngur séu á meginábyrgð sveitarfélaga hefur ríkissjóður stutt við þær undanfarin ár og stendur m.a. að baki mikils meiri hluta fjármögnunar samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins.
Bein framlög ríkisins til Betri samgangna samkvæmt svonefndum samgöngusáttmála um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu áttu að nema 30 milljörðum kr. á 15 árum en sú kostnaðaráætlun er nú í endurskoðun. Auk þess hefur ríkið lagt Keldnaland til verkefnisins en ábata af uppbyggingu svæðisins var ætlað að skila a.m.k. 15 milljörðum kr., þótt leiða megi líkur að því að hann geti orðið meiri. Um helmingur af framkvæmdunum á gildistíma sáttmálans er fjárfesting í Borgarlínu og göngu- og hjólastígum. Þar er því verið að ráðast í stórátak í almenningssamgöngum í fjölmennustu sveitarfélögum landsins.
Þá má nefna að annar stuðningur ríkisins við rekstur almenningssamgangna nam alls 4,7 milljörðum kr. árið 2022. Þar eru meðtalin framlög til m.a. reksturs Strætós á höfuðborgarsvæðinu, reksturs ferja og Loftbrúar. Því til viðbótar hafa verið veittar ívilnanir á virðisaukaskatti vegna kaupa á reiðhjólum og rafmagnsbifhjólum sem námu 700 millj. kr. og vegna vistvænna bíla sem námu 10,5 milljörðum kr. árið 2022.
Í aðgerðaáætlun í loftslagsmálum kemur fram að skattaívilnanir vegna vistvænna ökutækja séu tímabundnar og sæti endurskoðun með tilliti til árangurs. Í samræmi við það voru ívilnanir vegna tengiltvinnbíla felldar niður í maí 2022. Um áramótin lækkaði hámarksniðurfelling virðisaukaskatts við kaup á rafmagns- og vetnisbifreiðum úr 1.560 þúsund kr. í 1.320 þúsund kr. á hverja bifreið og gildir ívilnunin út árið 2023. Áður en skattaívilnunin rennur sitt skeið á enda þarf að greina hvort þörf sé á áframhaldandi niðurfellingu virðisaukaskatts við kaup rafmagns- og vetnisbifreiða og hvort aðrar árangursríkari leiðir séu í boði, t.d. með beinum fjárveitingum.
Það er viðvarandi verkefni að forgangsraða í rekstri hins opinbera, þar á meðal á sviði loftslagsmála, þannig að ná megi sem mestum árangri í þágu tilgreindra markmiða með sem minnstum tilkostnaði. Skýrsla Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, Áhrif aðgerða í loftslagsmálum – kostnaðar- og ábatamat, sem ætla má að vísað sé til í fyrirspurninni, er þar meðal gagna sem hafa má til hliðsjónar. Kostnaðar- og ábatamat er þó í eðli sínu afar háð forsendum og það þarf að hafa í huga þegar niðurstöður skýrslunnar eru túlkaðar og þeim beitt.
2. Hefur það komið til skoðunar í ráðuneytinu að veita það fjármagn sem átti, samkvæmt framkvæmdaáætlun sáttmála um samgöngur á höfuðborgarsvæðinu, að leggja á árunum 2022 og 2023 til almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu í að mæta og draga úr fjölgun bifreiða í umferð?
Innviðaráðuneytið fer með samgöngumál og fjárlagaliði þess málaflokks og því er eðlilegt að beina fyrirspurn um þetta atriði til þess ráðuneytis.