Ferill 620. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.
153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1235 — 620. mál.
Svar
fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Helgu Völu Helgadóttur um viðbrögð við vanvirðandi framkomu af hálfu ráðherra eða ráðuneytisstjóra og sálfræðiþjónustu fyrir starfsmenn ráðuneyta.
1. Hvert geta starfsmenn fjármála- og efnahagsráðuneytis leitað sem telja sig verða fyrir vanvirðandi framkomu af hálfu ráðherra eða ráðuneytisstjóra, svo sem einelti og áreitni eða annars konar ofbeldi?
Vísað er til fyllri upplýsinga um forvarna- og viðbragðsáætlun Stjórnarráðsins sem fram koma í svari forsætisráðherra við sams konar fyrirspurn á þingskjali 658.
Starfsfólk fjármála- og efnahagsráðuneytisins getur leitað til næsta yfirmanns eða mannauðsstjóra með tilkynningar er varða EKKO-mál (einelti, kynbundin áreitni, kynferðisleg áreitni, ofbeldi). Ráðuneytisstjóri, skrifstofustjórar og mannauðsstjóri fá viðeigandi þjálfun og fræðslu til að taka á móti og meðhöndla EKKO-tilvik. Að auki getur starfsfólk leitað milliliðalaust til fagaðila og fengið bókað samtal við fagaðila til að ræða slík mál og fá upplýsingar og ráðgjöf um næstu skref.
2. Hefur ráðuneytið gert samning um sálfræðiþjónustu fyrir starfsmenn sl. 5 ár? Ef svo er, hvert var tilefni slíks samnings/samninga og hver var kostnaður af honum/þeim? Svör óskast sundurliðuð eftir málefnasviðum ráðuneytisins í ljósi þeirra breytinga sem gerðar voru á ráðuneytunum í fyrra.
Fjármála- og efnahagsráðuneytið er með samning um heildstæða þjónustu á sviði heilsuverndar. Sú þjónusta felur almennt í sér að gæta heilsutengdra hagsmuna starfsfólks með það að markmiði að lágmarka fjarvistir vegna veikinda og streitutengdra þátta og grípa fyrr inn í heilsufarslegan vanda sem leitt getur til heilsubrests. Ráðuneytið greiðir mánaðargjald fyrir aðgengi að þessari fagþjónustu sem árið 2023 nemur 131.000 kr.
3. Hver er útlagður kostnaður ráðuneytisins af kaupum á sálfélagslegum stuðningi við starfsfólk vegna vanlíðunar og/eða álags á vinnustað sl. 5 ár? Svar óskast sundurliðað eftir málefnasviðum ráðuneytisins í ljósi þeirra breytinga sem gerðar voru á ráðuneytunum í fyrra.
Kostnaður fjármála- og efnahagsráðuneytis vegna kaupa á sálfélagslegum stuðningi við starfsfólk síðastliðin fimm ár var samtals 725.092 kr.
Ekki urðu þess háttar breytingar á málefnasviðum fjármála- og efnahagsráðuneytisins við ríkisstjórnarskiptin að tilefni sé til sundurliðunar vegna þeirra.