Ferill 640. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.
153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1645 — 640. mál.
Svar
dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Indriða Inga Stefánssyni um nálgunarbann.
1. Hversu oft hefur lögregla verið kölluð út vegna rofs á nálgunarbanni hvert ár sl. 10 ár? Óskað er eftir sundurliðun eftir árum og eftir fjölda tilvika þar sem um endurtekna beiðni um aðstoð var að ræða vegna sama nálgunarbanns.
Meðfylgjandi tafla sýnir fjölda brota vegna rofs á nálgunarbanni, fjölda mála, fjölda mála þar sem um er að ræða fleiri en eitt rof á nálgunarbanni og fjölda sakborninga. Fjöldi mála segir til um það hversu oft lögregla var kölluð til vegna rofs á nálgunarbanni, og er þar bæði átt við þau tilvik þar sem lögregla var kölluð á vettvang og þegar brotaþoli leitaði til lögreglu vegna brotsins. Oft er um að ræða ítrekuð tilvik en þau geta bæði falið í sér rof á nálgunarbanni vegna samskipta í raunheimum eða vegna samskipta á netinu. Þannig er í nokkrum tilvikum um að ræða ítrekuð brot vegna fjölda sendinga á skilaboðum eða ítrekaða tilraun til samskipta á netinu.
| Fjöldi brota | Fjöldi mála | Fjöldi mála þar sem um ítrekuð brot er að ræða | Fjöldi sakborninga* | |
| 2013 | 30 | 29 | 1 | 15 |
| 2014 | 31 | 26 | 4 | 13 |
| 2015 | 31 | 26 | 3 | 19 |
| 2016 | 77 | 39 | 11 | 21 |
| 2017 | 99 | 41 | 10 | 23 |
| 2018 | 35 | 28 | 3 | 21 |
| 2019 | 53 | 35 | 7 | 23 |
| 2020 | 115 | 42 | 12 | 25 |
| 2021 | 83 | 58 | 8 | 29 |
| 2022 | 63 | 42 | 8 | 21 |
2. Hefur komið til þess að lögregla hafi á sl. 10 árum ekki sinnt ósk um aðstoð vegna rofs á nálgunarbanni? Ef svo er, hverjar voru ástæðurnar fyrir því að beiðni um aðstoð var ekki sinnt?
Við vinnslu svars við þessum tölulið fyrirspurnarinnar var óskað eftir upplýsingum frá öllum níu lögregluembættunum og var ekkert þeirra með dæmi um tilvik þar sem lögregla hefði ekki sinnt ósk um aðstoð vegna rofs á nálgunarbanni. Þar af leiðandi er ekki vitað til þess að slíkt hafi gerst né að lögreglan hafi haft slíkt mál til meðferðar eða upplýsingar um slíkt tilvik.
3. Til hvaða aðgerða grípur lögregla almennt til að framfylgja nálgunarbanni?
Brot gegn nálgunarbanni varðar við 232. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, og er rannsakað sem sakamál. Við meðferð slíkra mála getur lögregla þurft að grípa til aðgerða á grundvelli laga um meðferð sakamála, nr. 88/2008, eða lögreglulaga, nr. 90/1996. Ef brot á nálgunarbanni er yfirstandandi beitir lögregla þeim úrræðum og heimildum sem hún hefur samkvæmt lögum, svo sem að handtaka hinn brotlega. Það fer eftir aðstæðum hverju sinni og eðli brotsins hvaða valdheimildum lögreglan beitir.
Brot gegn nálgunarbanni geta átt sér stað með því að sá sem sætir nálgunarbanni nálgast brotaþola í raunheimum eða með rafrænum hætti. Ef lögreglu berst tilkynning um að sá sem sætir nálgunarbanni er að nálgast brotaþola með beinum hætti, svo sem ef hann fer á heimili eða vinnustað viðkomandi, leitast lögregla við að bregðast samstundis við og fara á vettvang og beita viðeigandi úrræðum, svo sem þvingunarráðstöfunum. Ef brot gegn nálgunarbanni á sér stað í gegnum rafræn samskipti, svo sem tölvupóst eða skilaboð á samfélagsmiðlum, þá leitast lögregla við að bregðast við með skjótum og viðeigandi hætti til að takmarka áframhaldandi brot.
Þegar ákvörðun er tekin um nálgunarbann er brotaþola ávallt leiðbeint hvernig hann geti brugðist við ef sá sem sætir nálgunarbanni brýtur gegn því. Þá er lögreglu skylt að tilnefna brotaþola réttargæslumann samkvæmt lögum. Einstaklingi, sem hefur fengið samþykkt nálgunarbann, er almennt boðið að setja símanúmer í vöktun hjá fjarskiptamiðstöð ríkislögreglustjóra en það getur leitt til styttri viðbragðstíma lögreglu þegar óskað er eftir aðstoð. Þá er hægt að útvega þolendum, sem eru í viðkvæmri stöðu eða hættu gagnvart geranda, neyðarhnapp sem tengdur er viðurkenndu öryggisfyrirtæki. Sum lögregluembætti hafa leiðbeint brotaþola við að setja upp smáforritið 112 í símtæki sínu og leiðbeint og aðstoðað viðkomandi við að útiloka gerandann á samfélagsmiðlum og loka fyrir númer viðkomandi.


