Ferill 633. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.
153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1572 — 633. mál.
Svar
heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Gísla Rafni Ólafssyni um ljósmæður og fæðingarlækna.
1. Hversu mörg stöðugildi ljósmæðra og fæðingarlækna voru á Íslandi á hverju ári síðastliðin 10 ár, sundurliðað eftir sjúkrastofnunum?
Ljósmæður | ||||||||
HH (ársverk) | LSH | SAk | HVEST | HVE | HSA | HSS | HSU | |
2013 | 21,8 | 70,9 | 12,63 | 1,6 | 10,09 | 3,55 | ||
2014 | 22,0 | 83,0 | 12,3 | 1,6 | 10,63 | 3,56 | 5,5 | |
2015 | 19,9 | 85,7 | 12,05 | 1,6 | 10,48 | 3,94 | 5,5 | 8,4 |
2016 | 20,4 | 91,7 | 12,63 | 1,6 | 10,98 | 4,25 | 6,3 | 8,5 |
2017 | 21,2 | 90,8 | 12,63 | 1,18 | 10,49 | 3,75 | 5,5 | 7,9 |
2018 | 20,8 | 90,0 | 13,2 | 0,8 | 10,79 | 4,16 | 4,7 | 9,0 |
2019 | 17,5 | 90,9 | 12,93 | 1,02 | 11,7 | 4,03 | 5,1 | 8,5 |
2020 | 16,6 | 91,0 | 12,6 | 1,38 | 10,4 | 3,54 | 6,5 | 8,9 |
2021 | 18,0 | 95,6 | 14,17 | 1,82 | 10,88 | 3,48 | 6,1 | 10,8 |
2022 | 19,9 | 92,6 | 15,2 | 2,19 | 11,98 | 4,32 | 6,4 | 10,9 |
Kvensjúkdóma- og fæðingarlæknar | ||||||||
HH (ársverk) | LSH | SAk | HVEST | HVE | HSA | HSS | HSU | |
2013 | 1,2 | 6,4 | 3,16 | 0 | 1,5 | 0 | 0 | |
2014 | 0,8 | 6,5 | 3,86 | 0 | 2,75 | 0 | 0,7 | 0 |
2015 | 0,6 | 7,7 | 4,17 | 0 | 1,25 | 0 | 0,7 | 0 |
2016 | 0,6 | 7,8 | 4,2 | 0 | 1,25 | 0 | 0 | 0 |
2017 | 0,7 | 8,7 | 3,97 | 0 | 1,6 | 0 | 0 | 0 |
2018 | 0,7 | 9,4 | 3,35 | 0 | 2,0 | 0 | 0 | 0 |
2019 | 0,7 | 9,7 | 3,86 | 0 | 2,0 | 0 | 0 | 0 |
2020 | 0,8 | 10,4 | 4,4 | 0 | 2,0 | 0 | 0 | 0 |
2021 | 0,8 | 10,5 | 4,4 | 0 | 2,4 | 0 | 0 | 0 |
2022 | 0,8 | 10,5 | 4,37 | 0 | 2,6 | 0 | 0 | 0 |
Skipulag mönnunar er ekki með sama hætti á öllum stofnunum og því eru forsendur að baki tölulegum upplýsingum í töflunni ekki alls staðar þær sömu. Þetta á t.d. við um þætti eins og fjölda fastráðinna starfsmanna, verktaka, tímavinnu o.fl. Á smærri stofnunum vinnur heilbrigðisstarfsfólk stundum blönduð störf og sumar stofnanir bentu á að í sumum tilfellum gætu skurðlæknar sinnt fæðingarþjónustu.
Þá má benda á að hluti ljósmæðra hefur einnig sjálfstæðan rekstur í heimafæðingum og heimaþjónustu, auk þess sem tvö fæðingarheimili eru rekin í Reykjavík.
Svör bárust ekki frá Heilbrigðisstofnun Norðurlands.
2. Eru jafn mörg stöðugildi á Íslandi og á öðrum Norðurlöndum miðað við höfðatölu?
Eftirfarandi tölur varðandi samanburð á stöðugildum á Íslandi og Norðurlöndum eru fengnar úr gagnagrunni OECD fyrir árin 2019, 2020 og 2021.
Fæðingar- og kvensjúkdómalæknar á hverja 1.000 íbúa | |||
2019 | 2020 | 2021 | |
Danmörk | 0,12 | ||
Finnland | 0,14 | 0,14 | |
Ísland | 0,17 | 0,16 | 0,16 |
Noregur | 0,12 | 0,13 | 0,13 |
Svíþjóð | 0,14 |
Fæðingar- og kvensjúkdómalæknar á hverjar 1.000 fæðingar | |||
2019 | 2020 | 2021 | |
Danmörk | 11 | ||
Finnland | 17,01 | 16,79 | |
Ísland | 13,48 | 13,08 | |
Noregur | 12,09 | 13,02 | |
Svíþjóð | 12,54 |
Ljósmæður á hverja 1.000 íbúa | |||
2019 | 2020 | 2021 | |
Danmörk | 0,37 | ||
Finnland | 0,43 | ||
Ísland | 0,8 | 0,72 | 0,77 |
Noregur | 0,55 | 0,55 | 0,56 |
Svíþjóð | 0,77 |
Ljósmæður á hverjar 1.000 fæðingar | |||
2019 | 2020 | 2021 | |
Danmörk | 35,62 | ||
Finnland | |||
Ísland | 64,69 | 58,29 | |
Noregur | 54,24 | 56,02 | |
Svíþjóð | 68,97 |
3. Hvaða verklagsreglur gilda um endurmenntun ljósmæðra og fæðingarlækna?
Um löggiltar heilbrigðisstéttir, þar á meðal ljósmæður og lækna, gilda lög um heilbrigðisstarfsmenn, nr. 34/2012. Í III. kafla laganna, um réttindi og skyldur heilbrigðisstarfsmanna, er fjallað um að ráðherra sé heimilt að kveða á um endurmenntun heilbrigðisstarfsmanna í reglugerð, sbr. 6. mgr. 13. gr. laganna. Þá skal heilbrigðisstarfsmaður virða faglegar takmarkanir, sbr. 5. mgr. 13. gr. sömu laga. Einnig er fjallað um að endurmenntun heilbrigðisstarfsmanns sé skilyrði fyrir undanþágu heilbrigðisstarfsmanns til að reka eigin starfsstofu eftir að 75 ára aldri hefur verið náð, sbr. 2. mgr. 26. gr. laga um heilbrigðisstarfsmenn. Þegar sótt er um slíka undanþágu skal heilbrigðisstarfsmaður leggja fram yfirlit og gögn um endurmenntun, námskeið eða annað til staðfestingar á því með hvaða hætti hann hafi viðhaldið þekkingu sinni, faglegri færni og tileinkað sér nýjungar síðastliðin fimm ár, sbr. 3. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 620/2014 um skilyrði sem heilbrigðisstarfsmaður þarf að uppfylla til að fá undanþágu til að veita heilbrigðisþjónustu á eigin starfsstofu eftir að 75 ára aldri er náð.
Ekki hefur verið valið að fara þá leið að setja sérstaka reglugerð um endurmenntun heilbrigðisstarfsmanna á grundvelli reglugerðarheimildar í 6. mgr. 13. gr. laga um heilbrigðisstarfsmenn. Hins vegar hafa verið settar reglugerðir um menntun, réttindi og skyldur hverrar einustu löggiltu heilbrigðisstéttar og skilyrði fyrir starfsleyfi og eftir atvikum sérfræðileyfi, á grundvelli 5. gr. sömu laga. Í þeim reglugerðum er ávallt fjallað um faglegar kröfur og ábyrgð. Ljósmæður og læknar eru löggiltar heilbrigðisstéttir, sbr. 9. og 12. tölul. 1. mgr. 3. gr. laga um heilbrigðisstarfsmenn og á grundvelli 5. gr. laganna hafa verið settar reglugerðir fyrir hvora stétt, sbr. reglugerð um menntun, réttindi og skyldur ljósmæðra og skilyrði til að hljóta starfsleyfi og sérfræðileyfi, nr. 1089/2012 og reglugerð um menntun, réttindi og skyldur lækna og skilyrði til að hljóta almennt lækningaleyfi og sérfræðileyfi, nr. 467/2015. Á grundvelli síðarnefndu reglugerðarinnar getur embætti landlæknis veitt lækni sérfræðileyfi í fæðingar- og kvensjúkdómalækningum, sbr. IV. lið 2. mgr. 10. gr. reglugerðarinnar. Í reglugerðunum tveimur kemur eftirfarandi fram varðandi réttindi og skyldur og faglegar kröfur og ábyrgð hvorrar stéttar, sbr. 9. gr. reglugerðar nr. 1089/2012 og 12. gr. reglugerðar nr. 467/2015.
1. Ljósmóðir/læknir skal sýna sjúklingi virðingu og sinna störfum sínum af árvekni og trúmennsku og í samræmi við þær faglegu kröfur sem gerðar eru til ljósmæðra/lækna á hverjum tíma.
2. Ljósmóður/lækni ber að þekkja skyldur sínar og siðareglur stéttarinnar, viðhalda þekkingu sinni og faglegri færni og tileinka sér nýjungar er varða starfið.
3. Ljósmóðir/læknir skal kynna sér lög og reglugerðir sem gilda um heilbrigðisstarfsmenn og heilbrigðisþjónustu svo og önnur lög og stjórnvaldsfyrirmæli eftir því sem við á.
4. Ljósmóðir/læknir ber ábyrgð á þeirri heilbrigðisþjónustu sem hún/hann veitir.
5. Ljósmóðir/læknir skal virða faglegar takmarkanir sínar og leita eftir aðstoð eða vísa sjúklingi til annars heilbrigðisstarfsmanns eftir því sem nauðsynlegt og mögulegt er, svo sem ef hann telur sig ekki geta veitt sjúklingnum viðeigandi heilbrigðisþjónustu.
Í þessu felst að gerð er krafa um að ljósmæður og læknar þekki faglegar kröfur, skyldur, siðareglur, lög, reglugerðir og stjórnvaldsfyrirmæli sem um þau gilda, sem og að þau viðhaldi þekkingu sinni og faglegri færni og tileinki sér nýjungar í starfi. Þá bera þau sjálf ábyrgð á þeirri heilbrigðisþjónustu sem þau veita og bera einnig ábyrgð á því að vísa sjúklingi annað ef þau telja sig ekki geta veitt sjúklingi viðeigandi heilbrigðisþjónustu.
Hvað varðar verklagsreglur um endurmenntun ljósmæðra og fæðingar- og kvensjúkdómalækna þá er það á hendi hverrar heilbrigðisstofnunar að setja slíkar reglur fyrir sína stofnun. Hvorki ráðuneytið né embætti landlæknis hafa því slíkar verklagsreglur fyrir viðkomandi stéttir. Þá gilda siðareglur hvorrar fagstéttar fyrir sig um þá sem tilheyra fagstéttinni.
Ráðuneytið sendi fyrirspurn á Landspítala, Sjúkrahúsið á Akureyri, Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, einkareknar heilsugæslur, heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni og embætti landlæknis sem og Ljósmæðrafélag Íslands og Læknafélag Íslands varðandi verklagsreglur um endurmenntun ljósmæðra og fæðingar- og kvensjúkdómalækna. Óskað var eftir að Læknafélag Íslands aflaði upplýsinga frá Félagi íslenskra fæðingar- og kvensjúkdómalækna. Eftirfarandi er byggt á þeim svörum sem bárust.
Á Landspítala sækir starfsfólk sem sinnir klínískri vinnu í barneignaþjónustu árlega námskeiðið PROMPT (e. Practical Obstetric Multi-Professional Training) sem er að breskri fyrirmynd og er þjálfun í viðbrögðum og samskiptum þegar kemur að bráðaaðstæðum. Sértæk þjálfun í endurlífgun móður og nýbura er innifalin í þessu námskeiði. Talið er að svo þjálfun af þessu tagi nýtist þurfi 98% starfsfólks að sækja námskeiðið og er það því viðmiðið sem stefnt er að á Landspítala. Öllu starfsfólki stofnunarinnar stendur reglulega til boða að sækja námskeið í almennri endurlífgun og námskeið um öryggi sjúklinga (e. Basic Patient safety) en þar er um að ræða staðlað námskeið sem notað er víða um heim og snýr að öryggi sjúklinga almennt. Starfsfólk sem tekur að sér hlutverk vaktstjóra fær þjálfun á því sviði. Annað fræðslustarf á Landspítala er einnig töluvert og reglulega eru haldin námskeið eða vinnustofur á sviðinu. Vikulegir fræðslufundir fyrir lækna deildarinnar eru haldnir á veturna auk þess sem haldnir eru nokkrir fundir á ári þar sem farið er yfir vísindagreinar og þær rýndar. Þá stendur fagráð um ljósmæðraþjónustu innan Landspítala reglulega fyrir rannsóknarkaffi þar sem fjallað er um þau málefni sem efst eru á baugi hverju sinni og nýjar rannsóknir eru kynntar og ræddar. Auk endurmenntunar er öflug símenntun á Landspítala og viðurkennt þriggja ára sérnám í fæðingar- og kvensjúkdómalækningum er til staðar. Einnig er hvatt til þess að ljósmæður sæki meistaranám og hafa allar umsóknir verið samþykktar undanfarin ár. Nám til sérfræðiréttinda í ljósmóðurfræðum er einnig auglýst á hverju ári og eru nú fjórar ljósmæður í sérnámi á Landspítala. Á hverju ári er einnig auglýst ein námsstaða í fósturgreiningum fyrir ljósmæður.
Á Sjúkrahúsinu á Akureyri gildir almenn verklagsregla um sí- og endurmenntun starfsmanna. Hvað varðar ljósmæður og fæðingar- og kvensjúkdómalækna sérstaklega þá skipuleggur hópur lækna og ljósmæðra á fæðingardeild sjúkrahússins upprifjun á viðbrögðum við tilteknum bráðaaðstæðum tvisvar til þrisvar sinnum á ári. Þá eru læknar og ljósmæður virk í að fylgjast með nýjustu klínísku leiðbeiningum útgefnum á Íslandi, Norðurlöndunum og Bretlandi og kynna þær, ef við á, á morgunfundum og deildarfundum.
Varðandi endur- og símenntun lækna og ljósmæðra á Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins þá taka þessar stéttir námsleyfi samkvæmt kjarasamningum þeirra. Unnið er að starfsþróunarkerfi í stofnanasamningi Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og Ljósmæðrafélags Íslands þar sem m.a. munu koma fram reglur varðandi endur- og símenntun ljósmæðra.
Á öðrum heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni gilda almennt verklagsreglur hverrar stofnunar um námsleyfi annars vegar og verklagsreglur um styttri leyfi og ráðstefnur hins vegar. Misjafnt er hvort og hvaða kröfur eru gerðar til endurmenntunar á stofnunum en algengt er að þær geri kröfur um að ljósmæður og fæðingar- og kvensjúkdómalæknar hafi sótt ákveðin námskeið, t.d. PROMPT-námskeiðið sem hér hefur áður verið nefnt í umfjöllun um Landspítala, auk ýmissa annarra námskeiða, sér í lagi er varða bráðatilfelli og endurlífgun. Í svörum frá stofunum koma líka fram kröfur til skurð- og fæðingarlækna sem þar starfa en fæðingar- og kvensjúkdómalæknar eru ekki starfandi á þeim öllum, sbr. svar við 1. tölul. fyrirspurnar.
Læknar starfandi á Landspítala sækja einnig endurmenntun á innlendum fyrirlestrum á vegum fagfélaga sinna, en auk þess bæði námskeið og ráðstefnur erlendis. Reikna má með að hver læknir sæki slíka fundi eða ráðstefnur erlendis a.m.k. tvisvar á ári. Læknar hafa samningsbundinn rétt til námsferða, 30 daga leyfi árlega. Þá sækja ljósmæður á Landspítala endurmenntun á námskeiðum og ráðstefnum utan stofnunar, bæði hérlendis, erlendis og á netinu. Ljósmæður eru með samningsbundinn námsleyfisrétt, 10 daga á ári.
Ljósmæðrafélag Íslands skipuleggur reglulega námskeið og vinnusmiðjur fyrir ljósmæður sem haldnar eru í Reykjavík og á Akureyri. Fjöldi ljósmæðra fer einnig til Danmerkur á vinnusmiðjur sem félagið telur vera nauðsynlega endurmenntun fyrir ljósmæður sem starfa við fæðingar.
Samkvæmt kjarasamningi Ljósmæðrafélags Íslands við fjármála- og efnahagsráðherra fyrir hönd ríkissjóðs er gert ráð fyrir því að stofnun sendi ljósmóður á fræðslu- eða þjálfunarnámskeið á sínum forsendum og kostnað, einnig að ljósmóðir sem starfað hefur í fjögur ár á sömu stofnun eigi rétt á leyfi til að stunda endurmenntun eða framhaldsnám, enda sé það í samræmi við endurmenntunar- eða starfsþróunaráætlun stofnunar eða starfsmanns, sé hún til staðar, en fyrirvari er gerður ef stofnun lendir í erfiðleikum í rekstri og getur hún þá takmarkað fjöldann sem nýtir réttinn við 10% á ári.
Í 11. kafla kjarasamnings Ljósmæðrafélags Íslands við fjármála- og efnahagsráðherra fyrir hönd ríkissjóðs frá 1. apríl 2019 er fjallað um stofnanasamninga sem hluta af kjarasamningum. Þar segir að með þeim eigi að tryggja þróun og stuðla að skilvirkara launakerfi sem tekur mið af þörfum og verkefnum stofnunar og starfsmanna hennar, með tilliti til eðli starfseminnar og skipulags. Þar er tekið fram að markmið með stofnanasamningi sé m.a. að auka gæði þjónustu, bæta rekstrarskipulag og nýtingu fjármuna, skapa grundvöll til hagræðingar og fyrir skilvirkara launakerfi. Stofnanasamningar eigi að gefa starfsmönnum tækifæri til að þróast og bæta sig í starfi og þar með auka möguleika þeirra á bættum kjörum. Þannig sé ákvörðun um launasetningu starfa nær starfsvettvangi og því hægt að bregðast hraðar við breytingum sem eiga sér stað.
Félag íslenskra fæðingar- og kvensjúkdómalækna kveðst ekki hafa sett verklagsreglur um endurmenntun fæðingar- og kvensjúkdómalækna og hefur ekki eftirlit með endurmenntun þeirra. Læknafélag Íslands vísar til kjarasamnings fjármála- og efnahagsráðherra og Læknafélags Íslands þar sem ákvæði um endurmenntun eru í 8. kafla. Félagið segir að nýting námsleyfisréttinda lækna hafi verið í kringum 60% árin 2018 og 2019 og að kostnaður heilbrigðisstofnana vegna sí- og endurmenntunar lækna haf numið samtals hátt í 700 millj. kr. fyrir árin 2018 og 2019.
Þá bendir Læknafélag Íslands á að nefnd sem vann að sí- og endurmenntunarmálum á vegum stjórnar félagsins í kjölfar samþykktar ályktunar aðalfundar 2020, setti lágmarksviðmið vegna sí- og endurmenntunar og voru þau kynnt á aðalfundi Læknafélags Íslands árið 2021. Sama nefnd stóð einnig fyrir því að smíðað var skráningarkerfi sí- og endurmenntunar lækna sem kallast Mínerva. Kerfið var tilbúið til reynslu í mars 2022. Nú er verið að gera breytingar á kerfinu eftir ábendingar notenda. Læknafélag Íslands segir loks að allir læknar verði hvattir til að skrá sí- og endurmenntun sína í kerfið.