Ferill 639. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1562  —  639. mál.




Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Indriða Inga Stefánssyni um IBAN-númer.

     1.      Hefur komið til skoðunar í ráðuneytinu að breyta auðkenningu íslenskra IBAN-númera til að draga megi úr þeirri áhættu sem því fylgir að kennitala eiganda bankareiknings komi þar fram?
     IBAN stendur fyrir International Bank Account Number. Hér á landi samanstendur IBAN af landskóða, bankanúmeri, höfuðbók, reikningsnúmeri, kennitölu og jafnframt tveggja stafa tölu sem sett er saman eftir tilteknum leiðum. Samkvæmt upplýsingum frá Samtökum fjármálafyrirtækja og Landsnefnd SWIFT á Íslandi var samsetning IBAN fyrir íslenskt bankakerfi ákveðin af Reiknistofu bankanna á sínum tíma.
    Greiðsluþjónustuveitendur sem hafa starfsleyfi til að móttaka innlán og aðra endurgreiðanlega fjármuni frá almenningi (sjá 20. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki) geta notað IBAN-númer til að auðkenna reikninga. Þau eru ítarleg og notuð við miðlun greiðslna yfir landamæri. IBAN er dæmi um sérstakt kennimerki í merkingu laga nr. 114/2021, um greiðsluþjónustu (37. tölul. 3. gr.: „Samsetning bókstafa, tölustafa eða tákna sem greiðsluþjónustuveitandi úthlutar viðkomandi notanda greiðsluþjónustu og sem notandi greiðsluþjónustu skal tilgreina til að unnt sé að staðfesta ótvírætt deili á öðrum notanda greiðsluþjónustu og/eða númer greiðslureiknings þess notanda greiðsluþjónustu vegna greiðslu.“).
    Notkun kennitölu í þessu samhengi virðist í alþjóðlegum samanburði fremur vera undantekning en regla, en í 113. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, er afdráttarlaus krafa um að skrá skuli innlánsreikning á nafn viðskiptamanns, ásamt heimilisfangi hans og kennitölu. Við þinglega meðferð frumvarpsins sem varð að lögum nr. 161/2002 var horfið frá áformum þáverandi ráðherra viðskiptamála um að fella brott vísun til kennitölu í umræddu ákvæði, enda þótti slík breyting m.a. til þess fallin að valda erfiðleikum við skatteftirlit.
    Lög nr. 90/2018, um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, heimila berum orðum notkun kennitölu „ef hún á sér málefnalegan tilgang og er nauðsynleg til að tryggja örugga persónugreiningu“, en Persónuvernd getur skv. 13. gr. bannað eða fyrirskipað notkun hennar. Með lögum nr. 90/2018 var innleidd á Íslandi almenna persónuverndarreglugerðin (GDPR), en hún mælir fyrir um að aðildarríkin setji reglur um þetta efni. Hafa má í huga að kennitala telst ekki til viðkvæmra persónuupplýsinga í skilningi umræddra laga. Stofnunin hefur birt á vefsíðu sinni almennar leiðbeiningar um notkun kennitalna, en ráðuneytinu er ekki kunnugt um að Persónuvernd hafi tekið IBAN-númer sérstaklega til skoðunar í þessu samhengi.
    Ganga má út frá að notkun kennitölu í IBAN miði að því að auka áreiðanleika greiðsluupplýsinga, með því að stuðla að öruggari persónugreiningu en ella. Við mat á málefnalegum tilgangi notkunar kennitölu er m.a. viðeigandi að horfa til þess hvort örugg persónugreining sé mikilvæg fyrir hinn skráða, fyrir ábyrgðaraðila eða vegna almannahagsmuna.
    Ekki hefur komið sérstaklega til skoðunar í ráðuneytinu að endurskoða eða gera kröfu um breytingar á samsetningu íslenskra IBAN-númera.

     2.      Telur ráðherra að það samrýmist lögum og reglum um persónuvernd að kennitala eiganda bankareiknings komi fram í IBAN-númeri reiknings?
    Að mati ráðuneytisins samrýmist núverandi samsetning IBAN-númera gildandi persónuverndarlöggjöf, með vísan til 113. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, og 13. gr. laga nr. 90/2018, um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, enda hefur Persónuvernd ekki gert athugasemd við fyrirkomulagið.