Ferill 631. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1443  —  631. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Indriða Inga Stefánssyni um aðgerðir til að tryggja heilindi kosninga.


     1.      Hyggst ráðherra bregðast við þeim álitaefnum sem komu upp í kjölfar kosninga til Alþingis 25. september 2021 varðandi framkvæmd kosninga og talningu í Norðvesturkjördæmi? Ef svo er, hvernig?
    Rétt er að benda á að kosningar til Alþingis sem fram fóru 25. september 2021 fóru fram samkvæmt þágildandi lögum um kosningar til Alþingis, nr. 24/2000. Ný kosningalög tóku gildi 1. janúar 2022. Við sveitarstjórnarkosningar sem fram fóru vorið 2022 á grundvelli hinna nýju kosningalaga komu í ljós ýmsir annmarkar á löggjöfinni sem brýnt var að ráða bót á. Á vegum ráðuneytisins hefur verið unnið að breytingum á hinum nýju kosningalögum. Voru áform þess efnis birt í samráðsgátt stjórnvalda og þar óskað eftir upplýsingum um það sem betur mætti fara í hinum nýju lögum. 1
    Á grundvelli framangreinds áformaskjals og þeirra athugasemda sem fram komu í samráðsgátt var unnið frumvarp til breytinga á kosningalögum. Var frumvarpið birt í Samráðsgátt stjórnvalda 24. febrúar 2023 og þar gefinn kostur á að koma með athugasemdir. Verður frumvarpið lagt fram á Alþingi nú í mars. Í frumvarpinu er m.a. að finna tillögur um endurtalningu atkvæða og að tekin verði upp svokölluð næmisgreining þegar ljóst er að niðurstaða kosninga velti á fáum atkvæðum. Með þessum breytingartillögum er brugðist við ábendingum sem fram komu í greinargerð undirbúningsnefndar um rannsókn kjörbréfa vegna alþingiskosninga 2021.

     2.      Telur ráðherra að kosningalög, nr. 112/2021, tryggi nægilega vandaða meðferð við framkvæmd og talningu í kosningum í ljósi þess sem átti sér stað í Norðvesturkjördæmi haustið 2021?
    Vísað er til svars við 1. tölul. fyrirspurnarinnar þar sem í framangreindu frumvarpi til breytinga á lögum um kosningar, nr. 112/2021, eru lagðar til breytingar sem styrkja eiga vandaða meðferð við framkvæmd talningar atkvæða.

     3.      Telur ráðherra að endurskoða þurfi þá verkferla lögreglu og ákæruvalds sem snúa að rannsókn mögulegra brota á kosningalögum, nr. 112/2021?
    Ekki verður að mati ráðherra séð að nauðsyn sé á slíkri endurskoðun.

     4.      Telur ráðherra tilefni til að endurskoða reglur um ábyrgð yfirkjörstjórnar eða annarra embættismanna sem sjá um framkvæmd kosninga á mögulegum brotum á kosningalögum, nr. 112/2021?
    Ekki verður séð að þörf sé á slíkri endurskoðun.

     5.      Hvernig hyggst ráðherra tryggja réttindi umboðsmanna til að vera viðstaddir talningu atkvæða, skv. 58. gr. kosningalaga, nr. 112/2021, í komandi kosningum í ljósi þess misbrests sem þar varð á við talningu í Norðvesturkjördæmi haustið 2021?
    Í framangreindu frumvarpi er m.a. gert ráð fyrir því að ráðherra fái heimild til að setja reglugerð um umboðsmenn, þ.m.t. um réttindi þeirra og skyldur við talningu. Þá er einnig lögð til breyting á 100. gr. laganna þar sem kveðið er á um að yfirkjörstjórnir boði umboðsmenn til að vera viðstaddir talningu atkvæða.

     6.      Hvaða skýringar hefur ráðherra á aðgerðarleysi ákæruvaldsins vegna kæra á grundvelli 124. gr. laga um kosningar til Alþingis, nr. 24/2000, sem er sambærilegt ákvæði og a-liður 1. mgr. 136. gr. kosningalaga, nr. 112/2021, í ljósi þeirrar atburðarásar sem átti sér stað og leiddi til þess að yfirkjörstjórn Norðausturkjördæmis hafði réttarstöðu sakbornings?
    Ráðuneytið bendir á að dómsmálaráðherra fer ekki með ákæruvald og endurskoðar ekki ákvarðanir ákæruvaldsins heldur eru þau verkefni í höndum þar til bærra stjórnvalda á grunni málsmeðferðarreglna laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála. Rétt er þó að taka fram að ekki verður séð í hverju það aðgerðaleysi sem fyrirspurnin vísar til hafi falist.
1     samradsgatt.island.is/oll-mal/$Cases/Details/?id=3207